„Á síðasta kjörtímabili lagði meirihlutinn í borgarstjórn allt kapp á að hindra bílaumferð inn á ákveðin svæði í borginni. Fólk var hvatt til að hjóla eða taka Strætó. En Strætó þarf þá að virka og fólk að hafa ráð á að taka sér far,“ segir í bókun borgarfulltrúa Flokks fólksins, Kolbrúnar Baldursdóttur, sem lögð var fram á síðasta borgarstjórnarfundi.
Eins og fram hefur komið hækkaði Strætó gjaldskrá sína um 12,5% um mánaðamótin. Þannig hækkaði til að mynda árskort barna frá 12 ára aldri úr 40 þúsund krónum í 45 þúsund krónur.
Alexandra Briem, forseti borgarstjórnar og fulltrúi borgarinnar í stjórn Strætó, sagði af þessu tilefni að hækkun gjaldskrár Strætó hafi verið nauðsynleg, annars hefði fyrirtækið farið í þrot.
Ódýr bíll skárri kostur
Í bókun Kolbrúnar sagði ennfremur: „Tíðni strætóferða skiptir miklu máli en ekki síður kostnaður hvers fargjalds. Árskort hafa hækkað svo um munar. Í raun er engin leið að ferðast hagkvæmt með strætó. Hvað varð um loforð Framsóknar um frítt í strætó?“ Sem kunnugt er var það eitt af kosningaloforðum Framsóknarflokksins í borginni að það yrði ókeypis í Strætó fyrir börn.
„Strætó er á barmi gjaldþrots. Hvernig á fólk að komast leiðar sinnar? Þetta eru einu almennings samgöngurnar. Er ekki bara best að fá sér bíl kunna margir að segja sem treystu á strætó. Þetta er hvatning til þess því það er skárra að finna sér ódýran bíl en að treysta á strætó, sem er bæði óhagkvæmur og dýr,“ sagði Kolbrún í bókun sinni.
Strætó sem grunnþjónusta
Umræða um Stætó og almenningssamgöngur fór fram á síðasta fundi borgarstjórnar. Borgarfulltrúi Vinstri grænna, Líf Magneudóttir, lagði fram bókun þar sem sagði að mikilvægt væri að skilgreina strætó sem grunnþjónustu.
„Borgarstjórn á að taka skýra afstöðu með því og biðla til Alþingis að festa strætó í lög, skilgreina þjónustustig og lykilleiðir um land allt og tíðni ferða. Almenningssamgöngur eru grundvöllur þess að nútímasamfélag gangi liðlega. Þær minnka álag á umferðarkerfið, draga úr útblæstri, styðja ferðafrelsi fólks og tengja íbúa við störf, þjónustu og afþreyingu. Það er kominn tími til að festa rekstur og þjónustu strætó í lög,“ segir ennfremur í bókun Lífar.
Verkefni til næstu ára
Sósíalistar tóku undir með Vinstri grænum og sögðu nauðsynlegt að skilgreina strætó sem lögbundna grunnþjónustu.
Borgarfulltrúar meirihlutans sögðu í sinni bókun að það sé aðkallandi verkefni til næstu ára að lenda því hvernig staðið verði að rekstri almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar. Í því samhengi þurfi að skoða alla möguleika og tryggja verkefninu fjármögnun.