fbpx
Fimmtudagur 01.október 2020
Eyjan

„Lágmarkskrafa að haga sér ekki með siðlausum hætti“ – Ríkistjórnin þurfi að fara á svig við lög til að bjarga Icelandair

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 4. september 2020 16:05

Mynd: Fréttablaðið/Anton

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Píratar segjast ætla að greiða atkvæði gegn því að ríkið veiti Icelandair ríkisábyrgð upp á marga milljarða króna. Þetta kemur fram í pistli sem þingmenn flokksins birta á Vísi í dag. Í pistlinum ræða þau ástæðurnar fyrir þeirra ákvörðun sinni.

„Þingflokkur Pírata greiðir í dag atkvæði gegn því að veita Icelandair Group ríkisábyrgð upp á 15 milljarða króna. Upplýst ákvarðanataka er leiðarstef í grunnstefnu Pírata og þetta er ekki léttvæg ákvörðun, enda er Icelandair félag með langa sögu, hefur verið stór vinnuveitandi og mikilvægur hlekkur í samgöngum þjóðarinnar. Það breytir því ekki að forsendurnar fyrir svo kostnaðarsamri ákvörðun verða að vera að tryggja flugsamgöngur, fara vel með almannafé, draga úr tapi lífeyrissjóðanna og vernda starfsfólk. Það er því að vel ígrunduðu máli sem við leggjumst gegn 15 milljarða ríkistryggðri lánalínu til Icelandair.“

Þingflokkur Pírata minnist einnig á framgöngu stjórnenda félagsins í samningaviðræðum við flugfreyjur. Þeir segja það lágmarkskröfu að ríkið ætlist til þess að fyrirtæki hagi sér ekki með „siðlausum“ hætti áður en milljarðar eru lagðir til þess. Þá spyrja þau sig einnig út í fordæmið sem ríkið væri að senda með þeirri ákvörðun.

„Framganga stjórnenda Icelandair í samningaviðræðum við flugfreyjur tók af allan vafa um afstöðu þeirra til réttinda launafólks. Fulltrúar félagsins unnu linnulaust að því að lækka laun flugfreyja og grafa undan réttindum sem tekið hafði áratugi að byggja upp. Þegar flugfreyjur létu ekki bjóða sér það ákváðu stjórnendur Icelandair að segja þeim öllum upp – í miðri kjaradeilu. Ákvörðun sem var svo svívirðileg að ASÍ, heildarsamtök launafólks, hefur nú dregið Icelandair fyrir Félagsdóm. Ætli ríkið sér á annað borð að leggja einu fyrirtæki til 15 milljarða króna þá er lágmarkskrafa að þiggjendurnir hagi sér ekki með svo siðlausum hætti gagnvart eigin starfsfólki. Útrétt hjálparhönd ríkisins til fyrirtækis sem hagar sér þannig væri sem löðrungur í andlit launafólks. Það verður ekki litið framhjá því að hjá Icelandair störfuðu þúsundir sem gætu horft fram á atvinnumissi ef félagið fer í þrot. Enginn vill að það gerist. En það er heldur engum í hag að ríkið haldi í öndunarvél einkafyrirtæki á markaði sem ræður hvorki við samkeppni né að tryggja réttindi starfsfólksins síns. Miklu frekar ætti að styrkja atvinnugreinina til að skapa ný tækifæri og ný störf svo að mannauður Icelandair nýtist, samfélaginu til hagsbóta.

Hvaða skilaboð sendum við með því að leggja þessu einkafyrirtæki til 15 milljarða króna í kjölfar alls þess sem á undan er gengið? Innspýting almannafjár til Icelandair hefur verið viðvarandi undanfarna áratugi og nú síðast nam hún milljörðum króna í formi “almennra aðgerða”. Í hruninu var mörkuð sú stefna að nota ekki almannafé til að bjarga fallandi stórfyrirtækjum, en að ríkið þyrfti að tryggja áfram samfélagslega mikilvæga grunnþjónustu. Sú ákvörðun reyndist farsæl. Sé það hins vegar staðfastur vilji þingheims að víkja frá þessu leiðarstefi þá væri eðlilegra og réttlátara að fyrir 15 milljarða króna framlag ríkisins kæmi eignarhlutur í félaginu. Hlutabréf Icelandair eru 5 milljarða króna virði í dag og ef hlutafjárútboðið tekst ekki þá getur ríkið keypt þau á enn lægra verði. Ef eitthvað er „of stórt til að falla“ þá er það „of stórt til að ríkið hafi ekki hönd í bagga.“

Þá fullyrða Píratar að það þurfi að far á svig við lög til að takast ætlunarverk sitt, þar sem að mörgum spurningum sé ósvarað.

„Til að ríkisstjórninni takist ætlunarverk sitt þarf hún að fara á svig við lög. Íslendingar hafa sett sér lög um ríkisábyrgð sem krefjast vandaðrar málsmeðferðar og áður en ríkisábyrgð er veitt þarf t.a.m. að eiga sér stað vönduð greining á samkeppni, áhættu, tryggingum o.s.frv. Þannig er betur hægt að rökræða kosti og galla þess að veita ríkisábyrgð til ákveðins fyrirtækis. Ríkisstjórnin fullyrðir hins vegar að lög um ríkisábyrgð geti ekki átt við um ríkisábyrgðina á lánalínu Icelandair og forðast þannig nauðsynlegar rökræður. Mörgum spurningum um milljarðana 15 verður því ósvarað áður en stjórnarþingmenn undirrita tékkann til Icelandair í dag.“

Að lokum segja þingflokksmeðlimir Pírata að umrædd ríkisábyrgðarleið sameini það versta úr báðum vængjum stjórnmálanna. „Einkavæðingu gróðans og ríkisvæðingu tapsins“ Þau segja að almannafé sé ekki sjóður fyrir fyrir svelti og okurstefnu fyrirtækja.

„Almannafé er ekki varasjóður fyrir fyrirtæki sem fer illa með eigin mannauð. Almannafé er ekki varasjóður fyrir fyrirtæki sem ætlar sér að treysta á einokunarstöðu og gefa hinu opinbera ástæðu til að leggja stein í götu keppinauta. Almannafé á ekki að stuðla að sveltistefnu fyrir starfsfólk og okurstefnu fyrir neytendur.

Ríkisstjórnin hefur stært sig af því að spanna hið pólitíska litróf. Bjóða upp á það besta frá vinstri og hægri væng stjórnmálanna. Ríkisábyrgðarleið ríkisstjórnarinnar sameinar hins vegar það versta af báðum vængjum stjórnmálanna: Einkavæðingu gróðans og ríkisvæðingu tapsins.

Við í þingflokki Pírata höfum mælt fyrir öðrum, réttlátari leiðum út úr þessum ógöngum og munum áfram gera það á Alþingi í dag. Við gerum það í þeirri von að snúa ríkisstjórninni af þessari leið þar sem hún virðist ætla að leggja allt sitt undir til að tóra fram yfir kosningar. Þau veðja milljörðum úr lífeyrissjóðum landsmanna, milljörðum úr bönkum landsmanna og milljörðum til viðbótar úr ríkissjóði landsmanna. Milljarðaveðmál byggt á skýjaborgum flugfélags sem býst hvorki við mótvindi né samkeppni.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Viðreisn: „Meinsemd íslenskra stjórnmála er kjarkleysi „

Viðreisn: „Meinsemd íslenskra stjórnmála er kjarkleysi „
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Þorgerður Katrín endurkjörin

Þorgerður Katrín endurkjörin