fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Segir vitleysuna í VG hafa ráðið í stjórnarsamstarfinu og hnífar fari á loft í kosningabaráttunni

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 10. febrúar 2021 20:58

Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur. Mynd: Fréttablaðið/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ljóst er að ekki eru allir Sjálfstæðismenn ánægðir með núverandi stjórnarsamstarf við VG og Framsóknarflokkinn. Margir telja Sjálfstæðisflokkinn hafa gefið of mikið eftir af stefnumálum sínum og VG hafi verið of ráðandi í stjórnarsamstarfinu.

Þetta sjónarmið kemur sterkt fram í leiðara tímaritsins Þjóðmál. Höfundur er innmúraður Sjálfstæðismaður, Gísli Freyr Valdórsson. Fyrst tínir hann til frumvarp forsætisráðherra sem takmarki heimildir um kaup og sölu á jörðum, er varð að lögum vorið 2020:

„Síðastliðið vor samþykkti Alþingi frumvarp forsætisráðherra sem takmarkar heimildir um kaup og sölu á jörðum hér á landi. Bóndinn sem er búinn að leggja ævistarf sitt í búskap
má þannig ekki selja jörðina hverjum sem er, heldur þurfa hluteigandi aðilar nú að biðla til ráðherra um að mega eiga viðskipti. Lögin, sem fela í sér skerðingu á eignarrétti, voru samþykkt af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins. Það kom nokkuð á óvart því ekkert er fjallað um vandamálið við einkaeign á jörðum í rúmlega 5.600 orða stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Nær allar umsagnir um málið voru neikvæðar en lítið sem ekkert tillit tekið til þeirra við vinnslu málsins í þinginu.“

Gísli segir frumvarpið vera leikþátt sem VG hafi skrifað en þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi tekið fullan þátt í. Hann víkur síðan að stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að stofna þjóðgarð á miðhálendinu. Engin sátt ríki um það mál meðal hagsmunaaðila þrátt fyrir yfirlýsingar um þverpólitískt samráð við þá. Þá segir Gísli:

„Sem fyrr segir eru settar verulegar skorður við orkunýtingu og það mun setja bæði byggðar og atvinnumál framtíðarinnar í uppnám. Líkt og með lög um jarðakaup er ráðherra falið mikið vald með óljósum skilyrðum. Þannig verður ráðherra einum falið að taka ákvörðun um friðlýsingu, sem Alþingi hefur fram til þessa komið að. Það er ekkert sem kallar á stofnun hálendisþjóðgarðs, annað en
að koma í veg fyrir orkunýtingu á svæðinu í framtíðinni. Hér er verið að búa til flókna ríkislausn við vandamáli sem er ekki til í dag, en verður vandamál síðar.

Umfram allt er hér á ferðinni gífurlega pólitískt mál og það sætir mikilli furðu að afstaða Sjálfstæðisflokksins liggi ekki skýr fyrir. Það er í það minnsta búið að hleypa málinu í gegnum ríkisstjórn og enn er ekki loku fyrir það skotið að málið verði samþykkt.“

Andstaða við einkarekstur – bóluefnaklúður

Gísli fer hörðum orðum um heilbrigðisráðherra VG sem standi gegn öllum einkarekstri í heilbrigðiskerfinu og ráðuneytið eigi mikla sök á klúðri varðandi pantanir á bóluefnum gegn Covid-19:

„Á fyrstu dögum stjórnarsamstarfsins lýsti heilbrigðisráðherra VG því yfir að það yrði enginn frekari einkarekstur í heilbrigðiskerfinu á hennar vakt. Hún hefur fylgt þeirri stefnu eftir af mikilli hörku og án athugasemda þingmanna Sjálfstæðisflokksins. Flestir þekkja það hvernig fólk sem búið er að vera lengi á biðlista eftir liðskiptaaðgerðum er sent til Svíþjóðar þó að hægt sé að gera slíkar aðgerðir með minni fyrirhöfn og kostnaði af einkaaðilum hér heima, t.d. Klínikinni. Nýjasta dæmi er breytingar á skimunum fyrir legháls og brjóstakrabbameini, sem færðar voru frá
Krabbameinsfélaginu til ríkisins með þeim afleiðingum að þjónustan verður verri. Þess utan verður hluti sýna, sem hingað til hefur verið greindur hér á landi, sendur til útlanda til greiningar.

Þá er alveg ljóst að heilbrigðisráðuneytið, undir forystu heilbrigðisráðherra, klúðraði að miklu leyti pöntunum á bóluefnum gegn Covid-19 faraldrinum – sem hefur bæði félagslegar og efnahagslegar afleiðingar í för með sér til hins verra. Í nafni sátta og samlyndis hefur enginn þingmaður opinberlega gagnrýnt ráðherrann fyrir forystuleysi sitt í málinu – nú eða öðrum málum yfirleitt.“

Sjálfstæðisflokkurinn þægur í samstarfi

Gísli segir VG hafi ýmist haft sitt fram eða notið friðhelgi í samstarfinu. Sjálfstæðisflokkurinn hafi náð fáum málum fram. Þingmenn og ráðherrar flokksins vilji umfram allt halda friðinn og sýna lipurð í stjórnasamstarfinu. Það sé ekki endilega skynsamlegt því kjósendur flokksins geri ekki bara þá kröfur á flokkinn að hann sér þægilegur í ríkisstjórnarsamstarfi.

Þá telur Gísli ólíklegt að VG launi flokknum samstarfslipurðina þegar nær dregur kosningum:

„Um leið og kosningabaráttan hefst af einhverri alvöru fara hnífarnir á loft, væntanlega strax að loknu þingi. Það verður þó fróðlegt að sjá hvernig Sjálfstæðisflokkurinn mun nýta þann tíma sem er fram að kosningum.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn