fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Kristrún rýfur þögnina og svarar fyrir Kvikumálið – „Ég datt í lukkupottinn varðandi fjárfestingarákvörðun“

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 3. október 2021 12:43

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kristrún Frostadóttir, nýkjörinn þingmaður Samfylkingarinnar, stóð í ströngu rétt fyrir Alþingiskosningar þegar fréttir bárust af meintri 100 milljón króna kaupaukagreiðslu sem hún átti að hafa þegið frá fyrrum vinnuveitanda sínum, Kvikubanka, og að mögulegt væri að skattgreiðslur af þessum greiðslum hafi ekki verið í samræmi við lög.

Kristrún var gagnrýnd í kjölfarið fyrir að svara ekki nægilega vel fyrir málið, en hún gagnrýndi fyrst og fremst fréttaflutninginn og ásakanir sem voru bornar á hendur henni í nafnlausum ritstjórnarpistlum Viðskiptablaðsins.

Sjá nánar:

Kristrún neitar að hafa þegið tugmilljóna kaupaukagreiðslur

Viðskiptablaðið hjólar í Kristrúnu eftir að hún sakaði blaðið um kvenfyrirlitningu

Líkja Kristrúnu við Trump vegna viðbragða við spurningum fjölmiðla um hlutabréfaviðskipti

Nú hefur Kristrún útskýrt málið frá sínum bæjardyrum, en hún var gestur í Silfrinu í dag þar sem hún sagðist gera sér grein fyrir að sem þingmaður skipti trúverðugleikinn miklu máli.

Staðan önnur í bankanum árið 2018

Kristrún segir að fréttum af greiðslunum hafi verið stillt þannig upp að almenningur hafi átt að halda að eitthvað væri athugavert við innlausn hennar á hlutabréfum sem hún keypti í Kvikubanka þegar hún hóf þar störf.

„Fyrstu fréttir um þetta er hálfpartinn stillt upp þannig að það sé eitthvað mikið við þetta að athuga, ég hefði fengið 100 milljón króna kaupaukagreiðslu frá Kvikubanka sem að er síðasti starfsvettvangur minn.“ 

Kristrún segir að það sé rangt að um kaupaukagreiðslur hafi verið að ræða. Hún hafi hafið störf hjá Kviku árið 2018 þegar bankinn var í allt annari stöðu á markaðinum en hann er í dag. Þá hafi henni, sem og öðrum starfsmönnum bankans, staðið til boða áskriftarréttindi á hlut í bankanum, en þá var hver hlutur metinn á 6 kr. Um töluverða áhættufjárfestingu var að ræða að sögn Kristrúnar en hún ákvað að slá til og keypti hlutabréf fyrir þrjár milljónir.

Aðeins hægt að leysa út á þremur dagsetningum

Þær kvaðir fylgdu þó kaupunum að bréfin væri aðeins hægt að leysa út á þremur tilteknum dagsetningum í framtíðinni.

Þegar Kristrún leysti út fyrsta hluta fjárfestingar sinnar árið 2020 hafði staða Kviku stórbatnað og því hlaut hún 8 milljón krónur í hagnað af sölunni eftir greiðslu skatta.

„Síðan pæli ég ekkert meira í því. Tíminn líður. Það er tilkynnt samruna Kviku við TM– eitt stærsta tryggingafélag landsins. Það verða miklar vaxtalækkanir í landinu sem pumpa upp eignaverð hérna,“ segir Kristrún. 

Þegar næsti innlausnardagur kom, í janúar á þessu ári, var gróðinn því orðinn töluvert meiri.

„Þegar kemur að holli númer tvö í sölu á þessum bréfum, sem var rétt áður en ég hætti í bankanum núna í janúar. Þá var heildarábatinn minn af þessari fjárfestingu, eftir skatta, orðinn 30 milljónir króna. Þá græði ég býsna vel og stend frammi fyrir því að fjárfesting sem ég vissi ekkert hvert væri að fara hefði skilað mér 30 milljónum króna.“

Þriðji innlausnardagurinn er ekki fyrr en á næsta ári svo Kristrún segir stöðu hennar í dag vera þá að :

„Ég hef fengið 30 milljónir króna út úr fjárfestingu sem reyndist bara fáránlega góð fjárfesting“ 

Eftir stendur hlutur sem metinn er í dag á 45 milljónir

Hlutabréf í Kviku hafi áfram hækkað gífurlega og því sé hlutinn sem hún hefur ekki enn innleyst hækkað gífurlega að sama bragði.

Hún hafi keypt á 6 kr en hver hlutur var fyrir helgi metinn á 25 kr.

„Það væri hægt að verðmeta það sem ég sit eftir með, og hef ekki innleyst, á 45 milljónir króna eftir skatta. Þetta hins vegar, Egill, er hlutur sem í lok síðasta árs var 18 milljónir króna virði, fyrir ári síðan var 7 milljón króna virði. Ég get ekki innleyst þetta fyrr en eftir áramót og ég veit ekkert hvað ég fæ út úr þessu. Þegar þessi umræða fer af stað var ég ekki einu sinni búin að reikna þetta út.“ 

Kristrún bendir á að hún hafi ekki séð fyrir þessa þróun þegar hún keypti bréfin. Þá hafi staðan verið óljós en síðan þá hafi Kvika þrefaldast af stærð.

Upplýsingarnar ekki opinberar

Þegar fréttir fóru að berast af þessari fjárfestingu hennar í fjölmiðlum og talað þar um 100 milljón króna kaupauka, var Kristrúnu mjög brugðið. Eins hafi þetta verið sett í samhengi við rannsókn á meintum skattalagabrotum sem tengist henni ekki neitt.

Ásakanir hafi borist í nafnlausum pistlum og ákvað Kristrún að svara fyrir þær árásir án þess að fara nánar ofan í eðli málsins. Síðan hafi hún gert sér grein fyrir að fréttirnar hafi byggt á upplýsingum sem ekki voru aðgengilegar almenning.

„Það rennur upp fyrir mér, sérstaklega þarna viku fyrir kosningar, að þetta er byggt á óopinberum upplýsingum. Upplýsingar um minn prívat og persónulega fjárhag, sem var hvergi að finna nein staðar. Það er ekki mitt að segja hvernig þessar upplýsingar bárust á þessa staði – en þetta er staðan og viðbrögð mín á þessum tíma tóku mið af því.“ 

Datt í lukkupottinn

Kristrún segir að alltaf hafi staðið til að tilgreina óinnleystu bréfin í hagsmunaskráningu þingmanna og ákvað hún að stíga fram í Silfrinu til að skýra málið út, enda mikilvægt að þingmenn njóti trausts og trúverðugleika.

Sannleikurinn sé hreinlega sá að hún hafi tekið áhættu og fjárfesti í bréfum í Kviku og síðan orðið ótrúlega heppin. Reyndar sé það svo að ef einhver kæmi til hennar sem hefði kost á að fjárfesta í hlut í eigin vinnuveitanda þá myndi Kristrún ráðleggja þeim sama að stökkva á tækifærið.

„Það sem skiptir mig mestu máli í þessu Egill, er að ég er og hef alltaf verið, og ég held það sé ein ástæðan fyrir að ég hef fengið svona mikla athygli, ég er bara hreinskilin, beinskipt, ég er algjörlega hagsmunalaus og hef alltaf verið og það er ástæða þess að mig langaði inn á þjóðkjörið þing, til að geta beitt mér þannig og ef að þetta mál skapaði einhver neikvæð hughrif þá finnst mér bara ótrúlega mikilvægt að árétta það að það er ekkert athugavert við þessa fjárfestingu annað en það að ég datt í lukkupottinn varðandi fjárfestingarákvörðun.“ 

Varðandi gagnrýni um að svör hennar fyrst eftir að fréttir bárust af málinu hafi verið ófullnægjandi segir Kristrún

„Það spilaði inn í þetta þau tilfinningalegu tengsl sem komu upp hjá mér að ég áttaði mig á því að þarna voru mínar prívat upplýsingar, sem ég hafði ekki hleypt neinum að og ég hefði ekki sjálf komið út, komnar fram. Ég hélt líka bara einfaldlega að fólk áttaði sig á því að þetta væri ekkert vandamál því ég vissi innst inni að þetta var ekki neitt vandamál. Ég hef alltaf verið mjög prívat manneskja, áður en ég fór í framboð var ég ekki einu sinni á samfélagsmiðlum“ 

 

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn