fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
EyjanFastir pennar

Líklegt að Framsókn verði í oddastöðu eftir næstu alþingiskosningar

Erla Hlynsdóttir
Sunnudaginn 14. mars 2021 18:00

Forsætisráðherrahjónin, Sigurður Ingi Jóhannsson og Ingibjörg Elsa Ingjaldsdóttir, með Michelle og Barack Obama. MYND/EPA

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Miklar líkur má telja á að Sigurður Ingi verði aftur forsætisráðherra, en flestallar hugmyndir um stjórnarmyndun gera ráð fyrir þátttöku Framsóknarflokks. Þrír fyrrverandi forsætisráðherrar sitja nú á Alþingi.

Hann hallaði sér virðulegur fram á borðið, vel greiddur og nýrakaður, mættur í dökkbláum klæðskerasniðnum jakkafötum og meira að segja hvíta skyrtan virtist passa fullkomlega aldrei þessu vant. Bláa bindið með látlausa en um leið virðulega mynstrinu hafði auðsjáanlega verið valið af kostgæfni. Hann var vel búinn undir spurningar þáttastjórnandans og talaði kjark í þjóðina á tímum heimsfaraldurs og náttúruhamfara.

Einhvern veginn svona blasti Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokks, við áhorfendum Silfursins í Ríkissjónvarpinu á sunnudaginn var. Ekki einasta kominn í kosningastellingar heldur var engu líkara en hann væri farinn að æfa rulluna fyrir forsætisráðherraembættið – enda ekki ósennilegt að Framsóknarflokkur verði enn á ný í oddaaðstöðu eftir næstu kosningar og geti samið til vinstri og hægri – og gert kröfu um valdamesta embætti landsins.

Allir vilja vinna með Framsókn

Vitaskuld er of snemmt að spá í niðurstöður alþingiskosninga sem haldnar verða í september en með þeim mælingum sem birtar hafa verið nýverið er allnokkur samhljómur. Út frá þeim er gaman að velta fyrir sér mögulegu stjórnarsamstarfi en vitaskuld er þetta samkvæmisleikur, engin nákvæmnisvísindi. Sá sem hér heldur á penna ræddi við fjölmarga sem til þekkja og hugmyndir þeirra að stjórnarmyndun eiga næstum allar sammerkt að Framsóknarflokkur er innanborðs.

Athugum líka að hér er að verða til vísir að blokkamyndun í stjórnmálum. Samfylking og Píratar hafna hvort tveggja samstarfi við Sjálfstæðisflokk og Miðflokk en þetta þrengir að vonum kosti til stjórnarmyndunar verulega.

Framhaldslíf ríkisstjórnarinnar

Ef við veljum eina mælingu sem leggja mætti til grundvallar þá er ekki úr vegi að líta á könnun Maskínu á fylgi flokkanna sem framkvæmd var í fyrri hluta febrúarmánaðar en svarendur voru alls 2.198. Samkvæmt henni hlyti Sjálfstæðisflokkur 22,5% og 15 þingmenn, Samfylking 14,3% og níu menn kjörna, jafnmarga og Vinstri græn sem mælast með 13,5% fylgi. Þar á eftir kemur Viðreisn með átta menn, Píratar og Framsóknarflokkur hvor um sig með sjö þingmenn og Mið flokkur fimm. Flokkur Ingu Sæland hyrfi af þingi yrðu þetta niðurstöður kosninga, en Sósíalistaflokkur Gunnars Smára næði naumlega inn þremur mönnum.

Ríkisstjórnin væri þar með naumlega fallin með 31 mann en gæti til að mynda kippt Miðflokki um borð og hefði þá býsna öruggan meirihluta, 36 þingmenn. Forsenda þessa væri auðvitað sættir milli forystumanna Framsóknarflokks og Miðflokks, en líklega gæti ríkisstjórnin haldið áfram sömu siglingu yrði bætt við skipsrúmum fyrir Miðflokksmenn. Ekki er að sjá að málefnaágreiningur yrði til trafala.

Hér yrði uppi sú skemmtilega staða að allir formenn samstarfsflokkanna, Katrín, Bjarni, Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð, hefðu gegnt embætti forsætisráðherra. Og þar sem flestir telja sig geta unnið með Framsóknarflokki er ekki ólíklegt að helst næðist samstaða um Sigurð Inga í embætti forsætisráðherra sem þegar er farinn að máta sig við stólinn samanber framgönguna í Silfrinu sem áður var nefnd. Honum munu alltént bjóðast fleiri kostir ef að líkum lætur.

Fleiri kostir

Margir Sjálfstæðismenn hafa fengið sig fullsadda af samstarfi við VG og kysu helst stjórn sem væri hægra megin við miðju. Það er varla gerlegt nema þá með Framsóknarflokki, Miðflokki og Viðreisn, samtals 35 þingmanna meirihluta miðað við Maskínukönnunina. Þar er heldur ekki svo fjarri lagi að sjá Sigurð Inga fyrir sér sem forsætisráðherra.

Sigurður Ingi gæti líka allt eins hugsað sér að horfa til vinstri þar sem hann gæti með réttu gert kröfu um forsætisráðherrastólinn. Vinstristjórn Framsóknarflokks, Vinstri grænna, Samfylkingar og Pírata hefði nauman meirihluta sé tekið mið af áðurnefndri könnun eða 32 menn. Gleymum ekki að Sigurður Ingi er fyrrverandi forsætisráðherra, hefur þegið stórkross fálkaorðunnar og hitt Obama í Hvíta húsinu. Þess eru líka nokkur dæmi að forsætisráðherrastóllinn hafi hlotnast Framsóknarflokknum þrátt fyrir lítið fylgi. Flokkurinn galt afhroð í alþingiskosningunum 1978 sem dæmi – varð minnstur þingflokka en Ólafur Jóhannesson, formaður flokksins, engu að síður forsætisráðherra í skammlífri vinstristjórn sem mynduð var í kjölfarið. Framsóknarflokkur hafði líka mun minni þingstyrk en samstarfsflokkurinn, Sjálfstæðisflokkur, í forsætisráðherratíð Steingríms Hermannssonar 1983–1987 og Halldórs Ásgrímssonar 2004–2006.

Hið ótrúlega getur gerst

Nú er farið að skýrast hverjir skipa lista flokkanna fyrir næstu kosningar og lengi mætti velta því fyrir sér hverjir kunna að verma ráðherrasætin. En ef við gefum okkur tvennt, annars vegar að það takist að koma Miðflokki og Framsóknarflokki saman í stjórn og hins vegar að einhvern tímann verði hægt að aflétta ferðahöftum, þá kynni Sigurður Ingi því líklega best að hafa Sigmund Davíð Gunnlaugsson sem mest í burtu og hann fengi því utanríkisráðuneytið sem hann myndi án efa taka fegins hendi. – Það skyldi þó aldrei fara að svo að þeir erkifjendur, Sigurður Ingi og Sigmundur Davíð settust aftur við sama ríkisstjórnarborðið eftir fimm ára aðskilnað? Ólafur Thors og Hermann Jónasson töluðust ekki við eftir „eiðrofið“ 1942. Þeir áttu þó eftir að setjast saman í ríkisstjórn átta árum síðar, í stjórn undir forystu framsóknarmannsins Steingríms Steinþórssonar. Framsóknarmaddömuna skorti ekki aðdáendur þá frekar en nú

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 vikum

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag fjármagnseigenda
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli

Óttar Guðmundsson skrifar: Kakalaskáli
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns

Óttar Guðmundsson skrifar: Töfrar amfetamíns
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 vikum

Steinunn Ólína skrifar: Að spara sig í hel

Steinunn Ólína skrifar: Að spara sig í hel
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar

Svarthöfði skrifar: Grunlaust íhaldið treystir samstöðu Samfylkingar og Framsóknar
EyjanFastir pennar
14.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið

Þorsteinn Pálsson skrifar: VG nýtti síðasta sóknarfærið
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann

Svarthöfði skrifar: Minningargrein um lifandi mann
EyjanFastir pennar
07.03.2024

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum

Þorsteinn Pálsson skrifar: Líkur á eins máls kosningum