fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

„Með sömu rökum værum við ekki fullvalda ríki“ segir Björn Leví við Veroniku, formann Heimdallar

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 17. september 2020 19:20

Björn Leví Gunnarsson. Mynd: Eyþór Árnason

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Veronika Steinunn Magnúsdóttir, formaður Heimdallar félags ungra sjálfstæðismanna í Reykjavík, skrifaði pistil sem birtist á Vísi í dag. Þar ræddi hún um Nýju stjórnarskránna sem hefur verið mikið í umræðunni undanfarið. Veronika segir það í fínu lagi að fólk velti stjórnarskránni fyrir sér, enda sé margt í henni sem megi uppfæra. Hún segir þó að margir hafi ekki byggt málflutning sinn á fölskum staðreyndum.

„Undanfarið hefur borið á umræðu um nýja stjórnarskrá, eða öllu heldur tiltekna stjórnarskrá, sem margir berjast nú fyrir að taki gildi. Það er í fínu lagi að ræða um breytingar á stjórnarskránni enda er margt í henni sem mætti uppfæra.

Það er hins vegar nauðsynlegt að við höldum staðreyndum á lofti og byggjum ekki málflutning á staðhæfingum sem eru einfaldlega rangar.“

Þá fjallar hún um þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 þar sem að meirihluti kaus með nýrri stjórnarskrá. Veronika gefur lítið fyrir þær kosningar þar sem að kjörsókn hafi verið 48,9%.

„Hin ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla árið 2012 telst ekki með. Það að 66,9% þeirra sem kusu hafi samþykkt að hin nýja stjórnarskrá yrði lögð til grundvallar breytinga á stjórnarskrá, telst ekki með. Þessar tillögur voru í raun samþykktar af 31% kosningabærra manna. Það getur varla rímað við þær yfirlýsingar sem heyrst hafa víða, um að þjóðin hafi lagt blessun sína yfir plaggið.

Kjörsóknin var einungis 48,9% en til samanburðar er kjörsókn í Alþingiskosningum almennt á bilinu 80 til 90% – munurinn er þónokkur, svo ekki meira sé sagt.

Svör við þessum dræmu undirtektum við þessa tilteknu stjórnarskrá eru bágborin og meintu tómlæti kjósenda, að hafa ekki mætt á kjörstað, kennt um. Að mínum dómi eru það ekki nógu sterk rök til þess að hrófla við grundvallarlögum okkar réttarkerfis.“

Í pistli sínum fjallar Veronika einnig sérstaklega um 79. grein núverandi stjórnarskrár, sem varðar einmitt breytingar á sjálfri stjórnarskránni.

„Hvers vegna er 79. greinin mikilvæg? Vegna þess að hún tryggir aðkomu þjóðarinnar að stjórnarskrárbreytingum á traustan hátt, enda sprettur valdið upp hjá þjóðinni sjálfri.“

Pistill Veroniku vakti mikla athygli, en fjöldi fólks lét orð falla í ummælakerfinu á Vísi. Einn þeirra sem tjáði skoðun sína var Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann gagnrýndi orð Veroniku um þjóðaratkvæðagreiðsluna 2012 og bent á að árið 1918 hefðu einungis 44% mætt á kjörstað og kosið um fullveldi íslands.

„Með sömu rökum værum við ekki fullvalda ríki, því þó nær allir hafi kosið já með spurningunni um fullveldi Íslands árið 1918 þá var kjörsókn þá mjög lág eða 44%.

Niðurstaða fæst frá þeim sem taka þátt í kosningum ef kosningarnar geta talist almennar (að allir hafi haft aðgang að þeim). Þau sem kjósa að mæta ekki gefa frá sér ákvörðunarvaldið til þeirra sem mæta.“

Veronika svaraði Birni og sagði að sem betur fer væri árið ekki 1918. Þá sakaði hún einnig Björn um að draga mikilvægi 79. greinarinnar í efa.

„Blessunarlega er nú árið 2020 en ekki 1918, enda höfðum við þá ekki lýðveldisstjórnarskrána, sem tók gildi árið 1944 og hefur verið breytt átta sinnum síðan þá, alltaf skv. 79 gr. Það er sérstakt að kjörinn fulltrúi dragi gildi 79.gr. í efa.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt