fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
EyjanFastir pennar

Þurfum ekki fleiri atvinnupólitíkusa í sveitarstjórnir

Eyjan
Sunnudaginn 2. október 2022 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Á dögunum kom út skýrsla innviðaráðuneytisins um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum. Starfshópurinn sem vann að skýrslunni hafði það að markmiði að „greina starfsaðstæður og kjör fulltrúanna“ og bera saman við sambærilega þætti í bæjar- og héraðsstjórnum hinna Norðurlandanna.

Eitt og annað greinir Ísland frá öðrum norrænum ríkjum í þessu tilliti. Til að mynda eru mun fleiri sveitarfélög hér miðað við höfðatölu og þá sitja íslenskir sveitarstjórnarmenn að jafnaði skemur en starfsbræður þeirra í Skandinavíu. Sjálfur þekki ég það hafandi verið varaborgarfulltrúi hversu brýnt er að hafa á að skipa í borgarstjórninni nokkrum reynslumiklum fulltrúum sem rata um völundarhús kerfisins. Séu sveitarstjórnir skipaðar upp til hópa nýgræðingum blasir við að hinir ókjörnu embættismenn taka völdin í æ meira mæli og þessa sjást ýmis dæmi.

Áðurnefnda skýrsla leiðir líka í ljós að kjörnir fulltrúar í sveitarstjórnum á Íslandi eru að jafnaði talsvert yngri en starfsbræður þeirra á Norðurlöndunum. Íslenskir sveitarstjórnarfulltrúar eru meira að segja að meðaltali áratug yngri en danskir fulltrúar og má ætla að hinir dönsku hafi þar með aflað sér víðtækari reynslu í atvinnulífinu sem gagnast þeim í störfum. En íslenskir sveitarstjórnarfulltrúar verja að meðaltali 40 klukkustundum í störf sín á mánuði samanborið við 18 klukkustundir í Danmörku. Mest er álagið á fulltrúa í sveitarstjórnum með íbúa á bilinu 500 til 1000 en svo fámenn sveitarfélög eru varla til á hinum Norðurlöndunum.

Í tillögum starfshópsins er meðal annars lagt til að sveitarstjórnir verði áfram hvattar til að sameinast til að draga úr álagi á kjörna fulltrúa og efla stjórnsýslu.

Starf borgarfulltrúa er ekki eiginleg atvinna

Halldór Halldórsson, fyrrv. bæjarstjóri á Ísafirði og fyrrv. formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, ræddi þessi mál í Morgunblaðinu sl. fimmtudag. Hann segir umfang sveitarstjórna hafa aukist, ekki hvað síst með flutningi grunnskóla og málefna fatlaðra frá ríki til sveitarfélaga. Þá séu gerðar meiri kröfur en áður um fjármálastjórn og til þess að upplýsingalögum og stjórnsýslulögum sé framfylgt.

En Halldór bendir á að svarið við þessu sé ekki endilega að gera sveitarstjórnarfulltrúa að atvinnupólitíkusum líkt og gert hafi verið í Reykjavík. Það tíðkist ekki einu sinni í stórborgum Norðurlandanna að allir borgarfulltrúar séu í fullu starf. Þvert á móti væri gott að hafa í sveitarstjórnum fólk sem sinnti samhliða störfum víðs vegar í þjóðfélaginu.

Þetta er góð ábending frá Halldóri og þess sjást ýmis merki að verulega skorti á skilning kjörinna fulltrúa á þörfum atvinnulífsins og raunar bara almennu starfslífi í landinu. Í ensku er stundum tekið þannig til orða: „If you want anything done, ask a busy man to do it.“ Stjórnmálin þarfnast sárlega slíkra vinnusamra hæfileikamanna sem gætu sinnt sveitarstjórnarmálum sem annasömu aukastarfi. Mér er ljóst að fjölmargir forystumenn í þjóðlífinu væru fúsir að koma að stjórnmálum sem allt að því borgaralegri skyldu — en hafa engan áhuga á að gefa starfsframa sinn eða atvinnurekstur upp á bátinn til að gerast atvinnupólitíkusar.

Mér verður í þessu sambandi oft hugsað til Páls Gíslasonar yfirlæknis sem ég kynntist vel en hann var um árabil borgarfulltrúi samhliða annasömum læknisstörfum á Landsspítalanum og ýmsum félagsstörfum. Ég leyfi mér að fullyrða að Páll hafi engu að síður komið miklu fleiru í verk sem borgarfulltrúi í hlutastarfi heldur en flestir þeir sem nú sitja í borgarstjórn í fullu starfi. Þetta leiðir líka hugann að því að í grunninn á þátttaka í stjórnmálum miklu meira skylt við félagsstörf en eiginlegan starfsvettvang.

Til skamms tíma var það nefnilega svo að í borgarstjórninni sátu eingöngu óbreyttir borgarar sem höfðu lífsframfæri sitt af öðrum störfum — borgarstjórinn var að jafnaði eini kjörni fulltrúinn sem var í fullu starfi enda framkvæmdastjóri sveitarfélagsins. Um miðjan tíunda áratuginn urðu þau sjónarmið sífellt háværari að borgarfulltrúar ættu ekki að vera í vinnu annars staðar. Guðrún Ágústsdóttir, borgarfulltrúi R-listans, sagði til að mynda í viðtalið við DV árið 1995 að það væri hennar reynsla að það að gegna starfi borgarfulltrúa og sitja í borgarráði væri fullt starf. Svo fór að þessi sjónarmið urðu ofan á og nú eru allir borgarfulltrúarnir 23 í fullu starfi og sjö varaborgarfulltrúar líka, semsagt þrjátíu atvinnupólitíkusar í einni sveitarstjórn.

Réttum kúrsinn

Í aðdraganda bæjarstjórnarkosninganna í Hafnarfirði 2014 greindi þáverandi oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórninni, Valdimar Svavarsson, frá því að hann hygðist ekki gefa kost á sér til endurkjörs. Hann gaf þá skýringu að störf bæjarfulltrúa væru í auknum mæli að færast á dagvinnutíma en þar með snarfækkaði því fólki sem gæti gefið kost á sér til starfa fyrir bæinn. Nefna má að fundir í borgarstjórn Reykjavíkur fóru jafnan fram að kvöldlagi aðra hverja viku meðan óbreyttir borgarar sátu enn í borgarstjórninni. Þessum störfum var því sinnt eins og öðrum félagsstörfum.

Fyrir alla muni þarf að vinda ofan af atvinnumennskunni í borgarstjórn áður en sá ósiður breiðist út til annarra bæjarfélaga. En það krefst þess að störfum sveitarstjórna sé þannig háttað að þeim megi sinna að loknum almennum dagvinnutíma. Að sama skapi ættu hinir kjörnu fulltrúar ekki að taka frá fyrir sjálfan sig öll nefndarsæti heldur fela þau hæfileikafólki víðs vegar að úr þjóðlífinu — fólki sem helst hefði þá til að bera sérþekkingu á viðkomandi málaflokki. Ef þetta tækist fengjum við til muna hæfara fólk í sveitarstjórnarmálin, fólk sem hefði betri tengingu við hið eiginlega starfslíf úti í þjóðfélaginu, hefði áunnið sér traust víðsvegar og gæti miðlað af þekkingu sinni og reynslu í stjórnmálunum. En ef eitthvað skortir í íslenskum stjórnmálum þá er það einmitt traustið og þekkingin.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Talaði Trump af sér?

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Ræðum ESB!
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ

Ágúst Borgþór skrifar: Þórður Snær myndi slaufa Þórði Snæ
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið

Þorsteinn Pálsson skrifar: Satt eða logið
EyjanFastir pennar
01.11.2024

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið

Steinunn Ólína skrifar: Að trúa á hæpið er hæpið
EyjanFastir pennar
31.10.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka

Þorsteinn Pálsson skrifar: Lögmál um fylgisfall stjórnarflokka
EyjanFastir pennar
28.10.2024

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?

Svarthöfði skrifar: Hvað myndi fólk segja ef Kristrún væri karl og Dagur kona?
EyjanFastir pennar
26.10.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa

Óttar Guðmundsson skrifar: Nótt hinna löngu hnífa
EyjanFastir pennar
25.10.2024

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!

Steinunn Ólína skrifar og talar: Þetta er svo stórkostlega flott plan!