Kjarninn greindi frá því í gær að Agnieszka Ewa Ziólkowska og Ólöf Helga Adolfsdóttir, fyrrverandi formaður og varaformaður Eflingar, hefðu á forystutíma sínum fengið aðgang að tölvupóstum til Sólveigar Önnu Jónsdóttur og Viðars Þorsteinssonar, sem skömmu áður höfðu sagt upp sem formaður og framkvæmdastjóri félagsins.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerir þetta að umtalsefni í pistli á Facebook-síðu sinni í dag. Segir hann þetta framferði vera hrikalegt og glæpsamlegt. Hann fullvissar líka alla þá sem senda honum tölvupóst um öryggi slíkra sendinga og segir að aldrei hefði hvarflað að honum að reyna að fá aðgang að tölvupóstum fyrrverandi formanna VR til að grafa upp skít um þá. Ragnar segir:
„Siðferðislega spurningin er svo önnur því ekki hefði mér dottið í hug að kalla eftir því að fá aðgang að tölvupóstum fyrrum formanna VR, bara af því bara, finna mögulega einhvern skít, koma höggi á viðkomandi eða til þess að finna eitthvað neikvætt um mig sjálfan. Þó svo að ég hafi átt í deilum við nokkra þeirra í gegnum tíðina þá eru þetta einfaldlega mörk sem við stígum ekki yfir.
Ég vil með þessum skrifum fullvissa alla þá sem hafa sent mér tölvupósta eða gögn á netfang mitt hjá félaginu að reglur VR og ferlar varðandi meðferð á tölvupóstum starfsmanna eru með þeim hætti að óvinnandi vegur væri fyrir nýjan formann eða stjórnendur að komast í slík gögn með þeim hætti sem lýst er í grein Kjarnans, nema með aðkomu dómstóla.“