fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Eyjan

Kolbrún segir að Dóra hati Eyþór – „Maður gapti bara og henni var leyft að bulla áfram“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 16. september 2020 11:45

Samsett mynd DV. Dóra Björt Guðjónsdóttir (t.v.) og Kolbrún Baldursdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Enginn borgarfulltrúi hefur gengið eins langt í að ráðast á annan borgarfulltrúa með persónulegu skítkasti og dylgjum. Persónulegir hlutir eins og eignir, skuldir, persónuleg tengsl manneskju eiga ekki heima á vettvangi borgarstjórnar. Þar eigum við að fjalla um málefni borgarinnar og reyna að vinna að bættum hag borgarbúa. Borgarfulltrúinn Dóra Björt Guðjónsdóttir hatar þennan borgarfulltrúa svo mikið að hún ræður ekki við sig og mér finnst hún misnota þennan vettvang með því að reiða til höggs, þetta heitir að misnota aðstöðu sína til að fá útrás fyrir persónulega heift. Stórskrýtið að sjá þetta hjá fullorðinni manneskju sem er auk þess opinber persóna,“ segir Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, í samtali við DV, en á fundi borgarstjórnar í gærkvöld gagnrýndi hún harðlega framgöngu Dóru Bjartar Guðjónsdóttur, borgarfulltrúa Pírata, á sama fundi.

Umræðurnar áttu sér stað undir dagskrárliðnum Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um hagkvæmt húsnæði fyrir almennan markað. Þar fjallaði Dóra Björt Guðjónsdóttir um fjárhagsleg tengsl Eyþórs Arnalds, oddvita Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, við Samherja en hann keypti hlut félagsins í Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins. Kristján Vilhelmsson, annar stærsti eigandi Samherja, er í gegnum eignarhluti sína í fasteignafélögum stærsti eigandi fasteigna sem verða í nýjum miðbæ Selfoss sem er í skipulagningu, samkvæmt frétt Stundarinnar þann 22. ágúst.

Eyþór Arnalds var áður oddviti Sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Árborgar en þegar nýtt miðbæjarskipulag var samþykkt árið 2018, að undangenginni íbúakosningu, var hann hættur og orðinn oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík. „Eyþór Laxdal Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borginni, áður oddviti flokksins á Selfossi, virðist hafa fengið fleiri hundruð milljóna að gjöf frá Samherja, í gegnum fyrirtæki sem notað hefur verið sem mútufélag. Ég hef ítrekað spurt um ástæður þess án fullnægjandi svara,“ sagði Dóra Björt á borgarstjórnarfundinum í gær (sjá vef Fréttablaðsins).

„Nú hefur komið í ljós að Samherji stendur að baki uppbyggingu á miðbænum á Selfossi, sem Eyþór Arnalds hefur um árabil verið dyggur talsmaður fyrir, sem hann hampaði á fundinum nú rétt í þessu. Þarna getur verið komin ein ástæða þess að Samherji gaf Eyþóri Arnalds borgarfulltrúa svo stóra gjöf, sem hlutur hans í Morgunblaðinu er,“ sagði Dóra Björt enn fremur.

Eyþór sagði ummæli Dóru vera haldlausa samsæriskenningu en hún telur hann aldrei hafa svarað efnislega spurningum hennar um tengsl við Samherja.

Bæði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, og Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, gagnrýna þessa framgöngu Dóru Bjartar. Kolbrún telur umræðuna engan veginn eiga heima á fundi borgarstjórnar undir þessum efnislið. Kolbrún segir í samtali við DV að það hafi verið súrralískt að upplifa hvernig Dóra Björt tengdi umræðuna um hagkvæmt húsnæði fyrir almenning við fjármál Eyþórs Arnalds.

„Maður gapti bara og henni var leyft að bulla áfram. Ég var kominn með kjálkann niður í bringu. Þetta varðar ekki Eyþór, sama hver í hlut hefði átt þá var þetta ólíðandi, ótaktískt og á kolröngum stað,“ segir Kolbrún.

Hún segir jafnframt að framganga Dóru Bjartar hafi verið barnaleg. „Það hefðu nú aldeilis orðið læti ef eitthvert okkar í minnihlutanum hefðum hagað okkur svona, en það er ekki sama Jón eða séra Jón,“ segir Kolbrún.

Segir Eyþór hafa þegið hundruð milljóna frá Samherja

„Það er alvarlegt mál ef hægt er að kaupa stjórnmálamann,“ sagði Dóra Björt Guðjónsdóttir í viðtali við Bylgjuna í morgun. Hún segir að Eyþór hafi keypt hlut Samherja í Morgunblaðinu án þess að greiða fyrir hann.

„Núna hafa komið fram nýjar upplýsingar um uppbyggingu Samherja á Selfossi í miðbænum og ég hef ítrekað spurt Eyþór út í það hvers vegna hann fékk mörg hundruð milljónir frá Samherja þegar hann fékk gefins hlut í Morgunblaðinu og hann hefur aldrei svarað almennilega fyrir það. Hann fer alltaf að snúa út úr og drepa málum á dreif. Hann segir að hlutur hans í Morgunblaðinu sé alls staðar skráður en það er ekki það sem ég hef spurt um heldur hef ég spurt um peningana fyrir kaupum á hlutnum sem hann fékk gefins frá félagi sem hefur verið notað til að múta stjórnmálafólki,“ sagði Dóra Björt við Bylgjuna, og vísar hún þar til rannsóknar á Samherja vegna ásakana um mútur til áhrifamanna í Namibíu í skiptum fyrir makrílkvóta. Þáttarstjórnendur bentu á að ekkert væri sannað um sekt Samherja í því máli.

„Í þessu máli er Eyþór aftur að drepa málum á dreif með því að segja að hann hafi ekki verið í sveitarstjórn þegar endanleg ákvörðun var tekin í íbúakosningu, eins og það sé einhver frétt,“ sagði Dóra Björt. Þáttarstjórnendur á Bylgjunni spurðu Dóru Björt hvort hún héldi því fram að Eyþór hafi fengið peninga frá Samherja svo hann liðkaði fyrir uppbyggingu Samherja í miðbæ Selfoss. „Eyþór hefur ekki sýnt fram á neitt sem sannar að það sé ómálefnalegt að líta svo á að hægt sé að kaupa hann. Það er búið að sýna fram á að Eyþór var í bæjarstjórn þegar Samherji var að kaupa upp lóðir og eignir.“ Dóra Björt benti á að Eyþór hafi á sínum tíma barist fyrir nýjum miðbæ á Selfossi og hafi talað upp áræðni einkaðila sem væru að kaupa eignir og lóðir á svæðinu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega