fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Á þingpöllum: Græningjaflokkur Íslands

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 28. febrúar 2021 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Enginn íslenskur flokkur á aðild að evrópusamtökum Græningja. Stjórnmálamenn forðast að ræða eldfim deiluefni er varða náttúruvernd. Hagsmunir atvinnuvega látnir ráða för.

Náttúruvernd er kjörorð dagsins og undanfarin ár hafa flokkar Græningja sótt í sig veðrið hvarvetna í álfunni. Pólitískar hreyfingar umhverfisverndarsinna eiga sér langa sögu og meira en fjörutíu ár eru frá því að fyrsti fulltrúi slíkrar hreyfingar náði kjöri á þjóðþing en það var í Sviss.

Græningjar mynda með sér bandalag á Evrópuþinginu (Europäische Grüne Partei) og eiga þar samtals 52 þingmenn. Athygli vekur að flokkar frá öllum ríkjum Vestur- og Mið-Evrópu eiga aðild að samtökunum að Íslandi undanskildu.

Einn íslenskur flokkur hefur sem kunnugt er tengt sig við „grænar“ áherslur en VG er þó fremur nær sósíalískum uppruna sínum og hefur ekki tekið jafn eindregna afstöðu í náttúruvernd og flokkar Græningja í nágrannalöndunum.

Græningjar í lykilstöðu

Sé tekið mið af könnunum undanfarið stefnir í að Græningjar verði næststærsti flokkurinn á þýska Sambandsþinginu (Bundestag) í Berlín að loknum kosningum næsta haust en í þeim könnunum sem birtar hafa verið í þessum mánuði mælist fylgi þeirra á bilinu 18 til 21 af hundraði. Þetta er verulegur viðsnúningur frá kosningunum 2017 þegar flokkurinn hlaut aðeins 9% atkvæða. Sjálfir skilgreina þýskir Græningjar sig á miðju stjórnmálanna þó svo að málefnalega hafi þeir lengst af átt meiri samleið með flokkum lengra til vinstri og við blasi að þeir sækja einkum fylgi til óánægðra fyrrum kjósenda Sósíaldemókrataflokksins.

Alexander Van der Bellen, forseti Austurríkis, var um langt árabil talsmaður Græningja þar í landi og fyrir rétt rúmu ári mynduðu austurrískir Græningjar samsteypustjórn með Þjóðarflokknum, sem er flokkur kristilegra demókrata (áþekkur Sjálfstæðisflokknum). Núverandi talsmaður Græningja í Austurríki er Werner Kogler sem jafnframt er varakanslari landsins og ráðherra lista-, menningar- og íþróttamála.

Flokkar Græningja verða því ekki eingöngu skilgreindir til vinstri á pólitíska litrófinu enda náttúruvernd ekki einkamál neinnar ákveðinnar hugmyndafræði. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, kemur úr flokki Kristilegra demókrata (áður systurflokkur Sjálfstæðisflokks), en hún gerði eitt helsta baráttumál Græningja að stefnu síns flokks þegar hún beitti sér fyrir lokun þýskra kjarnorkuvera í kjölfar slyssins í Fukushima í Japan.

Þáttur Birgis Kjaran

Einn helsti brautryðjandi náttúruverndar hér á landi var þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Birgir Kjaran hagfræðingur. Hann var fyrsti flutningsmaður frumvarps til náttúruverndarlaga árið 1970 og í framsöguræðu sinni komst hann meðal annars svo að orði að maðurinn mætti „ekki eyðileggja náttúruna sér til tortímingar, því að náttúruvernd er í sjálfu sér fyrst og fremst mannvernd, lífsvernd manneskjunnar sjálfrar“. Og Birgir sagði enn fremur að náttúruvernd væri „engin spjátrungsleg sérviska búin til á skrifpúltum lífsfirrtra lærdómsofvita með aðstoð tölvunnar, né heldur rómantískt hugsjónaskvaldur, heldur bláköld hagsmunastaðreynd veruleikans“. Óhætt er að segja að þessi ummæli standist tímans tönn.

Styrmir Gunnarsson, fyrrv. ritstjóri Morgunblaðsins, rifjaði upp brautryðjendastarf Birgis í náttúruverndarmálum á vefsvæði sínu árið 2018 og benti þar á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði um skeið skapað sér sérstöðu í umhverfisverndarmálum og byggt þar á arfleifð Birgis Kjaran öðrum fremur. Styrmir telur aftur á móti að nýjar kynslóðir hafi sýnt umhverfismálum minni áhuga.

Dýravernd fær litla athygli

Í umræðum um umhverfismál vega loftslagsmálin að vonum þyngst en nefna má ýmis önnur vandasöm álitaefni. Ole Anton Bieltvedt, stofnandi og formaður dýraog náttúruverndarsamtakanna Jarðarvina, hefur látið mjög til sín taka í opinberri umræðu undanfarin ár. Samtökin hafa meðal annars kært Hval hf. til lögreglu vegna meintra brota á reglugerðum um veiðar og verkun hvals. Dauðastríð hvala er langt og að sögn Ole Antons sleppa mörg dýranna helsærð til þess eins að kveljast til dauða í lengri eða skemmri tíma.

Ole hefur einnig bent á ómannúðlegar aðferðir við minkahald og slátrun minka. Hér á landi séu aðeins níu loðdýrabændur starfandi og til rekstrarins fái þeir úr sjóðum skattgreiðenda 160 milljónir króna á ári, en flestar aðrar vestrænar þjóðir hafa bannað loðdýrarækt. Ole Anton hefur enn fremur gagnrýnt að leyfðar séu veiðar á rjúpu sem Náttúrufræðistofnun flokkar sem „tegund í yfirvofandi hættu“.

Almenningur hér á landi sýnir dýra- og náttúruvernd stóraukinn skilning en í þessu efni – eins og svo mörgum öðrum – hafa stjórnmálin setið eftir. Líkt og Ole Anton hefur bent á skella ráðamenn við skollaeyrum enda hagsmunir einstakra atvinnugreina látnir vega þyngra á metunum en velferð dýra og verndun náttúru. Þannig er kíkirinn settur fyrir blinda augað þegar sauðfé er beitt á örfoka land svo dæmi sé tekið.

Villtir laxastofnar í hættu?

Annað stórt umhverfisverndarmál tengist uppbyggingu sjókvíaeldis á laxi hér við land en Norsk institutt for naturforskning hefur sýnt fram á mjög mikla erfðablöndun eldislax við villta laxastofna en aðeins þriðjungur villtra laxa í Noregi mun vera án erfðamengunar frá eldislaxi. Auk erfðablöndunar stafar villtum íslenskum laxi hætta af sníkjudýrum og sjúkdómum sem kunna að berast með eldislaxi. Gagnrýnendur laxeldis benda á þetta og að sjókvíaeldi kunni jafnvel að hafa í för með sér útrýmingu villtra laxastofna hér við land. Hér er ótalin sú mengun sem eldinu fylgir.

Almenningur hefur vaknað til vitundar um að framtíðartilvera okkar er komin undir bættri umgengni við náttúruna og að henni verði ekki fórnað fyrir stundarágóða. Stjórnmálin eru þó sem fyrr fremur föst í hagsmunabaráttu fyrir einstakar atvinnugreinar þrátt fyrir að náttúruverndin megi í reynd teljast hin „blákalda hagsmunastaðreynd veruleikans“ þegar öllu er á botninn hvolft.

Björn Jón Bragason, sagn- og lögfræðingur, skrifar pistil í helgarblað DV sem nefnist „Á þingpöllum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild

Þykir miður að kaupin á TM hafi orðið umdeild
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum

Fyrrverandi forstjóri Reita: Hús eru byggð of þétt og of mikill hraði í byggingarframkvæmdum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Katrín og kosningastjórinn afsala sér biðlaunum

Katrín og kosningastjórinn afsala sér biðlaunum
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“

Sagan muni dæma þau og tíminn leiða í ljós hvað það muni kosta Reykvíkinga – „Þetta eru daprir tímar“