fbpx
Fimmtudagur 23.september 2021
Eyjan

Björn Jón skrifar: Landið verði eitt kjördæmi

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 2. ágúst 2021 15:15

Margir vilja áframhaldandi samstarf núverandi ríkisstjórnarflokka.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

 

Fá mál hafa valdið jafnmiklum deilum í íslenskum stjórnmálum síðastliðna öld og jöfnun atkvæðisréttar og breytingar á kjördæmakerfinu. Og enn á ný hefur misvægi atkvæða aukist mjög — en í síðustu alþingiskosningum voru 2.690 kjósendur að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi en 5.346 í Suðvestur. Athygli vekur hversu litla áherslu stjórnmálaflokkarnir leggja á það sjálfsagða sanngirnismál að jafna atkvæðisréttinn.

Misvægi atkvæða endurspeglast í stjórnmálaumræðunni en landsbyggðarþingmenn eru miklu frekar uppteknir við gæslu hagsmuna síns kjördæmis heldur en þingmenn höfuðborgarsvæðisins. Þetta sést vel þegar kemur að því ófremdarástandi sem er í samgöngumálum Reykjavíkur og þingmenn höfuðborgarinnar láta sig lítið varða.

Grundvallarmannréttindi

Alþýðuflokkurinn barðist allt frá stofnun fyrir því að landið yrði gert að einu kjördæmi. Þær röksemdir sem flokkurinn beitti hér á árum áður eiga jafn vel við nú sem fyrr, en þar á meðal var að misvægi atkvæða drægi úr samkennd og styddi við gæslu sérhagsmuna á kostnað heildarhagsmuna. Í byrjun tuttugustu aldar snerist baráttan um að stjórnmálaleg réttindi væru óháð efnahag og kynferði. Þeirri baráttu lauk fyrir löngu með fullum sigri en enn er misvægi með tilliti til búsetu.

Héðinn Valdimarsson, þingmaður Alþýðuflokksins, flutti frumvarp til stjórnskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá konungsríkisins Íslands árið 1927 þar sem meðal annars var kveðið á um lækkun kosningaldurs í 21 ár og að þeim sem þegið höfðu sveitarstyrk vegna fátæktar yrði veittur kosningaréttur. Önnur grein frumvarpsins hljóðaði síðan svo:

„Á Alþingi eiga sæti 25 þjóðkjörnir þingmenn, sem kosnir eru hlutbundnum kosningum um land allt, og sitja þeir allir í einni málstofu. Tölu þeirra má breyta með lögum. Þingmenn skulu kosnir til fjögurra ára í senn.“

Á þeim tíma var misvægi atkvæða margfallt og óvíða um heiminn jafnmikið og hér. Áhugavert er að lesa greinargerð með frumvarpi Héðins en í hans huga var umfram allt um mannréttindamál að ræða og hann gerði engan greinarmun á útilokun frá kosningarétti og misvægi atkvæða. Hvort tveggja væri brot á þeim mannréttindahugmyndum sem lýðræðisleg stjórnskipun byggði á.

Héðinn Valdimarsson gerði tillögu um landið sem eitt kjördæmi árið 1927.

Héðinn taldi líka að með því að gera landið allt að einu kjördæmi kæmu þeir einir til álita sem þingmenn sem væru kunnir á stórum svæðum á landinu og þar með yrðu meiri líkur á að hæfari menn yrðu kosnir. „Þeir yrðu að standa reikningsskap gerða sinna frammi fyrir öllum almenningi, og mundi við það hreppapólitíkin hverfa,“ sagði í greinargerð með frumvarpinu.

Styrkja samheldni þjóðarinnar

Það vekur athygli að umræða um þessi mál hafi aðeins að litlu leyti snúist um grundvallarmannréttindi líkt og Héðinn lagði áherslu á fyrir bráðum heilli öld. Jafnan hafa sterk öfl verið andsúin breytingum á kosningakefinu og þá fært fyrir því margvísleg rök, eins og þau að landsbyggðarfólk hafi lakari aðgang að stjórnkerfinu en þeir sem búa á Reykjavíkursvæðinu. En sé aðstöðumunur milli höfuðborgar og landsbyggðar verður að leysa hann með öðrum hætti en búa mönnum misjöfn mannréttindi.

Þær fjölmörgu breytingar sem gerðar hafa verið á kosninga- og kjördæmakerfinu síðastliðna öld einkennast af málamiðlun milli mjög andstæðra skoðana, sbr. núverandi kosningakerfi sem byggir á kjördæmum sem eru ekki landfræðilegar einingar í nokkrum skilningi. Það sést best á Suðurkjördæmi sem nær frá Garðskaga austur í Lón. Og athugum að allar málamiðlunartillögur í þessu efni munu hafa vankanta. Jafn atkvæðisréttur telst til grundvallarmannréttinda og getur ekki verið skiptimynt fyrir önnur réttlætismál eða stefnumál í stjórnmálum. Eftir stendur að eina leiðin til að tryggja fyllsta jafnræði meðal kjósenda er að gera landið að einu kjördæmi.

Og nú á okkar tímum þegar alþjóðleg samvinna eykst hratt skiptir máli að þjóðin sé öll á sama báti — heildarhagsmunir þurfa að hafa forgang umfram sérhagsmuni. Til að ná þessu fram yrði skilvirkasta leiðin að gera landið að einu kjördæmi — þannig að allir kysu þingmenn af sama landslista. Nefna má að við stofnun Ísraelsríkis var ákveðið að það yrði eitt kjördæmi til að styrkja samheldni landsmanna og forðast flokkadrætti. — Enda lá þeim lífið á að standa saman sem einn maður.

Samhliða því að landið yrði gert að einu kjördæmi mætti gjarnan fækka þingmönnum, ef til vill niður í fjörutíu eða fimmtíu. Nú er svo komið að stór hluti þingmanna er óþekktur landsmönnum. Það gæti orðið ein leið til að fá hæfara fólk til þingsetu að fækka þingmönnum — kannski verulega eins og Héðinn lagði til á sínum tíma.

Framhjá því verður ekki litið að misvægi atkvæða er misvægi mannréttinda. Reglan á að vera einn maður — eitt atkvæði. Og það markmið næst ekki nema gera landið að einu kjördæmi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Sjálfstæðisflokkurinn er kominn mikið, mikið lengra til vinstri en fyrir tíu eða tuttugu árum“

„Sjálfstæðisflokkurinn er kominn mikið, mikið lengra til vinstri en fyrir tíu eða tuttugu árum“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Frambjóðendur deila myndum af gæludýrunum – „Ég held að allir kettir séu í Miðfokknum“

Frambjóðendur deila myndum af gæludýrunum – „Ég held að allir kettir séu í Miðfokknum“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Mogginn varar við vinstri stjórn – Segir það muni hafa alvarlegar afleiðingar á hag Íslendinga

Mogginn varar við vinstri stjórn – Segir það muni hafa alvarlegar afleiðingar á hag Íslendinga
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Góður gangur í hugverkaiðnaði hér á landi – Útflutningstekjur hafa tvöfaldast

Góður gangur í hugverkaiðnaði hér á landi – Útflutningstekjur hafa tvöfaldast
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Geggjað vöfflupartí hjá VG eftir sögulega gönguferð

Geggjað vöfflupartí hjá VG eftir sögulega gönguferð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Er uppáhalds „leiðindaskarfur“ Sjálfstæðismanna á útleið? Sjáðu nýstárlega kosningaauglýsingu Brynjars

Er uppáhalds „leiðindaskarfur“ Sjálfstæðismanna á útleið? Sjáðu nýstárlega kosningaauglýsingu Brynjars
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Tómas Ellert hellir sér yfir Guðna Ágústsson – „Hér er um að ræða vel skipulagða og stigmagnandi rógsherferð í minn garð“

Tómas Ellert hellir sér yfir Guðna Ágústsson – „Hér er um að ræða vel skipulagða og stigmagnandi rógsherferð í minn garð“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ragnar segir íslenskt fyrirtæki hafa keypt hlutabréf á 20 þúsund krónur og selt á tæplega hálfan milljarð

Ragnar segir íslenskt fyrirtæki hafa keypt hlutabréf á 20 þúsund krónur og selt á tæplega hálfan milljarð