„Hlutfallslega sækja mun fleiri um alþjóðlega vernd hér á landi en í hinum ríkjum Norðurlandanna, sem verður að teljast sérkennilegt út frá stærð og legu landsins,“ segir Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjar- og menntamálanefndar Alþingis, í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag. Nefndin var nýlega í heimsókn í Noregi og Danmörku og kynnti sér meðal annars vinnubrögð stjórnvalda í þessum ríkjum í útlendingamálum.
Bryndís segir að meiri sátt ríki um málaflokkinn í þessum ríkjum en á Íslandi. Lögð sé áhersla á að hælisleitendur njóti vandaðrar og sanngjarnrar málsmeðferðar en virk endursendingarstefna sé í gildi fyrir þá sem ekki hljóta vernd. Bryndís bendir á að hingað leiti margt fólk sem þegar hafi hlotið vernd í öðru Evrópulandi:
„Á síðustu árum hefur verið áberandi hér á landi hversu hátt hlutfall umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur þegar hlotið vernd í öðru Evrópuríki. En Ísland sker sig úr hvað þetta varðar með séríslenskar reglur fyrir umsækjendur í þeirri stöðu. Er eðlilegt að Ísland geri það? Eru þeir sem hlotið hafa vernd í öðru Evrópuríki í neyð og óttast um líf sitt og frelsi – en það er neyðin sem verndarkerfið er sniðið utan um.“
Bryndís ræðir mikilvægt hlutverk sveitarfélaga við aðlögun flóttamanna sem njóta verndar að íslensku samfélagi. Ennfremur leggur hún til að íbúum utan EES-svæðisins verði gert auðveldara að fá dvalar- og atvinnuleyfi á Íslandi:
„En fyrir þá sem búa utan ríkja EES og langar að flytja til Íslands, þá getur sú leið verið mjög torfær og jafnvel ófær. Ákveðnar leiðir eru opnar fyrir umsóknir um tímabundið atvinnuleyfi og ber þar helst að nefna tímabundið atvinnuleyfi vegna starfa sem krefjast sérfræðiþekkingar. Hins vegar er mun erfiðara að sækja um atvinnuleyfi ef ekki er hægt að flagga sérfræðingavottorði.
Væri ekki eðlilegra að liðka til í regluverki okkar þannig að fólk geti sótt hér um dvalar- og atvinnuleyfi þó það sé ekki ríkisborgar EES-landanna? Á sama tíma myndi álagið léttast af verndarkerfinu okkar sem gæfi okkur aukið svigrúm til að sinna því fólki betur.“