fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Sigmundur kennir ESB um að Pfizer hætti við rannsóknina

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 10. febrúar 2021 14:23

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir að viðræður eins og þær sem áttu sér stað á milli Pfizer og íslenskra fulltrúa (Þórólfs Guðnasonar og Kára Stefánssonar) snúist ekki síður um pólitík en vísindi. Telur hann að skuldbindingar Íslands gagnvart ESB hvað varðar bóluefnakaup hafi ráðið mestu um niðurstöðuna. Sigmundur birti pistil um málið á Facebook-síðu sinni í gærkvöld. Þar segir:

„Það eru mikil vonbrigði ef ekkert verður af samningi við Pfizer. En eins og ítrekað hefur komið í ljós snúast slíkar viðræður ekki síður um pólitík en vísindi. Miðað við það sem heyrst hefur um tregðuna til að semja við Íslendinga „fram fyrir röðina í Evrópu“ virðast skuldbindingar okkar gagnvart ESB ráða miklu um niðurstöðuna. Fyrirtækið taldi sig þurfa sterk rök fyrir því að semja sérstaklega við Ísland fram hjá þeim samningi. Eða e.t.v. bara einhver rök fyrir því að þurfa ekki að gera það. Enda hefur fyrirtækið verið í hörðum deilum við ESB og sætt hótunum af hálfu sambandsins eftir að í ljós kom að það hefði klúðrað samningum sínum við lyfjaframleiðandann.“

Sigmundur gefur lítið fyrir þau rök að fá Covid-smit hér á landi hafi gert rannsóknina ófýsilega:

„Hvað varðar rannsóknina er það á margan hátt kostur frekar en galli að lágt hlutfall þjóðarinnar hafi smitast og þar með myndað mótefni (þar sem er minna um náttúrulegt bóluefni fæst væntanlega skýrari mynd af áhrifum framleidda bóluefnisins). Það væri hægt að bólusetja alla þjóðina á skömmum tíma, opna landið og hefja eðlilegt líf. Slíkt raundæmi myndi draga úr óvissu og verða mikill hvati fyrir heimsbyggðina. Ef mörg smit í fámennu landi væru forsenda rannsóknar ættu stjórnvöld í San Marínó að hringja í Pfizer strax í fyrramálið.“

Þess má geta að Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, og annar helsti fulltrúi Íslands í viðræðunum við Pfizer, lýsti því margsinnis yfir í fjölmiðlum í gær að meginástæðan fyrir því að ekki verður af samstarfinu við Pfizer sé sú að það séu of fá smit hér á landi til að rannsóknin gæti aflað nýrrar þekkingar sem gagnist við bólusetningar annars staðar í heiminum.

Sigmundur hvetur stjórnvöld til að leita að samninga við aðra bóluefnaframleiðendur framhjá samflotinu við ESB um bóluefnakaup. Þá andmælir hann athugasemdum þess efnis að það sé siðferðislega rangt að bólusetja hraðar í einu landi en öðru:

„Slíkir samningar nást hins vegar ekki nema með beinni aðkomu stjórnvalda (sem eru frjáls að því að semja) eins og raunin var í Ísrael (sem nú er búið að bólusetja 65% þjóðarinnar). Nú ættu stjórnvöld að leita samninga við aðra framleiðendur góðra bóluefna og helst fleiri en einn samtímis. Að sjálfsögðu á þeim forsendum að þau reynist örugg og virk, rétt eins og Bretar gerðu. Líklega væri ráð að líta til bóluefna sem falla ekki undir skuldbindinguna gagnvart ESB (þótt ESB ríki á borð við Þýskaland hafi gefist upp á að fylgja þeirri skuldbindingu og leiti nú samninga á eigin vegum).

Hvað varðar athugasemdir um að það sé á einhvern hátt siðferðislega rangt að bólusetja hraðar í einu landi en öðru má benda á að þróunarlönd hafa gríðarlega hagsmuni af því að hagkerfi Vesturlanda komist aftur af stað. Hröð bólusetning á Vesturlöndum, þar sem hlutfall eldriborgara er hæst, myndi bjarga flestum lífum og gera löndunum kleift að aðstoða önnur lönd. Bretar sem sömdu við Pfizer þremur mánuðum á undan ESB hafa t.d. heitið meiri stuðningi við þróunarlöndin en ESB samanlagt. Líklega er svo langt liðið síðan menn ferðuðust með flugvél að þeir hafa gleymt reglunni „setjið súrefnisgrímuna fyrst á ykkur áður en þið aðstoðið aðra”.

https://www.facebook.com/sigmundurdavidgunnlaugsson/posts/1795057313990643

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?

Orðið á götunni: Er Gallup vanhæft í aðdraganda forsetakosninganna?
Eyjan
Fyrir 1 viku

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn

Maskína: Alvarleg staða hjá 70 prósent þjóðarinnar – verðbólga og vextir vandinn