fbpx
Miðvikudagur 27.október 2021
Eyjan

Setur Sigmundur Davíð Íslandsmet í smæð þingflokks?

Heimir Hannesson
Föstudaginn 24. september 2021 14:00

mynd/samsett DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Afar miklar líkur eru á því að á morgun verði Íslandsmet slegið í fjölda flokka á Alþingi. Ef fer sem horfir verða þeir níu talsins og yrði þar með Íslandsmet í þessari grein slegið aðrar kosningarnar í röð.

Lengi vel var það föst stærð í íslenskum stjórnmálum að pláss væri fyrir fimm flokka á þingi. Gamla „fjórflokkinn,“ plús einn. Árið 1999 var stjórnskipan landsins breytt og 5% þröskuldinum svokallaða komið fyrir. Undir þeirri reglu fá flokkar undir 5% í kosningum ekki úthlutuðum uppbótarþingmönnum, eða jöfnunarsætum. Ein helsta gagnrýni við þennan 5% þröskuld var að hann myndi gera nýjum framboðum erfiðara um vik að komast inn á þing.

Það er reyndar ekki að sjá að svo hafi verið. Í kosningunum 1999, 2003, 2007 og 2009 náðu fimm flokkar inn á þing, en þá urðu skil í íslenskum stjórnmálum. Í kosningunum 2013 buðu samtals 15 flokkar sig fram til Alþingis, flestir af þeim nýir. Af þeim 15 náðu 11 að bjóða fram í öllum sex kjördæmum. Það met hefur enn ekki verið slegið.

Ekki verður sagt að kosningarnar 2013 hafi einkennst af málefnafæð, eins og borið hefur verið upp á kosningabaráttuna sem nú stendur yfir. Icesave, Evrópusambandsumsókn vinstri stjórnarinnar, stjórnarskrármálið og kvótakerfið voru undir í kosningunum.

Í þeim kosningum rofnaði einmitt fimm flokka múrinn í fyrsta sinn á þessari öld og eftir að 5% þröskuldinum var komið fyrir. Náðu þá bæði Píratar og Björt framtíð inn á þing, auk fjórflokksins svokallaða. Píratar rétt slefuðu yfir 5% múrinn og fengu þrjá menn kjörna, allt uppbótarþingmenn.

Panamamálið svokallaða knúði fram afsögn Sigmundar Davíðs sem forsætisráðherra og úr varð að boðað var til kosninga haustið 2016, en þær átti ekki að halda fyrr en vorið 2017. 12 flokkar buðu sig fram og voru þar á meðal tveir nýir flokkar: Viðreisn og Flokkur fólksins.

Svo fór að sjö flokkar náðu inn á þing í kosningunum 2016.

Enn og aftur sprakk ríkisstjórnin og boðað var til kosninga 2017. 11 flokkar buðu sig fram og náðu þeir átta flokkar sem nú eiga sæti á þingi mönnum kjörnum.

Þeir eru: Sjálfstæðisflokkurinn, VG, Samfylking, Miðflokkur, Framsókn, Píratar, Flokkur fólksins og Viðreisn. Björt framtíð, sem sprengdi ríkisstjórnina sem mynduð var eftir kosningarnar 2016, þurrkaðist út. Hinir tveir sem buðu sig fram náðu hvorugir yfir 1% fylgi.

Sem fyrr sagði lítur út fyrir að átta flokka Íslandsmet kosninganna 2017 verði nú að minnsta kosti jafnað, en líklega slegið. Mun þá Sósíalistaflokkurinn bætast við þingflokkana átta sem að ofan voru nefndir.

11 flokkar eru í framboði, en þó náði Ábyrg framtíð aðeins að bjóða fram í einu kjördæmi og því svo til ógjörningur að þeir náði inn manni.

Sýna skoðanakannanir sem mark er takandi á að Flokkur fólksins og Miðflokkurinn séu tæpir á að haldast inni. Þó er það svo að Miðflokkurinn sækir mjög mikið af sínu fylgi í tvö kjördæmi, Norðaustur- og Suðurkjördæmi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, er oddviti í Norðaustur og hefur hann óneitanlega mikið persónufylgi í kjördæminu. Svo gæti því raunverulega farið að Miðflokkurinn nái ekki 5% þröskuldinum en nái einum kjördæmakjörnum manni inn. Yrði það þá enn eitt Íslandsmetið því undir núgildandi kosningakerfi og kjördæmaskipan hefur eins manns þingflokkur aldrei áður verið kosinn inn á þing.

Þá eru uppi áhöld um það hvort Flokkur fólksins eigi á hættu að detta út. Hann hefur verið að mælast af nokkru öryggi yfir 5% þröskuldinum, en undanfarna daga hefur farið að síga á ógæfuhliðina þar. Þá er fylgi Flokks fólksins nokkuð jafnt á kjördæmi, og því ólíklegt að hann nái fólki kjörnu án þess að fá úthlutuð jöfnunarsæti. Má því búast við því af nokkru öryggi að flokkurinn þurrkist út fari hann undir 5% á landsvísu.

Þá er Sósíalistaflokkurinn með 5,1% í nýjustu skoðanakönnun MMR sem birt var í Morgunblaðinu í morgun. Hann má því ekki missa mikið í viðbót ætli hann sér stóra hluti á komandi kjörtímabili.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Færri konur ráðnar í framkvæmdastjórastöður en í fyrra

Færri konur ráðnar í framkvæmdastjórastöður en í fyrra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Guðrún skilur ekkert í Sjálfstæðismönnum – „Þetta er með slíkum ein­dæm­um, að lög ná ekki yfir það“

Guðrún skilur ekkert í Sjálfstæðismönnum – „Þetta er með slíkum ein­dæm­um, að lög ná ekki yfir það“