fbpx
Miðvikudagur 01.febrúar 2023
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Aðfluttur mannauður — ekki „útlent vinnuafl“

Eyjan
Sunnudaginn 9. október 2022 18:37

„Ódysseifur við hirð Alkinóusar“, málverk eftir Francesco Hayez (1791–1882).

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Hverr sá maður, sem nokkura tilfinning hefir í brjósti sér, metur útlendan mann og miskunnarþurfa jafnt sem bróður sinn.“ — Þannig er hinn göfugi Alkinóus, konungur Feaka, látinn komast að orði eftir að Ódysseifur hafði viknað og tárin undan hvörmunum vætt kinnar hans. Hann var þá aðframkominn af harmi, víðsfjarri heimahögum.

Þetta er ævafornt stef í vestrænni menningu og ekki úr vegi að huga að þessari speki á þeim þjóðflutningatímum sem við nú lifum. Kannski eru málefni innflytjenda veigamesta viðfangsefni samtímans en um þessa mundir búa hér um 61 þúsund manns með erlent ríkisfang og fer hratt fjölgandi. Við blasir að málaflokkurinn er í ólestri þó ekki væri nema í ljósi þess hve illa þeim sem hingað flytjast gengur að gerast fullgildir borgarar í samfélaginu. Það sást til að mynda í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum þar sem dræma þátttöku mátti af stórum hluta skýra í ljósi þess að fólk af erlendum uppruna mætti ekki á kjörstað — jafnvel vegna þess að því var ekki kunnugt um kosningarétt sinn.

Óblíðar móttökur

Berglind Ásgeirsdóttir sendiherra var einn frummælenda á fundi Þjóðvinafélagsins á dögunum þar sem rætt var um framtíðina en hún gaf erindi sínu yfirskriftina „Nýr mannauður“. Þar gerði hún að umtalsefni það fólk sem flyst hingað til lands, þær móttökur sem það fær og hvernig það getur bætt íslenskt samfélag. Berglind ræddi þessi mál líka í morgunútvarpi Rásar 1 á þriðjudaginn var og sagði meðal annars:

„Það er stórkostlegt fyrir okkur að hafa fengið svo margt fólk hingað sem er að taka þátt í uppbyggingu landsins. En við tölum alltaf um fólkið sem vinnuafl en þessir nýju íbúar eru svo miklu meira en vinnuafl, þetta er fólkið sem mun verða nýir Íslendingar. Og hvað erum við að gera til að gera fólki kleift að verða nýir Íslendingar?“

Berglind nefndi nokkur dæmi úr samanburðargögnum frá Efnahags- og framfarastofnuninni. Í hverju landi er skilgreint hvað er fátækt og hvar fátæktarmörk liggja en tölur sýndu að yfir helmingur erlendra ríkisborgara sem hér býr lifir undir fátæktarmörkum en er samt að störfum. Þetta er allt önnur mynd en blasir við hjá nágrannaþjóðunum. Fara þarf vestur til Bandaríkjanna eða suður til Sviss til að finna sambærileg hlutföll. Þá búi mjög stór hluti sama fólks við þröngan húsnæðiskost og að minnsta kosti helmingur erlendra ríkisborgara á Íslandi er ofmenntaður fyrir þau störf sem þeir sinna, en um fjörutíu af hundraði þessa hóps hefur lokið háskólamenntun sem er hærra menntunarstig en meðal innfæddra. Mörgu þessu fólki gengur illa að fá hin erlendu próf viðurkennd og samfélagið fer þar með á mis við hæfileika viðkomandi.

Berglind vísaði líka í viðtalinu til nýrrar skýrslu þar sem könnuð var íslenskukunnátta fimm ára barna á leikskólum sem eru fædd hér á landi en eiga erlenda foreldra. Skýrslan leiddi í ljós að umrædd börn voru mjög langt á eftir börnum sem eiga innlenda foreldra. 

Margt má læra af öðrum þjóðum

Í þessu efni er hægt að læra margt af öðrum þjóðum. Berglind vísaði meðal annars til Kanada og nefndi að eftir fimm ára búsetu þar í landi væru tekjur innflytjenda orðnar hærri meðaltekjum Kanadamanna og þá vegnar börnum innflytjenda í Kanada betur en börnum innfæddra. Ástæða þessa er mjög markvisst starf og jafnvel eru sett skilyrði um hámarksfjölda fólks af erlendum uppruna á vinnustöðum til að vinna gegn því að heilu atvinnugreinarnar verði eingöngu mannaðar fólki frá öðrum löndum. Berglind benti á að í ljósi biturrar reynslu Norðurlandabúa og Þjóðverja væru menn mjög að taka sig á til að tryggja bætta aðlögun innflytjenda að samfélögunum en hér á landi ríkti andvaraleysi í þessum efnum. Í viðtalinu sagði hún meðal annars:

„Ég held að ef við grípum ekki til mjög markvissra aðgerða þá munu til dæmis börnin af erlendum uppruna ekki hafa forsendur til að nýta sér tækifæri sem eru í boði og þau geta hreinlega verið dæmd til að búa við fátækt og vera í jaðarsamfélagi — og foreldrarnir þeirra munu ekki upplifa þennan félagslega hreyfanleika sem var aðalsmerki á tuttugustu öld.“

Hún segir grundvallaratriðið í þessu efni vera að hætta þurfi að líta á fólkið sem „vinnuafl“ heldur eigi að líta á það sem tilvonandi nýja Íslendinga. Þá stakk hún upp á því á fundi Þjóðvinafélagsins að sveitarfélögin í landinu héldu árlega hátíð til að fagna nýjum íslenskum ríkisborgurum í sínu sveitarfélagi. Nýir Íslendingar yrðu að finna að þeir væru velkomnir. Hér þyrfti gríðarlegt átak en ekki þýddi að ætlast til þess að ríkisvaldið eitt leysti þessi mál. Landsmenn af innlendum uppruna yrðu að taka þetta til sín.

Hún nefndi að stjórnvöld þyrftu að setja sér markmið í þessu efni. Kanadamenn stefndu til að mynda að fjölgun landsmanna með móttöku innflytjenda sem leið til að auka hagsæld. Hér á landi eru engin slík markmið. Stjórnvöld nálgast málaflokkinn einkum og sér í lagi sem vandamál en sjá ekki tækifærin — nema þá sem lausn á skorti á „vinnuafli“.

Íslenskan er lykilatriði

Þegar aðfluttir íbúar eru spurðir hvað þá helst skorti nefna flestir íslenskukunnáttu. Sem betur fer eru sífellt fleiri farnir að huga að þessu mikilvæga málefni og hefur þar munað mestu um ötult starf Eiríks Rögnvaldssonar, prófessors emeritus. Hann ritaði grein sem birtist á Vísi fyrir skemmstu þar sem hann stakk upp á því að verkalýðshreyfingin gerði kröfu um það í komandi kjaraviðræðum að fólki af erlendum uppruna yrði gefinn kostur á íslenskukennslu á vinnutíma. Formaður Eflingar tók hugmyndinni fálega og sagði „verka- og láglaunafólk“ hafa „um stærri og veigameiri hluti að hugsa akkúrat núna heldur en það að vernda eigi þjóðtunguna“. Þessi orð Sólveigar Önnu Jónsdóttur lýsa skilningsleysi því gagnvart fólki að erlendum uppruna snýst þetta að minnstu leyti um verndun íslenskunnar heldur hvernig þessu sama fólki og afkomendum þess muni vegna í íslensku samfélagi.

Og líkt og Berglind Ásgeirsdóttir benti á er ekki hægt að ætlast til þess að ríkisvaldið leysi þessi mál eitt og sér. Hver og einn þarf að horfa í eigin barm og til dæmis sýna fólki sem talar ekki fullkomna íslensku umburðarlyndi og þolinmæði. Samhliða þarf líka að gera kröfur til þess að alls staðar sé í boði þjónusta á íslensku, hvort sem er í verslunum eða veitingahúsum. Og úr því að hér að framan var minnst á Kanada þá er starfandi sérstök stofnun í Québec sem sér um að framfylgja því að veitt sé þjónusta á frönsku á öllum opinberum stöðum. Það þarf nefnilega hvort tveggja í senn að sýna umburðarlyndi og gera kröfur.

Þær tölur sem Berglind Ásgeirsdóttir nefndi í erindinu sýna að hér stefnir hraðbyri í óefni, aðskilnað tveggja þjóða í landinu, innfæddra og aðfluttra. En dæmin erlendis frá, eins og til að mynda Kanada, sýna að vel er hægt að ná tökum á málaflokknum. Til þess þarf þó mikið átak og skýra stefnu til frambúðar. Íslenskir ráðamenn verða að hætta að nálgast útlendingamál sem viðbrögð við vandamáli ellegar vinnuaflsþörf einstakra atvinnugreina. Það er beinlínis vanvirðandi að hlutgera með slíkum hætti fólk af holdi og blóði. Framtíð þjóðarinnar er að stórum hluta háð því hvernig okkur tekst að virkja aðfluttan mannauð og að hann verði að fullgildum Íslendingum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
13.11.2022

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu

Björn Jón skrifar: Lærdómurinn af Baugsmálinu
EyjanFastir pennar
07.11.2022

Björn Jón skrifar: Grund í hundrað ár

Björn Jón skrifar: Grund í hundrað ár
EyjanFastir pennar
02.10.2022

Þurfum ekki fleiri atvinnupólitíkusa í sveitarstjórnir

Þurfum ekki fleiri atvinnupólitíkusa í sveitarstjórnir
EyjanFastir pennar
25.09.2022

Björn Jón skrifar: Hlustum á Píratana

Björn Jón skrifar: Hlustum á Píratana
EyjanFastir pennar
27.08.2022

Hjálpum Ara!

Hjálpum Ara!
EyjanFastir pennar
21.08.2022

Björn Jón skrifar: Að vera eða ekki vera sósíalisti

Björn Jón skrifar: Að vera eða ekki vera sósíalisti