fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Stríð um rekstrarleyfi í Borgarbyggð – Eigendur jarðarinnar Húsafells 1 saka sveitarstjórn og sýslumann um mismunun

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 10. júlí 2021 08:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ásgeir Sæmundsson hefur í umboði föður síns kært til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis þá ákvörðun sveitarstjórnar Borgarbyggðar að hafna því að veita jákvæða umsögn vegna umsóknar um endurnýjun gistihúsaleyfis eigenda Húsafells 1. Jafnframt eru kærð rekstrarleyfi fyrir 40 sambærileg gistiheimili í héraðinu. Kæran, sem gefin var út seint í maí, beinist að sveitarstjórn Borgarbyggðar og einnig að ákvörðunum Sýslumannsins á Vesturlandi.

Orðrétt segir um kæruatriði: „Rekstraraðili gistihússins Gamla bæjar í landi Húsafells 1 situr ekki við sama borð og aðrir sambærilegir rekstraraðilar þegar kemur að útgáfu rekstrarleyfa.“

Höfnun á veitingu jákvæðrar umsagnar og veitingu gistihúsaleyfis á Húsafell1 1 byggir á því að um landbúnaðarsvæði sé að ræða og því sé óheimilt að reka veitingahús eða gistiheimili á lóðinni. Árið 2017 urðu breytingar á sveitarstjórnarlögum frá 2007 í þá veru að óheimilt er að veita leyfi til reksturs veitingahúsa eða gistiheimila á jörðum sem eru á landbúnaðarsvæðum. Á grundvelli þessarar lagabreytingar hafnar sveitarstjórn Borgarbyggðar því að veita jákvæða umsögn varðandi endurnýjun gistiheimilaleyfis til eigenda Húsafells 1 og sýslumaður hafnar umsókninni. Þess má geta að Gamli bær hafði fengið leyfi árið 1996 og starfað frá þeim tíma með fullgilt leyfi.

40 sambærileg gistihús hafa fengið leyfi

Ásgeir staðhæfir að misræmi sé í veitingu rekstrarleyfa og vill láta kanna hvort ákvarðanir sveitarstjóra og sýslumanns í þessum efnum standist lög. Þá segir orðrétt í kærunni: „Þess er krafist að rekstraraðili Gamla bæjar sitji við sama borð varðandi rekstrarleyfi og sambærileg gistihús. Annað hvort fái hann langtímaleyfi eða ótímabundið leyfi eins og aðrir sem taldir eru upp í lista hér að neðan, eða að ótímabundin eða langtíma rekstrarleyfi allra þeirra gistiheimila á landbúnaðarsvæðum sem talin eru upp hér að neðan og í fylgiskjali 1 verði felld úr gildi svo jafnræðis sé gætt.“

 Samkvæmt lista sem DV hefur undir höndum hafa um 40 sambærileg gistihús í Borgarbyggð fengið rekstrarleyfi eftir gildistöku lagabreytingar 2017. Gistihúsið Gamli bær á jörðinni Húsafell 1 var fyrsta gistihúsið í Borgarbyggð sem fékk höfnun. Þann 14. sept 2020 fékk gistihúsið í Hítarneskoti ótímabundið leyfi. Gistihúsið í Lækjarkoti fékk ótímabundið leyfi í febrúar 2021 samkvæmt upplýsingum frá Sýslumanni Vesturlands. Í millitíðinni var hafnað að gefa út rekstrarleyfi fyrir Gamla bæ. DV er ekki kunnugt um að önnur gistiheimili á landbúnaðarsvæði í Borgarbyggð hafi fengið höfnun á sömu forsendum og Gamli bær.

Telja tímasetningu stefnubreytingar Borgarbyggðar ótrúverðuga

Ásgeir bendir á að margir aðilar hafa fengið leyfi til gistihúsareksturs á svæðinu frá árinu 2017. Í svari forseta sveitastjórnar í Borgarbyggð, Lilju Bjargar Ágústsdóttur, við kærunni segir orðrétt: „Á seinni hluta ársins 2020 hafði sveitarstjórn orðið þessa áskynja og taldi að sveitarfélagið gæti ekki áfram hagað stjórnsýslu sinni hvað þetta varðar með þeim hætti sem hafði viðgengist, þ.e. að jákvæðar umsagnir væru veittar um umsóknir um rekstrarleyfi þó svo að fyrirhugaður rekstur væri ekki í samræmi við aðalskipulag sveitarfélagsins.“

Því hafi sveitarstjórn byrjað að haga stjórnsýslu sinni í þessum efnum í samræmi við lagabreytinguna sem varð 2017 síðla árs 2020 og neitað eiganda Húsafells 1 um endurnýjun í nóvember 2020. Gögn sem DV hefur undir höndum sýna hins vegar að rekstraraðilinn Lækjarkot fékk leyfi fyrir gistihúsi á landbúnaðarsvæði þann 3. febrúar á þessu ári og barst jákvæð umsögn frá öllum umsagnaraðilum samkvæmt sýslumanni, þar með talin Borgarbyggð. Þetta telur Ásgeir að sé skýrt dæmi um mismunun og sé lögbrot. Sýslumaður hafi einnig með vísan til jafnræðis og leiðbeiningar- rannsóknar- og upplýsingaskyldu opinberra starfsmanna ekki átt að gefa út rekstrarleyfi þótt jákvæð umsögn kæmi frá Borgarbyggð fyrir gistihúsið Lækjarkot.

 DV hefur undir höndum tölvupóst frá sveitarstjóra Borgarbyggðar, Þórdísi Sif Sigurðardóttur, til eiganda Húsafells 1, þar sem segir að breytingar á aðalskipulagi séu í vændum:

 „Ég ítreka enn fremur, það sem fram hefur komið í okkar samtölum, að breytingar á aðalskipulagi svæðisins eru í vinnslu. Markmið breytinganna er að setja stefnu um svæðið fyrir verslun og þjónustu sem heimili kapellu, gistiheimili, steinhörpusafn, listagallerí, vinnustofur og annað sem getur komið þarna þessu tengdu. Við áætlum, miðað við samræður við hagsmunaðila undanfarna mánuði, að breytingin á aðalskipulaginu muni ná fram að ganga. Nái þær fram að ganga telur sveitarfélagið að ekkert sé því til fyrirstöðu að veita jákvæða umsögn um rekstrarleyfi Gamla bæjar.“

 Þetta telur eigandi Húsafells 1 til marks um að sveitarfélagið ætli að fá þá til að samþykkja óleyfisbyggingu á jörðinni og allt of mikið byggingarmagn á Húsafellstorfunni. Er hér tenging við málaferli sem höggmyndarinn Páll Guðmundsson á Húsafelli hefur staðið í. Árið 2020 gerði Héraðsdómur Vesturlands honum skylt að fjarlægja nýtt hús sem hýsa átti legsteinasafn. Varð dómstóllinn þar við kröfu Sæmundar, nágranna Páls, og föður Ásgeirs sem leggur fram umrædda kæru. Komið hefur fram, að sögn Ásgeirs, á fundi með sveitarstjóra, að rekstrarleyfi fengist ef fallið yrði frá því að fullnusta dóminn. Þessu neitar sveitarstjórn harðlega.

 Sveitarstjórn Borgarbyggðar hefur afneitað með öllu þessum skilningi á ummælum sveitarstjórans í tölvupóstinum og frábiður sér ásakanir um að verið sé að kúga eiganda Húsafells 1 til að gefa eftir dómsniðurstöðu varðandi framkvæmdir í nafni Páls Guðmundssonar myndhöggvara.

Samkvæmt heimildum DV hafa staðið yfir sáttafundir frá ágúst 2020 í deilu Sæmundar við umsjónarmann Páls og sveitarstjórn Borgarbyggðar en þær viðræður hafa siglt í strand.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum

Inga Sæland herská – Kallar eftir stuðningi á þingpöllunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega

Björn Jón skrifar: Grýlur sem ýla hræðilega
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus

Guðjón Auðunsson: Ef markmiðið er að fækka um eina kaffivél er sameiningin tilgangslaus