fbpx
Föstudagur 16.apríl 2021
Eyjan

Flugvallarandstæðingar uggandi yfir frumvarpi Sigurðar Inga – „Kosninga-brella og fyrir neðan virðingu ráðherra“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 17. mars 2021 12:40

mynd/samsett

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um ný heildarlög um loftferðir er nú til meðferðar á Alþingi og fór fyrsta umræða fram um frumvarpið í gær. Frumvarpið virðist litla athygli hafa vakið í fyrstu en ráðherrann flutti málið í gær án teljandi athugasemda. Smári McCarthy, þingmaður Pírata, var eini þingmaður sem veitti flutningsræðu Sigurðar Inga andsvar. Lauk því fyrstu umræðu um frumvarpið þannig að málinu var vísað til umhverfis- og samgöngunefndar.

Frumvarpið felur í sér heildar endurskoðun á loftferðalögum hér á landi og er ekkert smásmíði, heilar 273 blaðsíður í A4 stærð með viðaukum og greinargerð með frumvarpi. Helstu nýjungar í frumvarpinu samkvæmt tilkynningu á vefsíðu stjórnarráðsins eru að verkaskipting milli innlendra og erlendra flugmálastjórna er skýrð, ákvæði þjóðréttarlega skuldbindinga Íslands færð í innlenda löggjöf og Montreal samningurinn lögfestur.

Ef rýnt er nánar í tilkynningar ráðuneytisins og í frumvarpið sjálft má þó greina fleiri nýmæli. Með frumvarpinu er heimild ráðherra til þess að setja skipulagsreglur í tengslum við flugvelli rýmkuð umtalsvert. Í núgildandi lögum segir að ráðherra sé heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ætlaðir eru til almennrar notkunar. Þar er ráðherra veitt heimild til þess að gefa fyrirmæli um ákveðin atriði utan flugvallarsvæðis, svo sem hæð mannvirkja og annarra hluta, til dæmis húsa, stanga og trjáa, „enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis.“

Í frumvarpinu er þessi heimild víkkuð út með fremur almennu orðalagi. Í fyrsta lagi er sú heimild sem fyrir er til staðar í lögunum víkkuð út og tekur í frumvarpinu einnig til landsvæða „þar sem fyrirhugað er að byggja flugvöll.“ Það eru nýmæli.

Þá er í frumvarpinu gerðar ítarlegri kröfur til þess hvað skipulagsreglur ráðherra um flugvallarsvæði og næsta nágrenni þess skal innihalda og eru fleiri hlutir teknir sem dæmi um hluti sem ráðherra má hafa afskipti af. Áður mátti ráðherra aðeins takmarka hæð mannvirkja og annarra hluta og meðferð fasteigna eða hluta. Yrði frumvarpið að lögum mætti ráðherra takmarka athafnir fólks og veitukerfi eða atvinnurekstur til viðbótar.

Í annarri málsgrein þessa greinar í frumvarpinu er þess jafnframt getið sérstaklega að sveitarfélög séu bundin af skipulagsreglum settum af ráðherra og að þau skulu samræma gildandi svæðis,- aðal- og deiliskipulag eftir því sem skipulagsreglur ráðherra segja innan fjögurra ára.

Loks er ráðherra skyldaður, í þriðju málsgrein, til þess að hafa samráð við viðkomandi sveitarfélag með „hæfilegum“ fyrirvara.

Segja frumvarpið miðað að Reykjavíkurflugvelli

Háværar deilur um framtíð Reykjavíkurflugvallar hafa vart farið fram hjá nokkrum manni undanfarin ár og áratugi og hefur lína nú þegar verið dregin á milli frumvarps Sigurðar Inga og þeirrar stefnu Framsóknarflokksins að halda flugvellinum þar sem hann er nú. Í umfjöllun kvöldfréttatíma RUV um jarðhræringar sem nú standa yfir á Suðurnesjum sagði Sigurður til að mynda að stefna ríkisins væri að flugvöllurinn yrði ekki færður nema að honum yrði fyrst fundinn jafn gott eða betra stæði. Vísaði Sigurður til samkomulags Reykjavíkurborgar og ríkis sem byggði á niðurstöðum hinnar svokölluðu Rögnunefndar um flugvallarkosti á höfuðborgarsvæðinu. Ragna Árnadóttir, fyrrverandi ráðherra og núverandi skrifstofustjóri Alþingis veitti nefndinni formennsku.

Í gærkvöldi vöknuðu svo umræður á samfélagsmiðlum um efnislegt innihald frumvarpsins og þá sér í lagi þau atriði er snúa að vald til að skipuleggja svæðið í nágrenni flugvalla.

Kristín Soffía Jónsdóttir er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar og hefur verið ötull málsvari breyttrar nýtingar á núverandi flugvallarsvæði í Vatnsmýrinni. DV náði tali af Kristínu Soffíu vegna málsins nú í morgun. Kristín segir frumvarp Sigurðar Inga grófa aðför að sjálfstæði sveitarfélaga og að horfi verði á málið óháð Reykjavíkurflugvelli. „Málið er úr takti við þá þróun sem við erum að sjá í þessum málaflokki. Ríkið er þarna að taka sér aukið vald.“

Aðspurð hvort að hún sjái þá frekar málið sem aðför að skipulagsvaldi sveitarfélaga en aðför að Reykjavíkurflugvelli bendir hún á að eitt útiloki ekki annað: „Þetta er auðvitað hvort tveggja aðför að flugvellinum og skipulagsvaldi sveitarfélaganna. Það er alveg fáránlegt að ráðherra ætli sér að setja lög sem færi vald yfir til ríkis til þess mögulega að geta náð valdi yfir Reykjavíkurflugvelli.“

Kristín Soffía segir sveitarfélög á landinu jafnframt sameinuð í því að láta ekki taka af sér skipulagsvaldið alveg óháð því hvort viðkomandi sé með eða á móti framtíð Reykjavíkur. „Mér finnst þetta mál fyrir neðan virðingu ráðherra. Við hljótum að geta haft okkar skoðanir á vænlegu flugvallarstæði án þess að grípa til þess að fara í sérstaka lagasetningu. Við eigum ekki sem stjórnmálamenn, hvorki ég né Sigurður Ingi að grípa í það að fara í almennar lagasetningar til þess að ná okkar persónulegu skoðunum í gegn þegar verið er að vinna málin á öðrum vettvangi,“ segir Kristín.

Kristín segist þá að lokum vonast til þess að málið falli.

„Öryggismál“ segir ráðuneytið

Drög að frumvarpinu var birt í samráðsgátt stjórnvalda á vefnum Island.is dagana 19. október til 16. nóvember í fyrra og barst ráðuneytinu þrettán umsagnir. Á meðal þeirra sem sendu inn umsögn um frumvarpsdrögin var Samband íslenskra sveitarfélaga. Í greinargerð með frumvarpinu segir:

Fram komu athugasemdir um fjölmörg efnisatriði XII. kafla um flugvelli, sér í lagi hvað varðar samráð rekstraraðila flugvallar og sveitarfélaga um vöktun og verndun flugvallarumhverfis, setningu skipulagsreglna flugvalla og framfylgni við slíkar reglur. Gerðar voru breytingar á nokkrum ákvæðum kaflans til að koma til móts við þessar athugasemdir.

Ítarlegri upplýsingar um athugasemdir við skipulagsvald ráðherra sem frumvarpið færir ráðherra eru ekki að finna í frumvarpinu. Samkvæmt fundargerð ríkisstjórnarfundar var málið svo rætt í ríkisstjórn 2. mars áður en það var lagt fram í byrjun mars.

DV reyndi ítrekað að ná tali af Sigurði Inga Jóhannssyni, ráðherra samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Ingveldi Sæmundsdóttur, aðstoðarmanni hans, en var vísað á Ólaf Hjörleifsson skrifstofustjóra skrifstofu samgangna í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Aðspurður um hvort þörfin fyrir breytingar á umræddu ákvæði hafi verið aðkallandi og hvað liggi að baki þessum lagabreytingum svaraði Ólafur að málið snéri fyrst og fremst um flugöryggi. „Kjarninn í skipulagsreglum flugvalla er öryggismál flugvalla og þeim er ætlað að tryggja að það sé ekki eitthvað í kringum flugvöllinn sem ógnar flugvellinum eða flugöryggi,“ sagði Ólafur í samtali við blaðamann DV.

Hvorki náðist því í Sigurð Inga né Ingveldi við vinnslu fréttarinnar.

 

Hér að neðan má sjá samanburð á ákvæðum er málið varða í núgildandi lögum annars vegar og frumvarpinu hins vegar.

Núgildandi ákvæði um skipulagsreglur ráðherra á flugvelli er svona:

59. gr.

Ráðherra er heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvelli sem ætlaðir eru til almennrar notkunar.

Skipulagsreglur skulu m.a. geyma fyrirmæli um skipulag innan flugvallarsvæðis, starfsheimildir, starfsemi og umferð innan svæðisins auk fyrirmæla um það svæði utan flugvallar þar sem rétt er að setja takmörkun á hæð mannvirkja og annarra hluta, t.d. húsa, stanga og trjáa, eða takmörkun á meðferð fasteigna eða hluta, t.d. að því er varðar leiðslur eða atvinnurekstur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis. Kveða skal glöggt á um mörk þess svæðis sem skipulagið tekur yfir.

Svo hljóðar ákvæðið um skipulagsreglur flugvallar eins og því er lýst í frumvarpi Sigurðar Inga:

146. gr.

Skipulagsreglur flugvallar.

Ráðherra er heimilt að setja skipulagsreglur fyrir flugvöll sem opinn er almenningi. Þá er ráðherra einnig heimilt að setja skipulagsreglur um landsvæði þar sem fyrirhugað er að byggja flugvöll sem opinn verður almenningi.

Skipulagsreglur skulu innihalda upplýsingar um:

  • afmörkun flugvallarsvæðis, hindranaflata sem og annarra flata sem tengjast flugvellinum og áhrif kunna að hafa á öryggi flugvallar og flugumferðar þar sem nauðsynlegt er að setja takmarkanir á athafnir fólks og á hæð mannvirkja og annarra hluta, svo sem trjáa og stanga, eða takmörkun á meðferð mannvirkja eða hluta, t.d. að því er varðar veitukerfi eða atvinnurekstur, enda séu slíkar kvaðir nauðsynlegar í þágu almenns öryggis,
  • hnattstöðu og mestu hæð hindrana á aðflugs- og flugtakssvæðum, hringflugssvæði og annars staðar sem við á í nágrenni flugvallar,
  • skipulag, starfsemi og umferð innan flugvallarsvæðis.

Sveitarfélög eru bundin af skipulagsreglum flugvallar frá gildistöku þeirra og skulu við gerð eða breytingu skipulagsáætlana samræma gildandi svæðis-, aðal- og deiliskipulag eftir því sem við á að skipulagsreglum flugvallar innan fjögurra ára frá samþykkt viðkomandi skipulagsreglna.

Við frumathugun að gerð nýrra skipulagsreglna flugvallar skal haft samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög með hæfilegum fyrirvara með það að markmiði að tryggja sem best samræmi milli skipulagsáætlana sveitarfélaga og skipulagsreglna flugvallar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ræða Þorbjargar á Alþingi vekur athygli og furðu – Hvatti fólk til að „ferðast í svefnherberginu“ og eignast börn

Ræða Þorbjargar á Alþingi vekur athygli og furðu – Hvatti fólk til að „ferðast í svefnherberginu“ og eignast börn
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Yfirgefur borgarstjórn og tekur við sem framkvæmdastjóri

Yfirgefur borgarstjórn og tekur við sem framkvæmdastjóri
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þingmaður Miðflokks líkir ríkisstjórnarsamstarfinu við faraldurinn – „Dettur mér helst í hug svartur strútur“

Þingmaður Miðflokks líkir ríkisstjórnarsamstarfinu við faraldurinn – „Dettur mér helst í hug svartur strútur“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Hildur vill opna eina sundlaug í Reykjavík fyrir bólusetta eldri borgara – „Tímabært að huga að opnara og frjálsara samfélagi“

Hildur vill opna eina sundlaug í Reykjavík fyrir bólusetta eldri borgara – „Tímabært að huga að opnara og frjálsara samfélagi“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Karen Kjartansdóttir hætt hjá Samfylkingunni – „Takk elsku Karen fyrir allt“ 

Karen Kjartansdóttir hætt hjá Samfylkingunni – „Takk elsku Karen fyrir allt“ 
Eyjan
Fyrir 1 viku

Velferðarnefnd fékk gögn varðandi sóttkvíarhótelmálið afhent – Engin lögfræðileg greining

Velferðarnefnd fékk gögn varðandi sóttkvíarhótelmálið afhent – Engin lögfræðileg greining