fbpx
Fimmtudagur 16.september 2021
Eyjan

Fjóla hefur ekki áhyggjur af átökum í Miðflokknum – „Ég á ekki von á að það verði mikil særindi“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 28. júlí 2021 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Átök um efstu sæti á framboðslista Miðflokksins í Reykjavík hafa vakið mikla athygli. Um miðjan júlí felldi félagsfundur tillögu uppstillingarnefndar þess efnis að ung kona, Fjóla Hrund Björnsdóttir, tæki efsta sæti listans sem hinn reyndi þingmaður, Þorsteinn Sæmundsson, skipaði áður. Þorsteinn var vændur um að hafa smalað á félagsfundinn og beitt sér gegn Fjólu. Var síðan samþykkt að kjósa um oddvitasætið og hafði Fjóla þar betur með nokkrum mun.

Þorsteinn tekur ekki sæti á listanum en meðal annarra þingmanna sem hverfa á braut eru Gunnar Bragi Sveinsson og Ólafur Ísleifsson. Mörg óþekkt andlit eru á framboðslistum Miðflokksins og hlutur kvenna hefur aukist verulega.

Fjóla, sem fædd er árið 1988, er raunar ekki nýgræðingur í stjórnmálastarfi en hún er að upplagi Framsóknarmaður og var varaþingmaður flokksins á árunum 2013 til 2016. Hún hefur undanfarið gegnt starfi framkvæmdastjóra Miðflokksins. Hún starfaði áður á skrifstofu Framsóknarflokksins og var virk í ungliðastarfi flokksins í um 9 ár. DV tók stutt viðtal við Fjólu í dag og hún var fyrst spurð hvers vegna hún hafi yfirgefið Framsóknarflokkinn:

„Ég kaus að ganga yfir í Miðflokkinn þegar Sigmundur Davíð stofnaði hann vegna þess að stefna flokksins höfðaði meira til mín en stefna Framsóknar,“ segir hún. En þá vaknar sú spurning hvort stefna flokksins sé að fara að breytast með nýjum og í mörgum tilvikum óþekktum andlitum á framboðslistum:

„Stefnan verður sú sama, þ.e. grunnstefnan, en listarnir voru að klárast í gær og við eigum fljótlega eftir að koma fram með kosningarstefnuskrá sem verður kynnt á næstunni. Stefna flokksins er ekki að fara að breytast en varðandi ný og óþekkt andlit þá er það bara þannig að maður verður einhvers staðar að byrja. Þetta er alveg eðlilegt.“

Segir að grunnstefnan verði óbreytt

Miðflokkurinn hefur starfað í fjögur ár og vann kosningarsigur í Alþingiskosningunum 2017, hlaut tæp 11 prósent atkvæða og fékk sjö menn kjörna. „Flokkurinn er fjögurra ára en þegar maður byrjar í stjórnmálum og er að vinna sig upp þá verður maður ekki þekktur á einum degi. En við höfum tvo mánuði til að vinna það upp og kynna stefnumálin.“

Miðflokkurinn starfar meðal annars undir slagorðinu „Íslandi allt“ sem birtist í áherslu á byggðastefnu. „Við munum aldrei hverfa frá stefnu okkar varðandi eldri borgara og fleira þó að nú sé ungt fólk að kynna stefnuna. Það hefur líka verið ákall eftir fleiri konum í baráttunni hjá Miðflokknum og við erum að svara því kalli kjósenda og félagsmanna. En við fylgjum alltaf grunnstefnu flokksins. Við erum hins vegar enn bara fjögurra ára gamall flokkur og við erum að þreifa okkur áfram. “

Miðflokkurinn hefur nokkuð skorið sig út fyrir harðari útlendingarstefnu en flestir flokkar og raddir sem vilja koma böndum á fjölda hælisleitenda hafa verið nokkuð háværar í flokknum. Mun sú stefna breytast með þessu nýja fólki og fleiri konum í lykilsætum á framboðslitum? „Ég get bara ekki sagt til um það þar sem ég býst við að þetta málefni ásamt fleirum verði ofarlega á baugi á Landsþinginu okkar í ágúst. Núna erum við búin að klára framboðslistana, kosningastefnuskráin verður kynnt á næstunni og svo er það landsþingið í ágúst, ég held að landsþingið verði stór áfangi fyrir okkur til að vinna okkur áfram.“

Telur að Miðflokkurinn geti unnið með flestum

Fjóla segir að Miðflokkurinn sé á miðjunni og eigi því auðvelt að vinna með flestum eða öllum flokkum: „Allir stefna á að komast í stjórn og koma stefnunni áfram en við erum miðjuflokkur og eigum auðvelt með að vinna með flokkum til hægri og vinstri því málefni okkar eru á miðjunni.“

Blaðamaður bendir Fjólu á að margir telji Miðflokkinn vera mjög hægri sinnaðan. Það stendur ekki á svari við þeirri athugasemd: „Hann er hægri sinnaður að einhverju leyti en vinstri sinnaður að öðru leyti, þannig að ég myndi segja að meðaltalið verði miðjan.“

Miðflokkurinn hefur komið nokkuð illa út úr skoðanakönnunum sem sumar benda til að tvísýnt verði um hvort hann haldist á þingi. Fjóla hefur ekki áhyggjur af þessu:

„Það eru tveir mánuðir til kosninga, tveir mánuðir eru langur tími í pólitík og margt getur gerst. Við höfum verið að vinna í framboðslistunum okkar í sumar og núna eru þeir klárir. Stefnuskráin er að verða tilbúin, flokksþingið er framundan og ég held að þegar þetta kemur allt saman þá munum við sjá nýja tíma hjá okkur í skoðanakönnunum.“

„Ég er alveg í sambandi við Þorstein“

Aðspurð hvort þau átök sem hafa verið um oddvitasæti hjá flokknum undanfarið eigi eftir að skilja eftir særindi þá telur Fjóla að svo verði ekki. „Ég held að þetta verði allt í góðu. Ég á ekki von á því að það verði mikil særindi, en allar breytingar eru erfiðar.“

Er hún þá í góðu sambandi við Þorstein Sæmundsson?

„Ég er alveg í sambandi við Þorstein,“ segir hún.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Glúmur segir Arnþrúði hafa bannað sig en Arnþrúður segir það út í hött – „Hann ætti að skrifa Guðmundi Franklín bréf“

Glúmur segir Arnþrúði hafa bannað sig en Arnþrúður segir það út í hött – „Hann ætti að skrifa Guðmundi Franklín bréf“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Lögfræðingar spyrja hvort Covid einangraðir kunni að eiga kröfu á ríkið – Einkennalausir nýta veikindarétt í einangrun

Lögfræðingar spyrja hvort Covid einangraðir kunni að eiga kröfu á ríkið – Einkennalausir nýta veikindarétt í einangrun
Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Píratar sigla staurblankir inn í kosningabaráttuna – „Opna bókhaldið“ ekki uppfært síðan í fyrra

Orðið á götunni: Píratar sigla staurblankir inn í kosningabaráttuna – „Opna bókhaldið“ ekki uppfært síðan í fyrra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rekstur lífeyrissjóðanna kostar 25 milljarða á ári – „Of margir á spena þessa kerfis“

Rekstur lífeyrissjóðanna kostar 25 milljarða á ári – „Of margir á spena þessa kerfis“