fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Sjálfstæðismenn minnast Gunnars Birgissonar – „Und­ir hrjúfu yf­ir­borðinu bærðist mýkri lund en marg­ir vissu,“ segir Bjarni

Máni Snær Þorláksson
Fimmtudaginn 24. júní 2021 09:48

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gunnar Ingi Birgisson, fyrrverandi alþingismaður og bæjarstjóri, lést þann 14. júní síðastliðinn á heimili sínu í Kópavogi. Gunnar fæddist í Reykjavík 30. september 1947 og var því 73 ára þegar hann lést. Gunnar var kvæntur Vigdísi Karlsdóttur, sjúkraliða, og saman eiga þau dæturnar Brynhildi og Auðbjörgu Agnesi. Útför Gunnars fer fram í dag frá Linda­kirkju klukkan 13.

Fjölmargir minnast Gunnars í Morgunblaðinu í dag en í þeim hópi má finna marga Sjálfstæðismenn, enda var Gunnar sjálfur gallharður Sjálfstæðismaður. Á meðal þeirra sem minnast Gunnars eru Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrum formaður Sjálfstæðisflokksins, Halldór Blöndal, formaður Samtaka eldri sjálfstæðismanna, og Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogs og fyrrum þingmaður Sjálfstæðisflokksins.

„Und­ir hrjúfu yf­ir­borðinu bærðist mýkri lund en marg­ir vissu“

Í minningargrein Bjarna um Gunnar segir Bjarni að Gunnar hafi verið stór maður í öllum skilningi þess orðs. „Hann var stórbrotinn karakt­er, stund­um stór­karla­leg­ur, hann gat haft sína fyr­ir­ferð og all­ir vissu hvar þeir höfðu hann. Að öðrum ólöstuðum er hann ein­hver dug­leg­asti maður, sem ég hef kynnst; hann hafði unun af að vinna og féll helst aldrei verk úr hendi,“ segir Bjarni.

„Gunn­ar hafði átt óvenju­lega, jafn­vel erfiða, æsku í fjölþættu fjöl­skyldu­mynstri, eins og það væri orðað nú. Því bet­ur kunni hann að meta fjöl­skyldu­bönd­in sem hann knýtti með Vig­dísi Karls­dótt­ur, eig­in­konu sinni. Hann var skarp­gáfaður, varð verk­fræðing­ur og doktor í jarðvegs­fræðum full­orðinn maður, sem nýtt­ist hon­um mikið í stjórn­mála­störf­um hans.“

Bjarni minnist þess þegar Gunnar varð lykilmaður í bæjarstjórn Kópavogs í greininni. „Sjálf­ur varð Gunn­ar bæj­ar­stjóri árið 2005. Það mikla fram­fara­skeið bæj­ar­ins sést best á því að íbúa­fjöldi Kópa­vogs nær tvö­faldaðist á þeim tíma og þar átti Gunn­ar drýgst­an hlut. Það er gott að búa í Kópa­vogi, sagði Gunn­ar og menn vissu að hann gat trútt um talað,“ segir Bjarni. „Hann gat verið allra manna skemmti­leg­ast­ur, góður sögumaður og glögg­ur á fólk. Og und­ir hrjúfu yf­ir­borðinu bærðist mýkri lund en marg­ir vissu.“

Þá segist Bjarni hafa dregið mikinn lærdóm af samskiptum sínum við Gunnar og að lokum þakkar hann honum fyrir störf hans í þágu sjálf­stæðis­stefn­unn­ar, Kópa­vogs­búa, lands og þjóðar. „Guð blessi minn­ingu hans.“

„Það varð sí­fellt betra að búa í Kópa­vogi“

Davíð Oddsson segir í minningargrein sinni að Gunnar hafi erið þróttmikill og fjörugur bæði í leik og starfi. „Hann gaf hvergi eft­ir. Hann var góður bróðir í póli­tísku starfi okk­ar en ekki endi­lega í leik. Fyr­ir því fann maður í skák­inni. Stöðurn­ar mín­ar þar urðu snemma rjúk­andi rúst og Gunn­ar fylgdi fast á eft­ir. En snerr­an varð að lúta lög­mál­um spennu svo að Gunn­ar leitaði sér því öfl­ugri and­stæðinga og mætti ég því iðulega af­gangi á kvöld­fund­um í þing­hús­inu forðum,“ segir Davíð.

„Í hinu póli­tíska starfi vor­um við nær því að vera jafn­ingj­ar og sáum æski­leg­ar leiðir iðulega sömu aug­um, en ekki alltaf. Gunn­ar flutti rök sín af eðlis­læg­um þrótti og það gat dugað til þess að end­an­leg niðurstaða varð nær hans sjón­ar­miðum en í hafði stefnt. En jafn­vel þegar svo fór ekki urðu eng­in eft­ir­mál og sjald­an end­ur­tekn­ar umræður um af­greidd mál. Gunn­ar var ekki með aug­un í bak­sýn­is­spegl­in­um.“

Líkt og Bjarni talar Davíð um áhrif Gunnars á Kópavog en hann segir að Gunnar hafi verið mikill happafengur fyrir bæjinn og síðar önnur sveitarfélög.

„„Það er gott að búa í Kópa­vogi,“ drundi í hon­um, eins og gera mundi úr tröll­un­um í fjöll­un­um og urðu óhagg­an­leg sann­mæli eft­ir því sem leið á tím­ann sem Gunn­ar hafði mest áhrif í bæn­um. Það varð sí­fellt betra að búa í Kópa­vogi. Og öll­um sem þekktu til varð það ljóst að það var ekki síst vegna þess að Gunn­ar Birg­is­son stjórnaði því sveit­ar­fé­lagi af óvenjulegum þrótti og sparaði sig hvergi.“

Davíð botnar minningargreinina með því að senda Vigdísi, eiginkonu Gunnars, og fjölskyldu þeirra hlýjar kveðjur með þökkum fyrir góð kynni. „Guð blessi þau öll.“

„Hann var laus við smá­muna­semi, hrein­skipt­inn og lit­rík­ur per­sónu­leiki“

Halldór Blöndal minnist þess þegar hann kynntist Gunnari á sínum tíma en það var á 10. áratug síðustu aldar. „Sam­starf okk­ar og sam­vinna þroskaðist í vináttu. Þá var ég sam­gönguráðherra en hann odd­viti Sjálf­stæðismanna í Kópa­vogi og um­svifa­mik­ill verktaki. Ég fann fljótt, að það var hægt að treysta því sem hann sagði,“ segir Halldór.

„Hann var laus við smá­muna­semi, hrein­skipt­inn og lit­rík­ur per­sónu­leiki. Hann var vel­viljaður og kunni að hlusta og lét verk­in tala. Hann hafði mikið starfsþrek og virt­ist alltaf geta bætt á sig verk­efn­um.“

Halldór segir að það hafi verið honum mikils virði sem ráðherra samgöngumála að eiga Gunnar sem vin og geta rætt við hann um þau verkefni sem þóttu brýnust á hverjum tíma.

„Álita­mál­in voru mörg og viðkvæm póli­tískt, en fé af skorn­um skammti. En það var mikið í húfi. Það sjá­um við hvarvetna ef við för­um hring­ferð um landið. Mér eru jarðgöng­in um Héðins­fjörð minn­is­stæðust og nefni þau sér­stak­lega, þar sem Gunn­ar var um skeið bæj­ar­stjóri Fjalla­byggðar á ár­un­um 2015-2019.“

Þá segir Halldór að hann og Gunnar hafi líka átt sínar léttu og góðu stundir. „Við höfðum báðir verið keppn­is­menn í bridge og ég var nógu góður í skák til þess að hann taldi það ómaks­ins vert að tefla við mig hraðskák. Í önn­um dags­ins er mik­il hvíld að geta gleymt sér um stund við slík­an leik. Þess­ar lín­ur færa Vig­dísi og fjöl­skyldu þeirra hjóna hlýj­ar samúðarkveðjur. Guð blessi minningu Gunn­ars Birg­is­son­ar.“

„Við vor­um ekki alltaf sam­mála, en það fylg­ir stjórn­mál­um“

Ármann minnist fyrstu kynna sinna af Gunnari en þeir kynntust í gegnum starf Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi og bæjarstjórnina. „Gunn­ar var stór maður í öll­um skiln­ingi, það gustaði af hon­um og hann hafði mörgu að miðla til þeirra sem voru yngri og óreynd­ari í stjórn­mál­un­um,“ segir Ármann.

„Við vor­um ekki alltaf sam­mála, en það fylg­ir stjórn­mál­um, það vissi Gunn­ar manna best. Með Gunn­ari er geng­inn eft­ir­minni­leg­ur maður öll­um sem kynnt­ust hon­um og þekktu til hans. Ég þakka hon­um vel unn­in störf í þágu Kópa­vogs­bæj­ar. Aðstand­end­um sendi ég inni­leg­ar samúðarkveðjur.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt