fbpx
Fimmtudagur 20.janúar 2022
EyjanFastir pennar

Björn Jón skrifar: Tölum um framtíðina

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 9. ágúst 2021 19:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í byrjun tuttugustu aldar var Argentína eitt auðugasta ríki heims. Landsframleiðsla á mann var hvergi meiri utan hins enskumælandi heims nema í Sviss, Belgíu, Hollandi og Danmörku. Landsframleiðsla á mann í Argentínu var því til að mynda hærri en í Svíþjóð og Þýskalandi. Uppgangur Argentínu um aldamótin 1900 var slíkur að landið var á góðri leið með að verða helsta stórveldi suðurhvels jarðar. En allt fór það á annan veg og Argentínumenn drógust langt aftur úr flestum þjóðum Rómönsku Ameríku en sem dæmi má nefna þá var landsframleiðsla Argentínu árið 1988 nokkurn veginn sú sama og hún hafði verið þremur áratugum fyrr.

Ekkert svigrúm til skattahækkana

Hagsaga Argentínu er holl áminning um að hægt er að sólunda öllum heimsins auðæfum með slælegri efnahagsstjórn. Velsæld í samtímanum tryggir ekki velsæld um aldur og ævi. Vangaveltur um slík grundvallaratriði eru vel viðeigandi í aðdraganda alþingiskosninga. Stóru málin nú snúa að efnahagsaðgerðum ríkisstjórnarinnar tengdum farsóttinni og sannarlega margt gagnrýnivert í framgöngu hennar í þeim efnum. En það hefði líka verið hægt að fara enn verri leiðir. Einn þingmaður stjórnarandstöðunnur lagði til stórfjölgun opinberra starfa til að bregðast við efnahagslægðinni. — Þegar verkefni dagsins var að leita leiða til að forða fjölda fyrirtækja frá gjaldþroti.

En kjarni málsins er sá að svigrúm til aukinna útgjalda hins opinbera verður í öllu falli lítið sem ekkert á næstu árum. Samt sem áður boða flokkar skattahækkanir hver í kapp við annan þrátt fyrir að skattar hér séu með því hæsta sem gerist í þróuðum ríkjum. Það er eins og aðhald og sparnaður séu einfaldlega ekki í tísku.

Misþroskuð stjórnmálaumræða

Degi eftir að Íslendingar ganga að kjörborðinu kjósa Þjóðverjar sér nýtt Sambandsþing og í kjölfarið lýkur 16 ára valdasetu Angelu Merkel kanslara. Í stjórnmálaumræðum Þýskalands er framtíðin mjög til umfjöllunar. Þar er ekki óalgengt að menn spyrji: Hvernig verður umhorfs árið 2046, þ.e. eftir 25 ár? Menn eru með hugann við framtíðina.

Eitt gleggsta dæmið um hnignun stjórnmálaflokkanna hér er skortur á framtíðarsýn. Flokksstarf er lítið sem ekkert og til undantekninga heyrir að vönduð málefnavinna eigi sér stað. Stjórnmálin eru því sífellt meira farin að einkennast af frösum og merkimiðum heldur en djúpri umræðu. Og úr því að ég minntist á Þýskaland þá eru starfandi þar fræðistofnanir til hliðar við flokkana sem rannsaka stjórnmálin. Fyrir nokkrum árum sótti ég heim Konrad-Adenauer-Stiftung, systurstofnun flokks Kristilegra demókrata. Ég hafði hug á að kynna mér mér hugmyndafræði og stefnumál Kristilegra en fræðimennirnir hjá stofnuninni bentu mér á að þeir væru enn fróðari um stefnumál hinna flokkanna enda ynnu þeir við að rannsaka þá. Lykillinn að árangursríkum málamiðlunum er skilningur á sjónarmiðum mótherjans.

Þetta eru stjórnmál á allt öðru plani en við eigum að venjast hér heima og til marks um það hversu þroskuð stjórnmálaumræðan er í Þýskalandi þá heyrir til algjörra undantekninga í umræðuþáttum þar í landi að nokkur grípi fram í fyrir öðrum. Og ef málflutningur er byggður á of veikum grunnni gerast þáttastjórnendur allágengir enda gerð rík krafa til þess að stjórnmálamenn þekki út í hörgul þau málefni sem þeir tala fyrir.

Skýr framtíðarsýn

Árið 1989 þegar Berlínarmúrinn féll er stundum nefnt annus mirabilis í Evrópusögunni. Ný og sameinuð Evrópa reis á rústum kommúnismans í mið- og austurhluta álfunnar og í kjölfarið voru þýsku ríkin sameinuð. Þetta sama ár var aftur á móti annus horribilis í sögu Argentínu. Gengi australsins hríðféll og þegar menn tóku að óttast að varasjóðir seðlabankans væru að tæmast hrundi verð á ríkisskuldabréfum. Í örvæntingu sinni greip ríkisstjórnin til þess ráðs að prenta peninga en þá vildi ekki betur til en myntsláttan var orðin pappírslaus og prentararnir farnir í verkfall! Áfram skorti allt aðhald í peningamálum og ríkisfjármálum á næstu árum og sorgarsaga Argentínu hélt áfram.

Argentína er víti til varnaðar og til þess að bæta lífskjör hér á landi þarf skýrari framtíðarsýn í stjórnmálum; hvert skal haldið? Flestir hljóta að geta sameinast um mikilvægi þess að fyrirtækjum séu búin hagstæð rekstrarskilyrði og að dregið verði enn frekar úr efnahagssveiflum. Þættir sem bætt geta rekstrarskilyrði lúta meðal annars að einfaldara regluverki, lægri sköttum, bættum samgöngum og svo mætti áfram telja. Upptaka alþjóðlegs gjaldmiðils gæti skipt sköpum. Þá þarf að líta til þess hvernig menntakerfið getur betur sinnt því hlutverki að búa fólk undir störf framtíðarinnar í síbreytilegum heimi. Á sama tíma þarf að bæta þjónustu hins opinbera og auka framleiðni í opinberum rekstri.

Einhvern veginn held ég að flestir þeir þátta sem hér eru nefndir eigi ekki að þurfa að verða að flokkspólitísku bitbeini ef okkur tækist að færa stjórnmálaumræðuna á hærra plan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fastir pennarFréttir
26.11.2021

Upplifun mín í réttarhöldunum yfir morðingja Freyju Egilsdóttur

Upplifun mín í réttarhöldunum yfir morðingja Freyju Egilsdóttur
Aðsendar greinarFastir pennar
25.11.2021

Ungmennameðferð SÁÁ – Þjónusta SÁÁ fyrir 25 ára og yngri

Ungmennameðferð SÁÁ – Þjónusta SÁÁ fyrir 25 ára og yngri
EyjanFastir pennar
22.08.2021

Steingeldir stjórnmálaflokkar

Steingeldir stjórnmálaflokkar
EyjanFastir pennar
16.08.2021

Björn Jón skrifar um Berlínarmúrinn: Fangelsisríkið

Björn Jón skrifar um Berlínarmúrinn: Fangelsisríkið