fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Jóhann segir gott að Bjarkey hafi eytt færslunni

Máni Snær Þorláksson
Þriðjudaginn 21. september 2021 15:37

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það er eins og VG hafi ákveðið að bjóða ekki fram sem sjálfstæður stjórnmálaflokkur í þessum Alþingiskosningum heldur sem einhvers konar fylgitungl hinna stjórnarflokkanna.“

Svona hefst færsla sem Jóhann Páll Jóhannsson, sem skipar 2. sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavík norður í komandi alþingiskosningum, skrifar en færsluna birti hann á opinni Facebook-síðu sinni.

Jóhann skýtur harkalega á Vinstri græna í færslunni og segir flokkinn vinna eins og aðalmarkmiðið sé áframhaldandi stjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokknum. „VG og Sjálfstæðisflokkur nota sömu frasana á landsfundum og virðast hafa samstillt málflutning sinn í stórum málum,“ segir Jóhann og nefnir svo nokkur dæmi um þennan samstillta málflutning flokkanna.

„VG lagði fram kosningastefnu sem er augljóslega klæðskerasniðin að áframhaldandi stjórnarsamstarfi, Katrín Jakobsdóttir leggst gegn stóreignaskatti og hjá flokksforystunni virðist (ef t.d. litið er á svör VG við spurningum Landverndar) gæta ákveðinnar tregðu til að taka alvöru skref í loftslagsmálum á næsta kjörtímabili.“

„Vonandi finnur VG aftur sjálfstraustið“

Jóhann birtir með færslunni skjáskot af ummælum Bjarkeyjar Ol­sen Gunn­ars­dótt­ur, þing­flokks­formanni Vinstri grænna, en hún sagði ljóst að fólk vildi að aðrir tækju við eftir að hafa séð niðurstöðurnar í nýja þjóðarpúlsinum frá Gallup. „Skila­boðin eru skýr, fylgið fer úr 17% í 10% og því ljóst að vilji er til þess að aðrir taki við kefl­inu,“ sagði Bjarkey í færslu sem hún birti á Facebook-síðu sinni.

„Í gær kom svo þetta frá Bjarkeyju þingflokksformanni: nokkurs konar yfirlýsing um að VG kasti inn handklæðinu ef kosningarnar fara þannig að félagshyggjustjórn verði raunhæfur möguleiki,“ segir Jóhann um orð Bjarkeyjar.

„Katrín Jakobsdóttir hefur sagt að ef ríkisstjórnin haldi muni strax hefjast viðræður milli núverandi stjórnarflokka um framhald stjórnarsamstarfsins. Það er þannig hennar fyrsti kostur, að vinna með hægriflokki. Þingflokksformaður VG gekk lengra í Facebook-færslu sinni og er beinlínis á móti því að flokkurinn vinni í ríkisstjórn með vinstri- og miðjuflokkum ef þeim gengur betur í kosningunum en VG.“

Bjarkey virðist nú hafa eytt umræddri færslu og segir Jóhann það vera vel. „Gott hjá Bjarkeyju að eyða færslunni. Vonandi finnur VG aftur sjálfstraustið og kemur til baka á vinstrivænginn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt