fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Mikil óvissa í efnahagslífinu – Hvað gerist í sumar?

Ágúst Borgþór Sverrisson
Sunnudaginn 2. maí 2021 12:00

Gylfi Zoëga

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mikil óvissa er nú í efnahagslífinu eftir langvarandi Covid-kreppu og menn hafa miklar áhyggjur af vaxandi verðbólgu sem núna er komin upp í 4,6 prósent. Á sama tíma er atvinnuleysi yfir 11%. Gylfi Zoëga hagfræðiprófessor ræddi stöðuna í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.

Gylfi sagði óvissuástand framundan og framhaldið myndi ráðast mikið af því hvernig efnhagsmálin í Bandaríkjunum þróast í sumar. Í Bandaríkjunum hafi ríkið lagt út í miklar fjárfestingar og nú fari bólusetningar mjög vaxandi þar og því séu líkur til að þjóðlífið og atvinnulífið verði með eðlilegum hætti er líður á sumarið. Ef atvinna eykst vestra án þess að verðbólga fari upp þá verður þetta vel heppnað. En ef verðbólga rýkur upp í Bandaríkjunum hefur það mjög slæm áhrif á stöðu þeirra sem eru með lán í Bandaríkjadollurum.

Gylfi sagði að vaxandi  verðbólga hér á landi væri bundin við fasteignamarkaðinn. Gylfi segir að verðbólga muni ekki fara á skrið, Seðlabankinn hafi tæki til að koma í veg fyrir það, hann hafi tæki til að hemja útlán banka og tæki sem hafa áhrif á gengi krónunnar. Það gangi illa saman að vera með 4,6% verðbólgu og 0,75% nafnvexti á sama tíma.

Gylfi hefur rætt um 10% hagkerfið og 90% hagkerfið. Það fyrrnefnda er ferðaþjónustan sem hefur hrunið í faraldrinum. Hið síðarnefnda er innanlandseftirspurnin sem hefur breyst í þessu ástandi og innlend verslun hefur t.d. aukist mikið við stórminnkandi utanlandsferðir landsmanna.

Gylfi segir að aðgerðir ríkisins hafi komið í veg fyrir að hrunið í ferðaþjónustunni smitaðist inn í 90% hagkerfið. Þá sé það kostur að þegar ferðaþjónustan fari aftur af stað þá séu fyrirtækin ennþá lifandi vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar og þau geti þá farið að skila tekjum til ríkissjóðs þegar umsvif vegna erlendra ferðamanna fara að aukast. Ef erlendir túristar skila sér til landsins í sumar verði viðsnúningurinn öflugur. Gylfi segir að ferðaþjónustan hafi verið komin í vandræði fyrir faraldurinn vegna hás launakostnaðar. Það hafi komið sér illa fyrir greinina hvað ferðamönnum fjölgaði mikið og hratt.

Gylfi segir að lífskjör hér séu góð og hlutdeild launa í heildartekjum hátt. Ríkissjóður hafi vissulega skuldsett sig mikið en engu að síður sé skuldahlutfall ríkissjóðs hér betra en víðast annars staðar. Í heildina mátti greina á máli Gylfa að útlitið væri gott þó að staðan sé flókin og blikur á lofti.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt