fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Kynferðisbrotamál mega ekki tefjast í dómskerfinu – „Það er stór og mikil ákvörðun að leggja fram kæru fyrir nauðgun“

Erla Hlynsdóttir
Laugardaginn 10. apríl 2021 17:30

Fulltar þrettán kvenna- og jafnréttissamtaka sem fyrr á þessu ári kröfðust úrbóta í réttarkerfinu fyrir brotaþola kynbundins ofbeldis. MYND/STÍGAMÓT

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir segir sérkenni á kynferðisbrotum að gerandi sé yfirleitt sakfelldur á grundvelli sönnunargagna frekar en játningar og fyrir þolendur sé því mikilvægt að dæmd refsing sé ekki milduð vegna tafa á málsmeðferð.

„Það má ekki gerast að dómar sé mildaðir fyrir alvarleg brot á borð við nauðganir og kynferðislega misnotkun barna vegna þess að málsmeðferðartími dregst,“ segir Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar.

Hún vann við þennan málaflokk áður en hún tók sæti á þingi en sem saksóknari hjá ríkissaksóknara var hún fyrst og fremst með kynferðisbrotamál á sinni könnu. Þá vann hún rannsókn með Hildi Fjólu Antonsdóttur um málsmeðferð allra nauðgunarmála sem tilkynnt voru til lögreglu 2008 og 2009, og skrifaði meistararitgerð sína í lagadeild Háskóla Íslands um nauðgun og að skilgreina ætti brotið út frá samþykki.

„Mér finnst þetta vera réttlætismál. Það er stór og mikil ákvörðun að leggja fram kæru fyrir nauðgun. Brotaþolar, oftast konur og stelpur, þurfa að safna kjarki til að gera það. Því fylgir álag að bíða eftir niðurstöðu dómstóla, því fylgir álag að segja sögu sína, að standa með sjálfri sér og sinni upplifun. Það verður að vera þannig að þær upplifi að kerfið hafi tekið nægjanlega vel utan um þær,“ segir hún.

Þorbjörg ræddi málsmeðferðartíma við dómsmálaráðherra á Alþingi í síðustu viku í umræðum um fjármálaáætlun.

Fréttablaðið greindi frá því í janúarbyrjun að í sjö af sautján nauðgunarmálum sem dæmd voru í Landsrétti á síðasta ári hefði refsing verið milduð vegna tafa á málsmeðferð sem ákærða yrði ekki kennt um.

Í umfjölluninni kom meðal annars fram að ýmist væri um að ræða nokkurra mánaða styttingu fangelsisrefsingar og upp í árs styttingu. Þannig hefði refsing tveggja manna sem voru dæmdir fyrir að nauðga unglingsstúlku verið stytt úr þremur árum í tvö. Sömuleiðis séu dæmi um að óskilorðsbundinn dómur í eitt til tvö ár hafi verið skilorðsbundinn að fullu í Landsrétti vegna tafa á málsmeðferð.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar. Aðsend mynd/Golli

Meginreglan um hraða málsmeðferð

„Það eru auðvitað hagsmunir brotaþola að svona gerist ekki, en líka hagsmunir sakbornings að málin dragist ekki. Og það eru hagsmunir samfélagsins alls. Það eru hagsmunir sakborningsins sem eru leiðarljósið þegar dómur er mildaður með þessum hætti en málsbæturnar fyrir brotaþola eru engar,“ segir hún.

Þorbjörg bendir á að meginregluna um hraða málsmeðferð megi finna í stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem og Mannréttindasáttmála Evrópu.

„Reglan er ein af grundvallarreglum réttarfars og felur í sér að hver maður á rétt á því að fá niðurstöðu um ákæru á hendur sér innan hæfilegs tíma. Sjónarmið Mannréttindadómstóls Evrópu er að mikilvægt sé að gætt sé að málsmeðferðartíma til þess að hann hafi ekki áhrif á refsingu og þar með áhrif á varnaðaráhrif. Meginskylda lögreglu og ákæruvaldsins sé að tryggja að þeir sem brjóti af sér sæti viðurlögum. Sá fjöldi dóma sem gengið hafa á undanförnum árum og varða tafir á málsmeðferð gefi vísbendingu um að dómstólar séu í auknum mæli að grípa til þeirra ráðstafana að milda refsingu,“ segir hún.

„Þegar málsmeðferð dregst mjög getur það mögulega haft áhrif á sönnunarstöðu. Vitni koma þá fyrir dóm svo löngu eftir atvikin að þau treysta sér ekki til að fullyrða um hvað þau muna nákvæmlega. Mér hefur fundist að það sé munur á því hvernig Landsréttur tekur á því þegar mál hafa dregist og hvernig Hæstiréttur hefur gert það. Það er hins vegar tilfinning, get ekki fullyrt um það. Í allmörgum dómum Hæstaréttar hefur komið fram að mál hafi dregist, að ákærða sé ekki um að kenna en alvarleiki og eðli brotsins geri það að verkum að þetta hafi þó ekki áhrif til refsilækkunar.

Í einhverjum tilvikum var kannski hluti refsingar skilorðsbundinn með vísan í drátt á málarekstri eða ungs aldurs ákærða, nema hvoru tveggja væri. Mín tilfinning er að Landsréttur sé jafnvel harðari en Hæstiréttur að þessu leyti.“

Þorbjörg segir að algengt sé að þolendur vilji fá viðurkenningu frá geranda og að hann taki ábyrgð. „Það er sérkenni á þessum brotum að gerandi er yfirleitt sakfelldur á grundvelli sönnunargagna, en hann játar ekki. Fyrir þolendur skiptir þá kannski máli að dómurinn sé skýr og að dæmd refsing sé ekki vægari út af málsmeðferðartíma,“ segir hún.

Tafir bitna á gæðum

Í síðasta mánuði var greint frá því að níu konur hefðu lagt fram kærur til Mannréttindadómstólsins á hendur íslenska ríkinu. Allar höfðu konurnar áður kært kynferðisofbeldi, heimilisofbeldi eða kynbundna áreitni til lögreglu en mál þeirra voru felld niður eftir rannsókn lögreglu og sú ákvörðun staðfest af ríkissaksóknara. Þrettán kvenna- og jafnréttissamtök stóðu þá fyrir blaðamannafundi þar sem greint var frá þessum kærum til MDE. Kom fram að í öllum málum hefði málshraðinn verið allt of hægur, þau hefðu tekið of langan tíma í rannsókn og það hefði komið niður á gæðum rannsóknanna.

Daginn eftir að greint var frá kærunum til MDE tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra að hún hefði samið við Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómara, um aðstoð við vinnu ráðuneytisins að styttingu málsmeðferðartíma í refsivörslukerfinu.

Þessi ákvörðun ráðherra var gagnrýnd harðlega af ýmsum aðilum, svo sem ungliðahreyfingum Samfylkingar og Viðreisnar sem sögðu Jón Steinar ítrekað hafa grafið undan trúverðugleika brotaþola kynferðisofbeldis.

Áslaug sagði að áherslan í störfum hans fyrir ráðuneytið ætti að vera í efnahagsbrotamálum en það var þó ekkert tekið fram um slíkt í samningi ráðuneytisins við hann.

Þegar ráðherra tilkynnti síðan að Jón Steinar hefði óskað lausnar og Hörður Felix Harðarson hæstaréttarlögmaður hefði tekið að sér að sinna verkefninu hans í stað, sagði Áslaug í færslu á Facebook við þetta tilefni: „Ég tel rétt að árétta að tildrögin að þessu verkefni voru síendurteknar fréttir af löngum málsmeðferðartíma efnahagsbrota…“

Í umræðu á Alþingi í liðinni viku beindi Þorbjörg orðum sínum til Áslaugar Örnu þegar hún sagði: „Nýlega fékk málsmeðferðartíminn á sig hið pólitíska kastljós þegar fréttir bárust af sérstöku verkefni af hálfu dómsmálaráðherra um vinnu við að rýna málsmeðferðartíma í efnahagsbrotamálum, og sú vinna er auðvitað af hinu góða og ekkert við hana að athuga. En, þessi vandi á við um alla brotaflokka og það eru dálítið sérstök skilaboð að taka allt annan brotaflokk fyrir en þann sem mest hefur verið til umfjöllunar vegna þessa vanda. Það er nefnilega enn að gerast að dómar fyrir alvarleg kynferðisbrot séu mildaðir á áfrýjunarstigi vegna þess að málin hafa dregist í kerfinu.“

Áslaug Arna mótmælti þessu og sagði málsmeðferð efnahagsbrota alls ekki vera í meiri forgangi hjá ráðuneytinu en málsmeðferð kynferðisbrota „…sem hafa verið í skýrum forgangi allt frá 2018 með nýrri aðgerðaáætlun í þessum málum,“ sagði hún í pontu.

Þá sagði hún að verið væri að ráðast bæði að rót vandans og hala hans, til að mynda með því að stytta boðunartíma í fangelsi.

Ekki tekið á rót vandans

Þorbjörg segir að allir armar kerfisins þurfi að hafa burði til að vinna hratt án þess að gefa afslátt af gæðum. „Það hefur mikil og jákvæð vinna átt sér stað innan kerfisins í því skyni að bæta hér úr, til þess að málin fari hraðar í gegn. Á sama tíma er það samt staðreynd að kynferðisbrotamálum sem lögregla fær til rannsóknar hefur fjölgað mikið. Ég lít ekki svo á að hér sé við kerfið sjálft að sakast,“ segir hún.

Hún tekur undir með ráðherra að álag á kerfinu birtist til að mynda í biðlistum vegna afplánunar sem ekki sé boðlegt. „Dæmdir menn bíða mánuðum og stundum heilu árin eftir að sitja dóma af sér. Að þeim tíma liðnum eru menn stundum komnir á allt annan stað með sitt líf og dómur hefur ekki lengur þann tilgang sem til var ætlast. Og við sjáum líka að dómar eru að fyrnast.

Það hefur þau áhrif að menn þurfa þá ekki að afplána dómana. Það er þess vegna sem dómsmálaráðherra er nú að leggja fram tillögur um að auka samfélagsþjónustu sem taki til allt að tveggja ára fangelsisdóma. Þetta er gert til að stytta boðunarlista í fangelsin sem hefur lengst svo síðustu ár að biðtími eftir að afplánun í fangelsisvist hefur lengst. Við erum að tala um biðlista í fangelsi, sem væri dálítið fyndið ef málið væri ekki svona alvarlegt.

Ég er hrifin af hugmyndum um að nota samfélagsþjónustu meira og er á því að dómarar ættu að hafa heimild til að dæma til samfélagsþjónustu. En þessi hugmynd býr til tímabundna heimild um samfélagsþjónustu fyrst og fremst til að klippa aftan af allt of löngum boðunarlista í fangelsi. Þessi leið er skiljanleg en þar er ekki tekið á neinni rót vandans, heldur bara verið að bregðast við stöðu. Stöðu sem mun koma aftur upp ef ekkert annað breytist.“

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Hartman í Val
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma

Jón Gnarr: Forseti tali íslensku á alþjóðavettvangi – íslenskan á að fá að hljóma
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga

Lýsa vantrausti á ríkisstjórnina, krefjast þingrofs og nýrra kosninga
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir

Gamli kanslarinn vill fá skrifstofuna sína aftur – Ekki líklegt að það gangi eftir
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið

Sögusagnir sem borgin vísaði á bug eiga sér meiri stoð í raunveruleikanum en af er látið
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG

Orðið á götunni: Fylgið minnkað um helming – 40 þúsund vantreysta Bjarna sem sætir afarkostum VG