Guðni Þór Ólafsson hefur verið ráðinn til samskiptafélagsins Aton.JL. Guðni kemur inn í ört stækkandi hönnunarteymi félagsins en hann útskrifast sem Grafískur hönnuður frá LHÍ nú í vor. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Aton. JL.
„Í LHÍ fann ég mig mest í stafrænni hönnun sem þróaðist út í mikinn áhuga og áherslu á tilraunakennda hönnun t.d. spekúlatífum verkefnum í kringum hugarheim mannsins, fornum fræðum og framhaldsdrifinni 3D hönnun. Einmitt sá hugarheimur kristallaðist í bæði BA-ritgerðinni minni og útskriftarverkefni. Ritgerðin mín snéri að erkitýpum og grafískum túlkunum þeirra og útskriftarverkefnið að líkindum í hugmyndafræði og verkferlum miðalda-alkemíu (gullgerðarlist) og nútíma 3D hönnun,“ segir Guðni.
Meðfram náminu tók hann að sér ýmis verktakaverkefni sem snérust meðal annars um merkjahönnun, mörkun og hreyfihönnun.
„Við leggjum áherslu á fjölbreyttan starfsmannahóp sem tryggir viðskiptavinum okkar breiða sýn á viðfangsefni þeirra. Við fylgjumst vel með útskriftarárgangi LHÍ í grafískri hönnun á ári hverju og fáum til okkar öfluga hönnuði beint eftir útskrift sem koma þá með ferska sýn á mörg verkefni hjá okkur. Guðni er öflug viðbót í starfsmannahóp okkar sem fer ört vaxandi þessi misserin,“ segir Sif Jóhannsdóttir, rekstrarstjóri Aton.JL.