Samninganefnd Eflingar hefur samþykkt að gera Samtökum atvinnulífsins (SA) tilboð um kjarasamning til rúmlega árs. Í tilboðinu felst 56,7 þúsund króna flöt krónutöluhækkun á öll laun og þar að auki 15 þúsund króna framfærsluuppbót til viðbótar. Þessar hækkanir kæmu til framkvæmda frá 1. nóvember á þessu ári, verði tilboðið samþykkt, og myndi samningurinn gilda til 31. janúar 2024.
Efling segir í fréttatilkynningu að með tilboðinu sé komið til móts við kröfur um skammtíma kjarasamning, en slíkar kröfur hafi komið fram hjá öðrum verkalýðsfélögum, ríkisstjórninni sem og SA. Hækkanir í tilboði Eflingar séu áþekkar því sem gera hefði mátt ráð fyrir á fyrsta ári í þriggja ára samningi, líkt og krafist var í upphaflegri kröfugerð.
„Að mati samninganefndar Eflingar þurfa umsamdar hækkanir að verja heimili láglauna- og meðaltekjufólks fyrir áhrifum verðbólgunnar og tryggja þeim eðlilega hlutdeild í hagvexti og fádæma góðri afkomu fyrirtækjanna. Gildir þar einu hvort samið er til skamms eða langs tíma.
Samninganefnd Eflingar telur önnur stéttarfélög hafa gert mistök með því að fallast á aðferðafræði prósentuhækkana í viðræðum við SA. Tillögur hafa verið til umræðu þar sem gert er ráð fyrir tvöfalt meiri hækkunum til hátekjuhópa en til láglaunafólks.“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir í fréttatilkynningu að allir séu sammála því að ofþensla og ofneysla í hærri helmingi launastigans séu nú eitt helsta vandamál í efnahagslífinu hér á landi.
„Seðlabankinn hefur gripið til hóprefsinga gegn allri þjóðinni í formi stýrivaxtahækkana með vísan til þessarar stöðu. Í þessu samhengi er það augljós fjarstæða að ræða um að hálaunafólk eigi að fá tvöfaldar hækkanir á við láglaunafólk. Það er hins vegar mögulegt að laga sig að kröfum um skammtímasamning. Tilboð okkar er skammtíma útfærsla á skynsamri og vel rökstuddri kröfugerð samninganefndar Eflingar.“
Texti tilboðsins til SA er eftirfarandi:
Tilboð Eflingar til Samtaka atvinnulífsins
um eins árs kjarasamning
Efling leggur fram tilboð um kjarasamning til rúmlega eins árs, sem byggir á hagvexti, framleiðniaukningu og verðbólguspám.
Launaliður í upphaflegri kröfugerð var settur fram í tvennu lagi: Grunnuppfærsla á lífskjarasamningnum frá 2019 byggð á verðbólguspám fyrir hvert ár og að auki var farið fram á sérstaka framfærsluuppbót sem nam 30.000 krónum á samningstímanum. Sú uppbót miðaði að því að auðvelda láglaunafólki að ná endum saman í daglegum rekstri heimilis, með hliðsjón af niðurstöðum Kjarafrétta Eflingar nr. 4 („Hallarekstur á heimilum láglaunafólks“).
Núverandi tilboð er sett fram á svipuðum forsendum. Lagt er til að samningurinn gildi frá 1. nóvember 2022 til loka janúar 2024 og byggi á flötum krónutöluhækkunum um 56.700 kr. á mánuði og að auki komi sérstök framfærsluuppbót sem nemi 15.000 krónum á mánuði.
Þessi útfærsla ver kaupmátt meðallauna en færir lægri hópum kaupmáttaraukningu sem nemur svigrúmi vegna framleiðniaukningar. Þessi útfærsla hentar vel þeim efnahagsaðstæðum sem nú ríkja og tryggir almennu launafólki eðlilegan hlut af hagvextinum og framleiðniaukningunni og aftrar höfrungahlaupi upp launastigann.