fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Hannes og Sveinn í hatrömmum deilum – „Er frjálshyggjuprófessorinn á ríkisjötunni kannski ekki með neina kúrsa eða nemendur?“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Laugardaginn 6. mars 2021 14:10

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eitraðar skeytasendingar fljúga nú milli þeirra Sveins Andra Sveinssonar lögfræðings og Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar prófessors í stjórnmálafræði. Deilurnar spruttu upp úr ágreiningi um samskipti Áslaugar Örnu dómsmálaráðherra og Höllu Bergþóru Björnsdóttir, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, í tengslum við upplýsingagjöf í dagbók lögreglu um veru Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra í samkvæmi á Þorláksmessu sem lögregla hafði afskipti af vegna gruns um brot á sóttavarnareglum.

Ágreiningurinn hefur síðan snúist upp í fremur rætnar persónulegar deilur þar sem Hannes sakar Svein Andra um að standa sig slælega sem skiptastjóri gjaldþrotabúa og sinna skjólstæðingum sínum illa. Sveinn sakar Hannes á móti um að sinna starfi sínu sem prófessor í HÍ illa og gefur í skyn að engir nemendur vilji sækja námskeið hans. Hann sakar hann um að vera varðhundur Sjálfstæðisflokksins og hafi átt þátt í, sem hugmyndafræðingur flokksins, að fylgi hefur hrunið af flokknum.

Þess má geta að Sveinn Andri er fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins en hefur stutt Viðreisn undanfarin ár.

Hannes heldur samsviskusamlega utan um orðaskipti sín og Sveins Andra og birtir þau á Moggabloggssíðu sinni. Þau eru eftirfarandi í fyrri hluta deilnanna:

„Sveinn Andri Sveinsson lögmaður sendi mér kalda kveðju á Snjáldru um daginn:

Alþjóð veit að Hannes Hólmsteinn er í senn hugmyndafræðingur Sjálfstæðisflokksins og gjallarhorn flokksforystunnar. Þegar hann gjammar, er Sjálfstæðisflokkurinn að tjá sig. … Og ef það er einhver sem ekki er starfi sínu vaxinn er það háskólaprófessorinn sem virðist ekki hafa snefil af þekkingu um opinbera stjórnsýslu og málefni lögreglu.

Ég sagði þá:

Ég held þú ættir að eyða minni tíma hér á netinu og meira tíma til að sinna verkefnum þínum sem skiptaráðandi og umboðsmaður fólks, sem þarf á lögfræðiaðstoð að halda. Af fréttum að dæma mörg síðast liðin ár hefur þú því miður ekki gefið þér alveg nógu mikinn tíma í það.

Sveinn Andri sagði þá:

Ég held að þú ættir að eyða minni tíma hér á netinu og einbeita þér að því að sinna öllum nemendunum þínum sem flykkjast í alla kúrsana þína í HÍ sem við skattgreiðendur borgum þér fyrir að sinna. Eða hvað? Er frjálshyggjuprófessorinn á ríkisjötunni kannski ekki með neina kúrsa eða nemendur? Það er kannski skýringin á hvað þú hefur mikinn tíma til að vera á netinu?

Ég svaraði:

Þér til fróðleiks: Ég er nú ekki mikið á Netinu. Þú mátt ekki mæla þetta í tímanum, sem þú notar á Netinu. Ég þarf ekki eins mikinn tíma og þú: það er ekki eins langt í leiðslunum hjá mér og hjá þér, eins og skjólstæðingar þínir hafa því miður kynnst.

Sveinn Andri sagði:

þú ert miklu meira á Netinu en ég. Ég þarf líka að afla mér tekna sjálfur á hinum frjálsa markaði þar sem samkeppni ríkir. Það eru ekki allir jafn heppnir eins og þú að vera áskrifendur að launatékkum frá okkur skattgreiðendum fyrir að gera ekki rassgat.

Ég svaraði:

Annars get ég upplýst fyrir þá, sem áhuga hafa á, hvað ég sé að sýsla (þótt eflaust séu þeir ekki margir), að ég var í árslok 2020 að gefa út 884 bls. bók í tveimur bindum, sem er hægt að hlaða niður ókeypis af netinu: https://newdirection.online/…/twenty_four_conservative… https://newdirection.online/…/twenty_four_conservative… Og fyrir áhugamenn er mér ljúft að upplýsa, að ég skrifa tvisvar í viku í jafnaði fyrir tímaritið The Conservative: https://theconservative.online/columnist/hannes-gissurarson

Ég bætti við:

Annars ertu aðeins að reyna að leiða athyglina frá því, sem forystumaður Viðreisnar gerði og ég benti á: https://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/2210361/
Sveinn Andri sagði:

 

 Þú ættir að hafa alla athyglina á því hvernig harðlínuöflin undir þinni andlegu forystu hafa leitt til þess að fagnað er og skálað þegar Sjálfstæðisflokkurinn mælist yfir 20% í skoðanakönnunum.

 

 Ég svaraði:

Núna er ég áhrifalaus, eins og vinstri menn þreytast ekki á að benda á. Þegar ég hafði einhver áhrif í stjórnmálum, var Sjálfstæðisflokkurinn með 35–40% atkvæða og alltaf í stjórn, samfellt í 17 ár. Þú ert sennilega enn lakari í að kenna fólki stjórnmálasögu en í því að gæta hagsmuna skjólstæðinga þinna. — Það er hins vegar athyglisvert og segir sína sögu, að þú skulir ekki treysta þér til að verja forystumann flokks þíns.

 

 Sveinn Andri sagði:

ef ég færi að kenna stjórnmálasögu fengi ég kannski einhverja nemendur – öfugt við þig. — það þarf nú ekki mikið að verja formann Viðreisnar. Þorgerður Katrín stendur sig vel. Það er merkileg vörnin sem þú tekur upp fyrir þinn formann – varnartaktíkin virðist ganga út á það að ræða ekkert um háttsemi formannsins; frekar verði að hengja sendiboðann sem vakti athygli á því að ráðherra hefði verið á vettvangi þar sem sóttvarnareglur voru brotnar.

 

 Ég svaraði:

Ég hef ekki undan neinu að kvarta hjá forsvarsmönnum Háskólans (rektor og sviðsforseta), framkoma þeirra hefur verið óaðfinnanleg, en það er meira en skjólstæðingar þínir geta sagt um þig.

 

 Sveinn Andri sagði:

mínir kúnnar eru hæstánægðir. Afkoma er bezti mælikvarðinn á ánægju viðskiptavina. Þannig eru nú fræðin. Þetta hefur þú aldrei reynt á eigin skinni enda lengst af verið í öruggu skjóli skattgreiðenda. Hvað eru margir nemendur að skrá sig á kúrsa hjá þér?

 

 Ég svaraði:

Þú afsannar það á hverjum degi hér á Snjáldru, að þér gangi vel í lífinu. Þá værir þú ekki í þeirri allsherjarfýlu út í lífið, sem raun ber vitni. Þú hefur skipað þér í raðir nöldurseggjanna, kverúlantanna, sem tala vel um öll lönd nema sitt eigið og kvarta öllum stundum undan því, sem lítið er og bliknar í samanburði við alla þá erfiðleika, sem sjá má annars staðar. Þú ert eins orðljótur um þína gömlu félaga í Sjálfstæðisflokknum og þú ert blíðmáll við dómarana, sem skammta lögmönnum verkefni.

 

 Sveinn Andri sagði:

þú verður að fyrirgefa síðbúið svar. Vinnan hefur forgang fram yfir að svara þér. Að vinna fyrir sér er auðvitað ekki konsept sem þú þekkir nema kannski af afspurn og Guði sé lof að þú kennir hvorki markaðs- né rekstrarfræði. En svona til að upplýsa þig þá ganga viðskipti vel þegar veltan er góð og hún skilar hagnaði. En auðvitað skilur þú þetta ekki, maðurinn sem er búinn að vera áratugum saman á spena hjá skattgreiðendum. Og varðandi lífið þá vona ég að ég endi ekki eins og þú; gamall og frústreraður bitur kall. Þú hefur masterað tvennt í gegnum tíðina og ert betri í því en flestir aðrir, en það er að koma þér í mjúkinn hjá peningaöflunum og að komast að ríkisspenann og hins vegar stendur þér enginn framar í geðillskulegum athugasemdum um samborgarana og dylgjum, þar sem sannleikurinn er fullkomið aukaatriði. Enginn er síðan orðljótari en þú um aðra; fáránlegar athugasemdir þínar um lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu eru glöggt dæmi um það. En segðu mér hvað ertu að kenna marga kúrsa í Háskóla Íslands, hvar þú ert prófessor og hvað eru nemendur þínir margir? Og hvernig er tilfinningin fyrir jafn gallharðan frjálshyggjumann eins og þig að vera á framfæri skattgreiðenda?

 

 Ég svaraði:

Ég ætla ekki að fara í keppni við þig um það, hvor okkar sé geðverri eða orðljótari, því að þá keppni get ég ekki unnið.“

„Sveinn Andri Sveinsson réðst um daginn á mig af offorsi“

Hannes deilir síðan Moggabloggsfærslunni á Facebook-síðu sinni með orðunum: „Sveinn Andri Sveinsson réðst um daginn á mig af offorsi. Ég er auðvitað seinþreyttur til vandræða, en hlaut þó að svara fyrir mig.“

Deilurnar halda þar áfram, án þess að miklar breytingar verði á innihaldi þeirra, en fleiri blanda sér í málið og leggja orð í belg. Sveinn Andri segir:

„Þú ert nú reyndar meistari í því að rægja skóinn af öðrum en vælir eins og hæna þegar þér er svarað fullum hálsi.
En af hverju svarar þú aldrei spurningum mínum æviráðni prófessor sem enginn óskaði eftir?
1. Hvað ertu að kenna marga kúrsa í HÍ og hversu margir eru nemendurnir?
2. Hvernig er tilfinningin fyrir frjálshyggjumanninn að væra á framfæri skattgreiðenda?“
Hannes segir:
„Ég man eftir Sveini Andra, þegar hann var ungur og sprækur sjálfstæðismaður. Nú er hann orðinn gamall og skrækur viðbrennslumaður.“

https://www.facebook.com/hannes.h.gissurarson/posts/10158739269957420

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 5 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega