fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

Simmi Vill og Bjarni Ben tókust á – „Ég er ekkert að skrökva því Bjarni“

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 25. ágúst 2021 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmar Vilhjálmsson, athafnamaður, er farinn af stað með nýjan spjallþátt Þrasað á þriðjudögum. Í fyrsta þætti mætti Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, til Sigmars í spjall og má með sanni segja að þeir félagar hafi þrasað hressilega. Þorri viðtalsins snerist um stuðning ríkisins við atvinnurekendur vegna COVID-19 faraldursins, en Sigmar gagnrýndi harðlega skilyrði sem sett voru fyrir þeim stuðning, og tók fram að hans eigin rekstur hafi ekki fengið krónu í ríkisstyrk en samt tekist að halda öllu sínu starfsfólki í vinnu.

Brot á jafnræðisreglu?

Sigmar telur að með skilyrðum sem sett voru fyrir hinum ýmsu úrræðum sem atvinnurekendum hafa staðið til boða og kynnt voru í aðgerðarpökkum ríkisstjórnarinnar undanfarin misseri séu brot á jafnræðisreglu.

Benti Sigmar jafnframt á að þó svo atvinnurekendur hafi fengið að dreifa greiðslum opinbera gjalda þá þurfi þeir að borga það dýrum dómum í formi 8,5 prósent dráttarvaxta, en dráttarvextir gerist vart hærri.

„Við erum að vinda ofan af öllum vetrinum. Það er ekki eins og maður sé með sjóði aukalega til að takast á við það. Skatturinn segir: Ekkert mál við getum dreift þessu í einhverja mánuði en það tikkar á 8,5 prósent dráttarvöxtum. Ég er ekkert að skrökva því Bjarni,“ sagði Sigmar.

Bjarni vildi ekki kannast við þetta og virtist koma nokkuð á hann. Hélt hann því fram að Sigmar hlyti að vera vísað til opinberra gjalda vegna tímabilsins áður en COVID skall á.

„..Ég get sent þér nýjustu kvittunina þar sem ég er að dreifa opinberum gjöldum fyrir síðasta tímabil og það mun þar tikka á 8,5 prósent dráttarvöxtum sem eru dýrustu dráttarvextirnir í dag,“ svaraði þá Sigmar.

Sigmar furðaði sig jafnframt á því að að tekjufallsstyrkir ríkisstjórnarinnar stæðu aðeins þeim til boða sem hafi orðið fyrir meira en 40 prósent tekjufalli. En í því felist að þeir sem hafi orðið fyrir 35 prósenta tekjutapi, svo dæmi séu tekin, komi að lokuðum dyrum.

Sigmar telur að með þessu skilyrði sé jafnræðisregla stjórnarskrárinnar brotin. Gagnrýndi Sigmar jafnframt að við útreikning á styrkjum til atvinnurekenda væru mánuðir þar sem rekstur hafi verið þungur vegna COVID verið teknir með í reikninginn. Til dæmis mánuðir þar sem samkomutakmarkanir voru strangar. Réttar hefði verið að miða við mánuð þar sem takmarkanir voru vægari og reksturinn nær því að vera eðlilegur.

Nú verð ég aðeins að fá að komast að

Á meðan Sigmar talaði reyndi Bjarni ítrekað að komast að orði en Sigmar tók orðið til baka jafnóðum. Á endanum sagði Bjarni:

„Nei Simmi, nú verð ég aðeins að fá að komast að, þú ert aðeins að slíta hlutina úr samhengi. Þetta hangir allt saman og tekur hvað við af öðru þessi stuðningskerfi. Við höfðum greitt fyrir uppsagnarfrest fyrirtækja, við höfum tekið að okkur að sjá til þess að starfsmenn sem voru með yfirvofandi uppsagnir og fyrirtækin ólíkleg til að geta staðið við uppsagnarfrestinn.

Við tókum að okkur að hjálpa þeim fyrirtækjum að draga seglin saman þannig að hjartslátturinn héldi áfram, innviðirnir, lykilstarfsmenn væru til staðar og þetta myndi ekki setja þau beint í greiðsluþrot eða koma þeim í einhver meiriháttar vandræði. Þegar við höfum gert þetta getum við ekki líka horft upp á kröfur frá sömu fyrirtækjum um að eldri mánuðir verði stöðugt til viðmiðunar til allrar framtíðar. Við höfðum  hjálpað fyrirtækjunum og það kostaði ríkissjóð og skattgreiðendur gríðarlegar fjárhæðir að koma þessum fyrirtækjum í skjól.“

Einkaaðilar greiða fyrir sóttvarnaaðgerðir

Sigmar telur að með sóttvarnaaðgerðum hafi staðan orðið sú að einkaaðilar og einkafyrirtæki hafi verið nýtt til að kosta til framkvæmd sóttvarna. Bjarni benti þá á að faraldurinn og að glíma við hann hafi verið sameiginlegt verkefni allra í samfélaginu. Ekki bara hafi tekjuöflun fyrirtækja verið skert heldur einnig einstaklinga.

Telur Sigmar ljóst að ríkið hljóti að bera skaðabótaskyldu gegn fyrirtækjum sem hafi komið illa út úr COVID.

Bjarni segir að það verði líklega verkefni dómstóla í framtíðinni að skera úr um það. Ríkið hafi komið til móts fyrir fyrirtæki með ýmsum úrræðum og aðgerðum og fyrirtækjum beri einnig skylda til að takmarka tjón sitt. Það sem eftir standi sé svo dómstóla að kveða úr um hvort að hafi bakað ríkinu bótaskyldu. En Bjarni metur það svo að löggjafinn hafi mjög rúmt svigrúm til að grípa til aðgerða í aðstæðum á borð við COVID og hann segist ekki vera með hnút í maganum vegna mögulegrar bótaskyldu.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi vakið athygli út fyrir landsteinanna og Bjarni segir erlenda aðila sem hafa komið hingað til lands hafa hrósað þeim mikið. Bjarni sat svo nýlega fund með aðilum í veitingarekstri og þar hafi komið fram að sumarið hafi verið gott.

„Þá var gaman að heyra það að júlí mánuður hjá þeim bransa var einn besti sem þeir muna eftir,“ sagði Bjarni.

Verðhækkanir í kortunum

Bjarni telur bjartari tíma framundan. Nú sé atvinnulífið aftur að taka við sér og atvinnuleysi hafi minnkað. Í raun sé staðan mun betri en vonir stóðu ti. Sigmar er ekki sammála því.

„Það er því miður gríðarlegar hækkanir í kortunum og ég held að við séum í svikalogni núna,“ sagði Sigmar og benti á að líklega séu verulegar verðhækkanir i kortunum fyrir veturinn. Innflutningur sé dýrari og svo séu kjarasamningar íþyngjandi launagreiðendum og leiði til mikils launakostnaðar.“

Þrjár aðgerðir sem gagnast gætu aðilum í veitingarekstri

Héldu þeir áfram að þrasa um málin þar til Bjarni loks gafst upp, og sneri vörn í sókn. Spurði hann Sigmar bara hreint út nákvæmlega hvaða þrjár aðgerðir hann teldi að myndu koma aðilum í veitingarekstri í gegnum veturinn.

„Ég myndi byrja á  því að segja að fyrirtæki sem hafa ekki notið neinna styrkja, tökum mitt bara sem dæmi – ekki króna í opinbera styrki. Förum í gegnum kaldan og erfiðan vetur, haldið öllum í vinnu ekki sagt upp einasta starfsmanni vegna COVID. Í maí kemur nýtt úrræði þar sem þú getur ráðið fólk hjá Vinnumálastofnun með sex mánuði í laun „frítt“ frá ríkinu. Fyrirtæki með lokunarstyrki tóku úr lás, opnuðu fyrirtækin sín með starfsmenn sem þeir þurfti ekki að borga fyrir og okkur var gert að keppa við þá. Komnir út úr köldum vetri og við vorum að borga dráttarvexti til skattsins ef við leituðum til skattsins til að fá að dreifa opinberum gjöldum,“ svaraði Sigmar þá.

Bjarni ítrekaði spurningu sína.

Þá svaraði Sigmar því til að hann teldi rétt að fyrirtæki sem hafi ekki notið stuðnings frá ríkinu í COVID og hefði tekist að komast í gegnum þennan tíma án þess að segja upp starfsfólki ætti að fá hluta þeirra opinberu gjalda sem þau hafi greitt á þessum tíma til baka í formi vaxtalausra lána.

Ríkið ætti að koma að fyrra bragði til fyrirtækja og bjóða sóttvarnabætur, því einkaaðilar eigi ekki að bera kostnað af framkvæmd sóttvarna.

Svo þurfi að búa til eðlilega kjarasamninga fyrir þessa starfsgrein.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt

Guðjón Auðunsson: Verðið á íslensku fasteignafélögunum er allt of lágt
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Birgir í klemmu

Orðið á götunni: Birgir í klemmu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu

Jóhann Páll skrifar: Höggvum á skriffinnsku í heilbrigðiskerfinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“