fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Björn skrifar: Ótrúleg upplifun úr stúkunni í Búdapest – Íslendingar heilluðu alla í höllinni

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 23. janúar 2022 09:00

Erum við bara að væla?

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eins og hjá mörgum öðrum Íslendingum þá byrjaði nýja árið ekkert sérstaklega vel. Heimilismaður greindist með Covid-19 rétt fyrir áramót og því endaði öll fjölskyldan í sóttkví. Síðan smitaðist konan mín og að lokum ég og börnin mín. Alls vorum við í tæpar þrjár vikur í sóttkví og einangrun á heimilinu.

Eins og gefur að skilja var stemmingin orðin frekar súr í húsinu og því var góð byrjun íslenska landsliðsins á EM svo sannarlega ljósið í myrkrinu þessa leiðinlegu daga. Þegar úrslitaleikurinn gegn Ungverjum var fram undan í riðlakeppninni stakk ég upp á því við konuna mína að ef sigur myndi hafast þá myndum við fagna sigrinum á Covid-veirunni með því að skella okkur í helgarferð og styðja liðið almennilega.

Eftir trylltan sigurdans í sófanum með ungversku ívafi þá fór ég beint inn á helstu bókunarsíður og endaði með að bóka martraðarflugleið út. Nánast um leið og ég kláraði síðustu bókunina daginn eftir fóru að hrúgast inn þægilegar pakkaferðir frá íslenskum fyrirtækjum. Bölvuð hvatvísin!

Sigurvissir Danir merkilega pirrandi

Við flugum út á fimmtudegi og það voru óneitanlega súr tíðindi að lesa um smit íslenska liðsins rétt fyrir brottför og jafnvel vangaveltur um að liðið myndi hreinlega draga sig úr keppni eftir leikinn gegn Dönum ef smitin yrðu fleiri. „Jæja, Búdapest er geggjuð borg þó að handboltinn klikki,“ var hugsunin á meðan ferðalaginu út stóð.

Við höfðum því engar væntingar þegar við mættum á leikinn gegn Dönum í þessari ótrúlegu handboltahöll sem Ungverjar reistu til að hýsa mótið. Ég bókaði miðana á leikinn í gegnum heimasíðu mótsins og við fengum því miða innan um danska stuðningsmenn. Maður heyrði klið meðal þeirra með setningum eins og „ja, Palmarsson har Covid“ og get ég í framhaldinu viðurkennt, sem ég vissi ekki áður, að ég læt sigurvissa danska handboltaáhugamenn fara pínulítið í taugarnar á mér.

Afslappaður hrokinn var þó ekki lengi til staðar hjá Dönunum sem umkringdu okkur hjónin og nú var það ég sem var orðinn pirrandi með háværum öskrum og fagnaðarlátum við hvert mark. Það var eiginlega alveg unaðslegt að fylgjast með okkar mönnum stíga upp og berjast allir sem einn þrátt fyrir þau áföll sem dunið höfðu á liðinu.

Í seinni hálfleik sáum við síðan fram á yfirvofandi norræna milliríkjadeilu og færðum okkur þá yfir í hólfið til íslensku stuðningsmannanna. Blessunarlega slapp maður því við að vera umkringdur Dönum þegar þeir rauðhvítu kláruðu seiglusigur. Hvað sem úrslitunum leið var þó greinilegt á öllum í höllinni hvaða lið var sigurvegari leiksins.

Ungverjarnir hrifust með

Fram að leiknum gegn Frökkum reyndi maður svo að njóta ungversku höfuðborgarinnar á milli þess sem fréttasíðum var flett ótt og títt til þess að fylgjast með tíðindum af fleiri smitum. Það þyrmdi svo yfir mann þegar að ljóst var að tveir lykilmenn í viðbót væru komnir í einangrun og því voru væntingarnar enn hófstilltari fyrir leikinn í gær. Maðurinn vonaðist bara eftir því að fá að upplifa spennandi leik. Það gekk reyndar eftir.

Í þetta skipti voru miðarnir okkar í hólfi með ungverskum og króatískum stuðningsmönnum. Ungverjarnir eðlilega mátulega áhugasamir, höfðu keypt miðana fyrir mót í þeirri von að liðið þeirra myndi spila þetta kvöld en þökk sé okkur Íslendingum voru leikmenn Ungverja bara heima að horfa á Netflix.

Þegar við svo fögnuðum fyrsta marki Íslands með háværu öskri þá fengum við vænan skammt af augnagotum. „Plís ekki vera búnir að Google-þýða Facebook-færslu Björgvins Páls,“ hugsaði maður þar sem markvörðurinn hraunaði yfir heimamenn. En þær áhyggjur voru óþarfar. Eftir því sem íslensku mörkunum fjölgaði fann maður glöggt að Íslendingar voru að vinna áhorfendur á sitt band og fljótlega voru Ungverjarnir í kringum okkur farnir að öskra með hverju íslensku marki og snúa sér að okkur til að fá háar fimmur við hvert tækifæri.

Króatarnir, sem sátu aðallega fyrir aftan okkur, voru ekki jafnhrifnæmir fyrst um sinn en fljótlega var maður farinn að heyra setningar eins og „Wow, this Magnusson is incredible“ og „Amazing goalkepper“ og skömmu síðar voru þeir farnir að fagna íslensku mörkunum líka af ákafa.

Íslendingar heilluðu alla í höllinni

Ég verð eiginlega að viðurkenna að ég hef hvorki fyrr né síðar upplifað aðra eins og stemmingu og þarna myndaðist. Það var einhver ótrúleg orka og baráttuþrek í íslenska liðinu sem að smitaðist um alla höll. Ég held svei mér þá að frönsku stuðningsmennirnir hafi líka heillast af íslenska liðinu. Þeir voru hljóðlátir en að sama skapi virtust þeir ekkert sérstaklega vonsviknir með það sem þeir urðu vitni að, svo sögulegur var þessi sigur í ljósi aðstæðna.

Það sem var ekki síður  ótrúlegt að upplifa var samspil íslensku leikmannanna við íslensku stuðningsmennina. Við hvert tækifæri sneru leikmenn, og þá sérstaklega Ýmir Örn, Elliði Snær og Viktor Gísli, sér að  áhorfendaskaranum og hvöttu þá áfram og uppskáru í staðinn gríðarleg fagnaðarlæti og baráttuöskur. Maður fékk ítrekaða gæsahúð, ekki síst þegar að einhverskonar túrbóútgáfa af víkingaklappinu dáða var keyrð í gegn og höllin tók undir. Þetta voru lygilegar senur.

Pínlega skemmtilegt að lesa lof erlendra miðla

Sigrinum var síðan ekki fagnað á einhverjum bar eða skemmtistað heldur uppi á hótelherbergi á samfélagsmiðlum að fylgjast með handboltaheiminum dásama íslenska liðið og einstaka leikmenn og leyfa sér að velta sér upp úr allt að því barnalegum þjóðernisrembingnum í smá stund. Mér finnst pínlega skemmtilegt að lesa slíkar umfjallanir um íslenskt afreksfólk.

Það er nánast ófyrirgefanlegt að maður haldi heim á leið eftir slíkan sigur og það jaðrar nánast við einhverskonar föðurlandssvik. En ég reikna með að ansi margir íslenskir stuðningsmenn hafi lengt dvöl sína hér ytra og hef fulla trú á því að fleiri mæti út næstu daga til að öskra sig hása. Íslenska liðið á það svo sannarlega skilið og slík andleg handboltameðferð fær mín bestu meðmæli. Ég losnaði að minnsta kosti við allan covidpirring úr mínu kerfi og þessi eini leikur varð til þess að janúar 2022, sem byrjaði svo illa, breyttist í einhvern unaðslegan draum sem þjóðin þurfti svo sannarlega á að halda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum

Björn Jón skrifar: Þjóðinni betur treystandi en stjórnmálamönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp

Þorsteinn Pálsson skrifar: Vandinn við að hafa ekki prinsipp
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann

Björn Jón skrifar: Að sigra dauðann
EyjanFastir pennar
24.03.2024

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans

Steingerður Steinarsdóttir skrifar: Örlæti andans
EyjanFastir pennar
23.03.2024

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn

Sigmundur Ernir skrifar: Hægrimenn óttast sköpunarkraftinn
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál

Svarthöfði skrifar: Íslenska verði alheimsmál
EyjanFastir pennar
15.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli

Steinunn Ólína skrifar: Afsakið meðanað ég æli
EyjanFastir pennar
09.03.2024

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund

Óttar Guðmundsson skrifar: Pólitísk ólund
EyjanFastir pennar
08.03.2024

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi

Steinunn Ólína skrifar: Áunnið heyrnarleysi