fbpx
Miðvikudagur 26.janúar 2022
Eyjan

Jón Þór kærir Inga Tryggvason til lögreglu fyrir mögulegt kosningasvindl – „Slíkt brot varðar fangelsi allt að fjórum árum“

Erla Dóra Magnúsdóttir
Miðvikudaginn 24. nóvember 2021 14:27

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Píratinn Jón Þór Ólafsson hefur kært Inga Tryggvason, oddvita yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis til lögreglu fyrir mögulegt kosningasvindl. Hann gerði grein fyrir kærunni í pistli sem birtist hjá Vísi.

Kæran mun byggja á lýsingu málsatvika við endurtalningu eins og hún kemur fram í greinargerð undirbúningsnefndar Alþingis fyrir rannsókn kjörbréfa (URK) sem og opinberum upplýsingum sem lögregla afhenti nefndinni.

Jón Þór telur ljóst að af gögnunum megi lesa að Ingi hafi skapað sjálfum sér tækifæri á að svindla á atkvæðum í Alþingiskosningunum og að hann hafi hraðað endurtalningu með þeim hætti að lögbundið eftirlit var ómögulegt. Eins vísar Jón Þór til þess að Ingi hafi farið rangt með í gerðabók, í viðtölum við fjölmiðla, fyrir þingnefnd og fyrir lögreglu um málsatvik sem benda á mögulega sekt hans.

Jón Þór óskar eftir því í kærunni að lögregla rannsaki sérstaklega hvort að líkur séu á að Ingi hafi brotið gegn ákvæði kosningalaga með því að hafa „vísvitandi rangfært atkvæðagreiðslu“

„Séu fyrir hendi næg sönnunargögn sé rétt samkvæmt lögum að gefa út ákæru þess efnis, en slíkt brot varðar fangelsi allt að fjórum árum. Kæran beinir því jafnframt til lögreglu að rannsaka önnur möguleg lögbrot við framkvæmd kosninganna er varða sektum.“

Jón Þór vísar til þess að Ingi hafi verið einn með óinnsigluðum atkvæðum í rúman hálftíma en ein mínúta nægi til að rangfæra atkvæðagreiðsluna með „strokleðri og blýanti“.

Jón Þór vísar til þess að eftir að Ingi var einn með kjörgögnunum hafi hann í beinu framhaldi sjálfur tekið upp bunka atkvæða þar sem mátti finna öll níu atkvæðin sem „breyttu því hvaða frambjóðendur yrðu þingmenn og þau fann hann í efsta af 22 atkvæðabunkum Viðreisnar. Sú aðgerð að nota blýant og strokleður til að breyta 9 atkvæðum Viðreisnar í aðra flokka væri hæglega framkvæmanleg á innan við mínútu. Ef sá aðili hefði 5 mínútur gæti hann fundið sérstaklega atkvæðaseðla þar sem kjósandi hafi ekki með X-inu sínu marið kjörseðilinn og því engin ummerki ef atkvæði hans væri strokað út.“

Jón Þór segir að gögn Alþingis sýni að Ingi hafi gert kosningasvindl mögulegt með því að innsigla ekki atkvæði sem sé lögbrot sem lögregla hafi staðfest og ákveðið síðan að vera einn með atkvæðunum í rúman hálftíma sem sé mögulegt lögbrot.

Hann hafi eins komið í veg fyrir lögbundið eftirlit með mögulegu kosningasvindli með því að ákveða að flýta endurtalningu, auglýsa hana ekki og vanrækja að boða umboðsmenn lista eða kveða til staðgengla þeirra.

„Oddvitinn ákvað að bóka í gerðabók kosninganna atvikalýsingu sem er sannanlega röng og til þess fallin að fela hans eigin hugsanlegu lögbrot við framkvæmd talningar atkvæða í Alþingiskosningum (Mögulegt lögbrot)“

Jón Þór krefst þess að lögreglan taki málið til rannsóknar án tafar.

„Nauðsynlegt er að lögregla framfylgi sínum skyldum að fullu eins og kveðið er á um þær í lögum um kosningar þegar þeir sem bera ábyrgð á framkvæmd kosninganna fara mögulega á svig við lögin“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira

Björn Jón skrifar: Við þurfum að virkja meira
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þjóðverjar eiga sérstakt vopn gegn ógnunum Rússa gegn Úkraínu en hika við að beita því

Þjóðverjar eiga sérstakt vopn gegn ógnunum Rússa gegn Úkraínu en hika við að beita því