fbpx
Sunnudagur 25.september 2022
EyjanFastir pennar

Listin að breyta 1,5 milljónum í 40 þúsund krónur á örskotsstundu – Rafmyntarússíbani Musk og Minksins

Björn Þorfinnsson
Laugardaginn 6. nóvember 2021 15:11

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þrátt fyrir að hafa haft lengi áhuga á rafmyntum þá keypti undirritaður fyrst slíkan gjaldmiðil um mitt ár 2020. Það var í kjölfarið af viðtali mínu við einn aðstandanda Myntkaupa fyrir Fréttablaðið sem ég sleppti beislinu af forvitninni og fjárfesti í þekktustu og stærstu rafmynt heims – Bitcoin. Rétt er að geta þess að hin gullna regla í slíkum fjárfestingum er að nota aðeins peninga sem þú mátt við því að tapa. Þannig afskrifaði ég strax aurana í huganum og hóf rússíbanareið sem ekki sér fyrir endann á.

Mörg þúsund rafmyntir í boði – Sumar vafasamar

Bitcoin hefur orðið einskonar samheiti yfir allar rafmyntir og maður verður stundum var við að fólk haldi að það sé eini valkosturinn. Staðreyndin er hins vegar sú að rafmyntir í dag eru meira en 4 þúsund talsins og þær er hægt að kaupa í mörgum tugum rafrænna kauphalla. Þetta er alveg ótrúlegur frumskógur sem fáir hafa yfirsýn yfir.

Enginn ætti heldur að vanmeta þann ógnarstóra fjármálamarkað sem hefur myndast í kringum rafmyntir veraldarinnar. Heildarverðmæti tíu stærstu rafmynta heims eru tæplega 278 billjónir íslenskra króna því alveg ljóst að rafmyntir eru komnar til að vera þótt óljóst sé hvert hlutverk þeirra verður í fjármála- og greiðslukerfum framtíðarinnar.

Þá ber þó að hafa í huga að mjög mikið af þessum myntum er vafasamt rusl og í mörgum tilvikum er hreinlega um pýramídasvindl að ræða.

Þannig sátu margir eftir með sárt ennið eftir hrun SQUID rafmyntarinnar á dögunum.Eins og nafnið gefur til kynna var rafmyntin tilvísun í hina vinsælu sjónvarpsþætti Squid Game og átti að vera hægt að nota myntina til að spila tölvuleik sem byggður var á leiknum. Myntin hækkaði í verði um 7.500 prósent á örskömmum tíma og skapaðist fullkomið gullæði meðal aðdáenda. Aðstandendur myntarinnar, sem tengdust ekki þáttunum með neinum hætti, seldu þá sinn hlut í skyndi og innleystu hagnað upp á um 250 milljónir króna en virði rafmyntarinnar hrundi niður í nánast ekki neitt á skömmum tíma.

Örlagarík skilaboð minksins

Eins og áður segir byrjaði rafmyntarússíbanareið mín í maí árið 2020. Ég keypti mig inn í Bitcoin-rafmyntina fyrir lága upphæð fyrst til að prófa og bætti svo rólega við. Að lokum hafði ég fjárfest fyrir um 170 þúsund krónur og var svo heppinn að hitta á rafmyntin fræga hafði verið í lægð og fór á flug skömmu eftir að ég keypti. Á nokkrum mánuðum hafi fjárfestingin þrefaldast og ég státaði af rúmlega hálfri milljón á reikningnum mínum. Ég var frekar ánægður með mig á þessum tímapunkti og varð enn forvitnari um rafmyntir.

Maður er nefndur Minkur og er vinur minn. Minkurinn er fluggreindur, með afbrigðum slægur og á köflum jafnvel grimmur ef réttlætiskennd hans er misboðið. Hann er loðinn og agalegur. Drekkur helst orkudrykki, reykir og talar meira en góðu hófi gegnir. Hann hefur fylgst með rafmyntum í tæpan áratug og heldur stundum til í myrkum afkimum internetsins í þeim tilgangi.

Minkurinn vissi af mínum fyrstu skrefum í rafmyntunum og í apríl á þessu ári fékk ég örlagarík skilaboð. „Elon! Keyptu Elon,“ skrifaði Minkurinn í ofboði.

Fyrstu viðbrögð mín við sögnum í boðhætti er umsvifalaust að hlýða. Þannig er ég nú bara innréttaður.

Á örskotsstundu var ég búinn að fá kennslu frá Minknum og keypti í kjölfarið smávegis af Elon-rafmyntinni, sem fullu nafni heitir Dogelon Mars, fyrir Bitcoin-gróðann minn í kauphöll sem ég hafði aldrei heyrt um, Poloniex.

Musk er kóngur rafmyntanna

Konungur rafmyntanna er sjálfur Elon Musk – ríkasti maður heims. Elon hefur iðulega skrifað færslur á Twitter-síðu sína þar sem hann minnist á rafmyntir og afleiðingarnar eru umsvifalaust þær að viðkomandi mynt hækkar í verði, nú eða lækkar ef skilaboðin eru neikvæð. Þannig hefur Musk haft mikil áhrif á verð Bitcoin með tvítum sínum en ekki síst draslmyntina Doge-coin.

Elon Musk. Mynd:Getty

Þá mynt tók Musk uppá sína arma ásamt öðrum stjörnum og með nokkrum vel tímasettum tvítum skapaði hann, að stórum hluta, einskonar kaupæði á myntinni sem hækkaði í verði um 20 þúsund prósent á rúmlega einu ári. Markaðsvirði hennar er núna um 5.000 milljarðar króna sem gerir hana að níundu verðmætustu rafmynt heims.

Grín sem gekk of langt

Það skemmtilega í þessu er að Doge coin rafmyntin var sköpuð sem einskonar grín sem gekk svo sannarlega of langt. Segja má að myntin hafi rutt brautina fyrir aðrar slíkar myntir en þær eru oft eru nefndar meme-coins eða jafnvel shitcoins.

Margar þeirra eiga það sameiginlegt að vera einhverskonar tilvísun í Elon Musk. Allt markaðsefni Doge Coin myntarinnar skartar mynd af hundi af Shiba Inu-kyni.

Musk gerði allt vitlaust á dögunum með að fá sér slíkan hund sem gæludýr og nefndi hann fallegu íslensku nafni – Floki.

Hvutti Elon Musk – Floki

Í dag hafa nokkrar myntir farið á flug með beinni tilvísun í þetta. Stærst er rafmyntin Shiba Inu sem á dögunum tók fram úr Doge Coin í verðmæti og síðan eru aðrar myntir eins og Floki Inu, Baby Doge og síðan Dogelon Mars – stundum nefnd Elon – sem er skítamyntin sem Minkurinn lét mig fjárfesta í.

Flestar eiga þessar myntir það sameiginlegt að vonast eftir því að tilvísunin í Musk og hundinn hans skili þeim velgengni og stóri draumurinn er sá að auðkýfingurinn Musk minnist á myntina í Twitter-færslu sem myndi einfaldlega þýða að fjölmargir nýir milljónamæringar yrðu til um allan heim.

Þetta er náttúrulega ævintýralegt rugl.

Rafrænn Warren Buffett – eða ekki

Fljótlega eftir að Minkurinn benti mér á Dogelon Mars myntina byrjaði hún að hækka hratt í verði. Í hvatvísi minni ákvað ég að selja hreinlega allt Bitcoin-safnið mitt í nokkrum skrefum og dúndra á draslmyntina góðu. Svona eins og skynsamir menn gera.

Í nokkra daga hélt ég að ég væri Warren Buffett-rafmyntanna. Dogelon Mars hækkaði hratt í verði og eftir nokkra daga hafði eignin mín þrefaldast – Ég átti rúmlega 1,5 milljónir í myntinni. Ég fór nánast ósjálfrátt að fylgjast með spjallborðum og þar voru margir vongóðir að þarna væri komin næsta Doge Coin – mynt sem myndi mögulega fimmtíufaldast í verði.

Þó að Minkurinn sé varfærnari en ég var hann fljótlega búinn að missa alla raunveruleikatengingu eins og ég.

Allt að því skríkjandi af gleði yfir velgengni okkar handsöluðum við rafrænt í gegnum Messenger-spjallið okkar að þegar við værum orðnir nægilega loðnir um lófann af þessi rugli myndum við fara í helgarferð til Berlín, kaupa okkur svarta og hvíta Teslu, til heiðurs vini vorum Musk, og bruna þeim eftir Auto-bahnum í Norrænu og heim.

Það kann að vera að við höfum verið drukknir, hvor í sínu Covid-horni, þegar þetta var ákveðið.

Ófétið Vitalik Buterin

Gleðin entist þó ekki lengi og það var allt helvítinu honum Vitalik Buterin að kenna.

Buterin er maðurinn á bakvið rafmyntina Etherum sem er næststærsta rafmynt heims á eftir Bitcoin. Virði hennar í dag er um helmingi lægra en Bitcoin en margir eru á þeirri skoðun  að innan nokkra ára muni Etherum fara fram úr Bitcoin í verðmæti. Sá þeóríski atburður hefur þegar fengið nafnið „Flippening“ sem segir kannski ýmislegt um hversu stór sú tímamót yrðu í hugum rafmyntanörda.

Í tilraun til þess að gera Dogelon Mars að almennilegri rafmynt (sem hún er náttúrulega alls ekki) þá gáfu skaparar myntarinnar Buterin einfaldlega helminginn af allri útgefinni myntinni. Einskonar virðingarvottur við hinn 27 ára gamla rafmyntarguð sem að núna er metinn á um 1,5 milljarð dollara.

Vitalik Buterin er ekki í miklum metum hjá mér og Minknum

Á svipuðum tíma og við Minkurinn vorum brunandi um Autobahna í huganum þá ákvað Buterin hreinlega að gefa helminginn sinn af allri Dogelon Mars-myntinni til góðgerðamála.

Á þessum tímapunkti voru það „ekki nema“ um 500 milljónir dollara sem Buterin gaf en afleiðingarnar voru miklar fyrir mig, Minkinn og hina vitleysingana.

Á örskömum tíma hríðféll gengi Dogelon Mars. Svo að lesendur geri sér grein fyrir hlutföllunum vorum við Minkurinn dansandi í rúmlega 200 en mjög fljótlega var gengið komið í 5.

Milljónirnar mínar, ein og hálf, voru þar með orðnar um 40 þúsund. Smá skellur

Listin að skammast sín

Þrátt fyrir að upphaflega fjárfestingin hafi verið frekar lág þá var tilhugsunin um ofsagróðan sem hvarf sjónum nokkuð pirrandi. Við Minkurinn hættum að ræða rafmyntir í nokkra mánuði. Við skömmuðumst okkar og létum okkur hverfa í myrkur Buterin-bölvunarinnar.

Minkar eru hinsvegar tækifærissinnar að guðs náð og hafa augun með öllum tækifærum til að vænka hag sinn. Þessvegna fékk ég nokkrum mánuðum síðar skilaboð frá mínu eftirlætis spendýri. „Það er eitthvað að gerast með Elon-ið.“

Og viti menn. Allt í einu byrjaði einhver hreyfing á verðmæti myntarinnar sem legið hafði í dvala allt sumarið og langt fram á haust. Innan nokkra daga var 40 þúsund kallinn minn aftur orðinn rúmlega milljón. Aftur heltók ofsafengin gleði mig og Minkinn. Við bættum meira að segja við fjárfestinguna, ég 200 þúsund krónum, og allt hækkaði hratt. Skyndilega átti ég 2,2 milljónir króna í Dogelon Mars-rafmyntinni sem ég hafði afskrifað með öllu.

Að læra ekkert af reynslunni

Lærði ég eitthvað á þessum rússíbana? Nei. Ég var aftur kominn á Autobahn-inn fyrir draumafjármagnið sem ég hafði aflað upp úr þurru með rafmynt sem mögulega er einhverskonar pýramídasvindl.

Fyrstu sem komast inn græða, hinir ekki. Þeir sem hafa vit á því að selja á réttum tímapunkti græða, hinir ekki. Í raun og veru ekki ósvipað því sem gengur og gerist í hlutabréfunum!

Eitt af því mikilvægasta við velgengni draslmynta eins og Dogelon er markaðssetning þeirra og þar skipta samfélagsmiðlar öllu máli. Þeir sem eru á bak við þessar myntir stofna Instagram og Twitter-reikninga auk þess sem stór Reddit-samfélög á bak við myntirnar verða yfirleitt til. Þá er keppst við að búa til einhvern tilgang með myntinni, annaðhvort sé um einhverskonar mikilvæga og nýmóðins tækni að ræða (sem í sumum tilvikum er alveg rétt) eða þá að einhverskonar göfugur tilgangur sé með rafmyntinni.

Stærsti eigandi Dogelon Mars-rafmyntarinnar eru t.d. samtök sem segjast ætla að rannsaka og stuðla að auknu langlífi mannkyns og það er notað til þess að selja hugmyndina áfram. Ég hef mínar efasemdir.

Hodlandi hvalir

Í seinni bylgju minni af Dogelon-gróðastarfseminni fór ég að fylgjast með umræðum á Reddit. Þar öskruðu aðrir fjárfestar heróp á borð við – „First we go to the Moon, then we go to Mars,“ – og áttu þar við margfeldisgróðann sem væri í raun og veru bara innan seilingar. Þetta leist mér vel á og innan tíðar var Autobahnið ekki markmiðið – ég var bara kominn í geimbúning eins og Buzz Aldrin.

Daglega eru miklar sveiflur á rafmyntinni og það reynir á marga að selja ekki þegar sveiflurnar eru hvað dýpstar. Ég reyni að fylgjast ekki með þessu en verð þó reglulega var við herópið „HODL“ sem gengur um alla samfélagsmiðla sem tengjast Dogelon Mars og öðrum rafmyntum

Sá frasi er frá Bitcoin-spjallborði árið 2013 þegar samnefnd rafmynt hafði tapað 40% af verðgildi sínu á örskömmum tíma. Til að stappa stálinu í aðra fjárfesta skrifaði notandinn Gamekyuubi, sem síðar kom í ljós að var ölvaður, eftirfarandi setningu á spjallborðið. „I AM HODLING“. Hin skemmtilega innsláttarvilla á orðinu HOLD fór sem eldur um sinu í rafmyntaheimum og er núna ávallt notað til þess að hvetja fjárfesta mynta til að selja ekki þrátt fyrir að útlitið sé svart.

Þá komst ég fljótlega að því að þrátt fyrir hóflega fjárfestingu mína í þessari rugluðu rafmynt þá væri ég svokallaður hvalur (e. Whale). Það þykir mér við hæfi enda hef ég þyngst talsvert í þessu Covid-ástandi.

Hvalir eru þeir sem eiga frekar háar upphæðir í hverri rafmynt fyrir sig og þykir oft nokkur tíðindi, sérstaklega á árdögum mynta, að þeir selji sig út í einu lagi.

Strangt tiltekið skilgreini ég sjálfan mig í mesta lagi sem höfrung en þegar stóru hvalirnir selja sig út úr myntum verður iðulega mikil dýfa á markaðinum með tilheyrandi geðshræringu.

Allt næstum fjandans til

Fór síðan allt til fjandans? Næstum því.

Fyrir nokkrum dögum varð hrun á Dogelon Mars rafmyntinni sem fór úr 250 niður í um 80.

Milljónirnar mínar 2,2 urðu rétt um 700 þúsund krónur á stuttum tíma. Myrkur Buterin-bölvunarinnar lagðist á huga minn. Allt virtist glatað og í öllu stressinu skiptumst við Minkurinn á að kaupa og selja hægri vinstri. Aðallega með verri árangri en ef við hefðum bara beðið. Við erum víst aungvir Warrenar Buffetar.

Minkurinn hafði vit á því að selja sig út fyrr en ég hafði vit á því að kaupa mig aftur inn á undan honum. Svo fór allt á flug aftur skömmu síðar.

Staðan þegar þessi alltof langi pistill er skrifaður er að við Minkurinn eigum báðir jafnháa upphæð inni í kauphöllinn. Ég á enn hlut í Dogelon Mars en hann lúrir bara á dollurum og bíður færis eins og rándýrið sem hann er.

Við erum hættir að spá í Teslum og munum í mesta lagi bruna um Autobahna á ódýrum bílaleigubíl, látum jafnvel einn duga. Við verðum sennilega seint ríkir af þessari vitleysu en við erum að minnsta kosti búnir að fá smjörþefinn af árdögum rafmyntabrjálæðisins sem mun óhjákvæmilega verða enn fyrirferðarmeira á næstu árum.

Persónulega ætla ég að loka reikningnum mínum og skoða hver staðan er um mitt næsta ár.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
31.07.2022

Í skjóli Stalíns á Ólympíumóti – Harmleiksferðalag og ótrúleg persónudýrkun

Í skjóli Stalíns á Ólympíumóti – Harmleiksferðalag og ótrúleg persónudýrkun
EyjanFastir pennar
29.07.2022

Ólympíumótið í skák hafið í Chennai – Efnilegasti skákmaður Íslands missir af mótinu vegna Covid

Ólympíumótið í skák hafið í Chennai – Efnilegasti skákmaður Íslands missir af mótinu vegna Covid
Aðsendar greinarFastir pennar
08.07.2022

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?

Tryggvi Pétur Brynjarsson skrifar: Geta útlendingar ekki lært íslensku?
Fastir pennarFókus
04.07.2022

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr

Poppsálin: Maðurinn sem vildi vera tígrisdýr
EyjanFastir pennar
14.06.2022

„Þú líka Brútus“

„Þú líka Brútus“
EyjanFastir pennar
12.06.2022

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga

Björn Jón skrifar: Að lesa í úrslit kosninga
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Framtíð menntunar

Framtíð menntunar
EyjanFastir pennar
13.05.2022

Flýtum lagningu Sundabrautar

Flýtum lagningu Sundabrautar