fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Tókust á um fjölgun starfa hjá borginni – „Verður fólki sagt upp í kjölfarið?“

Eyjan
Sunnudaginn 16. janúar 2022 15:57

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og Heiða Björg Hilmisdóttir, ræddu um framtíðarsýn þeirra fyrir borgina í Sprengisandi í morgun. Þar kom fram í máli Hildar að hún telur að borgin hafi farið ranga leið í faraldrinum til að bregðast við auknu atvinnuleysi. Meirihlutinn hafi ákveðið að fara þá leið að fjölga störfum mikið, frekar en að styðja við einkarekin fyrirtæki sem gætu skapað verðmæti.

Framtíðin úr óvæntri átt

Hildur benti á að framtíðin komi stundum úr óvæntri átt. Það hafi COVID sýnt okkur með fjarvinnu sem hafi þegar mestu takmarkanir voru við líði minnkað mikið umferðarþunga í borginni og líklega hafi fyrirtæki séð ýmis tækifæri í því til framtíðar.

 „Ég held einmitt að fjarvinnan geti verið mjög óvæntur og spennandi vinkill inn í lausn umferðarvandans. Auðvitað engin alhliða lausn en lítið innlegg. Við sáum auðvitað í þessum COVID-faraldri þegar fólk var að vinna heima hvað það létti mikið á umferðinni.“ 

Hildur veltir því upp hvort að fjarvinnumöguleikar muni aukast í framtíðinni og gæti borgin ýtt undir slíka þróun í nafni umhverfissjónarmiða, svo sem með því að veita fyrirtækjum sem bjóði upp á slíkt ívilnanir frá sköttum.

„Stundum kemur framtíðin úr óvæntri átt og það gerðist svolítið í þessum COVID-faraldri að þá lærðum við þetta.“ 

Hildur telur að fyrirtæki sjái nú hag sinn í því að nýta svokallaðar deiliskrifstofur sem gætu jafnvel færst inn í borgarhverfin og gert fólki kleift að sækja vinnu nær sínu heimili.

Fjölgun starfa hjá borginni

Heiða bendir þá á að það séu ekki öll störf þannig að hægt sé að sinna þeim í fjarvinnu: „Það er auðvitað fjöldi fólk sem getur ekki farið í fjarvinnu og margt sem verður áfram þannig að þú verður að mæta á staðinn og við þurfum einhvern veginn að mæta þeirra þörfum.“

Heiða benti á að Sjálfstæðisflokkurinn hafi talað fyrir ráðningarbanni hjá borginni, en meirihlutinn hafi valið að fara aðra leið til að styðja betur við íbúa.

 „Sjálfstæðisflokkurinn talaði fyrir því í borginni að setja á ráðningarbann þegar kreppan skall á, COVID-kreppan okkar. Það var auðvitað eitthvað sem við höfnuðum og ákváðum að standa frekar með fólkinu og standa frekar með íbúum sem vilja vinnu. Við fórum í að búa til störf frekar en að fækka þeim akkúrat núna á meðan við erum að komast yfir COVID-hjallinn. 

Við þurfum alltaf að horfa á atvinnu fyrir alla. Við þurfum að horfa á atvinnu fyrir þá sem hafa verið utan vinnumarkaðar og auðvitað líka spennandi störf fyrir þá sem geta unnið heima við skrifborðið sitt. „

Skýrar pólitískar línur

Hildur sagði þarna birtast mjög skýrar pólitískar línur.

„Ég verð að fá að koma aðeins inn á þetta, því þarna birtast mjög skýrar pólitískar línur. Við töluðum fyrir ráðningarbanni fyrir um einu og hálfu ári síðan á svona miðlægum skrifstofum borgarinnar – í þessum þægilegu skrifstofustörfum sem að hefur fjölgað mjög gríðarlega á síðustu árum. Við sjáum það að störfum hjá borginni hefur fjölgað um 20 prósent, bara á þessu kjörtímabili. Við erum ekki að njóta neinnar stærðar hagkvæmnni ef við berum okkur saman við nágrannasveitarfélögin og það virðist sem meirihluta fólkið haldi að eina atvinnuskapandi aðgerðin í svona efnahagskrísu, eins og birtist okkur í kjölfar þessa heimsfaraldurs, sé að skapa fleiri opinber störf.

Og þessu er ég svo bara algjörlega ósammála. Besta atvinnuskapandi aðgerðin eru auðvitað að styðja myndarlega og betur við atvinnulífið og skapa skilyrði fyrir að atvinnulífi og einkaframtakið að skapa þessi störf en ekki ráða alla inn á bogarkontórinn og við hljótum að sjá hversu ósjálfbært þetta er og það var mjög fróðlegt t.d. síðustu helgi að skoða atvinnuauglýsingarnar í blöðunum þar sem ég held að það hafi verið 3 af 24 atvinnuauglýsngum sem voru hjá atvinnulífinu, restin var hjá opinbera geiranum og þetta er auðvitað ekki sjálfbært.“

Hlakkar til að fylgjast með

Heiða svaraði því til að líklega verði COVID-ástandið ekki ríkjandi alla tíð.

„Þetta eru auðvitað viðbrögð við því að ferðaþjónustan er ekki að ráða, hótelin eru ekki að ráða. Það er fullt af fólki sem er án atvinnu og þá hugsum við-  getum við nýtt þetta, getum við aukið við þjónustu, getum við gefið þessu fólki tækifæri til að það þurfi ekki að vera heima á meðan á þessu stendur? – og það viljum við gera því við viljum standa með borgarbúum og við erum að fjárfesta þá í eins og hugbúnaði þannig að við séum að veita þá þjónustu sem fólk vill, við erum að veita meiri þjónustu til gamla fólksins sem er einangrað heima við erum að veita meiri þjónustu til unga fólksins sem líður núna illa. Nýtum fólkið í það. Síðan þegar þetta tímabil er búið er þetta fólk tilbúið að stökkva út á vinnumarkaðinn og vinna hjá öllum fyrirtækjunum.“ 

Heiða segir að um tímabundið átak sé að ræða og það hafi alltaf verið skýrt að svo væri.

Þá spurði Hildur: „Verður fólki sagt upp í kjölfarið?“

Og Heiða svaraði því til að um tímabundnar ráðningar væri að ræða svo uppsagnir væru ekki nauðsynlegar. Hins vegar virðist Hildur ekki trúa því að fólk hlaupi úr þessum störfum líkt og Heiða haldi fram og sagði:

„Áhugavert, ég hlakka til að fylgjast með því.“

Fyrir áramót var nokkuð fjallað um fjölgun opinberra starfa, en stöðugildum hafi fjölgað um 7.300 frá því í desember 2017. Mest hafi störfum fjölgað hjá Reykjavík, þá einkum í störfum við umönnun fatlaðra og aldraðra sem og störf í leikskólum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus