fbpx
Mánudagur 28.september 2020
Eyjan

Píratar vilja í ríkisstjórn og kanónur horfa til framboðs fyrir Viðreisn

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 9. ágúst 2020 18:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hér í fjórða og síðasta pistlinum um stöðu flokkanna er fjallað um Flokk fólksins, Pírata og Viðreisn. Píratar vilja komast í ríkisstjórn að loknum kosningum og kanónur eru orðaðar við framboð hjá Viðreisn.

Hér í þessum þáttum hefur undanfarnar vikur verið fjallað um stjórnmálaflokkana, framboðsmál þeirra, fylgisþróun og fleira. Í liðinni viku var rætt um Samfylkinguna og Vinstri græn, en fyrrnefndi flokkurinn hefur gengið í gegnum feiknamiklar fylgissveiflur á fáum árum — farið úr um 30% fylgi og næstum niður fyrir 5% lágmarkið 2016. Það var þá sem Steingrímur J. Sigfússon kom að máli við Loga Einarsson og spurði hreint út hvort ekki væri tímabært að Samfylkingin gengi til liðs við VG…

…Síðan þá hefur Loga tekist að efla samstöðu í flokki sem var illa þjakaður af innanmeinum. Raunar hefur svo vel til tekist að Samfylkingin hefur stundum mælst með yfir 19% fylgi á kjörtímabilinu og fest sig í sessi sem næststærsti flokkurinn.

Þessi litla saga er ágæt áminning um hverfulleikann í stjórnmálunum: Flokkshollusta er lítil, fylgið á hreyfingu sem aldrei fyrr og það dreifist miklu meira en áður. Allar þessar breytingar virðast ætla að verða til langframa.

Hulduher Ingu Sæland

Minnsti þingflokkurinn telur nú aðeins tvo menn — þau Ingu Sæland og Guðmund Inga Kristinsson — eftir að hinir þingmennirnir tveir voru reknir úr flokknum í kjölfar hins margumtalaða Klaustursmáls. (Samt sem áður hafa þau Inga og Guðmundur Ingi á að skipa þremur aðstoðarmönnum á kostnað skattgreiðenda).

Flokkur fólksins mælist sjaldan með menn inni í könnunum og hefur því mikið til verið skilinn út undan þegar kemur að umfjöllun um stöðu flokkanna undanfarin misseri. En ekki má vanmeta mátt Ingu Sæland. Í síðustu könnunum fyrir alþingiskosningarnar 2017 — og borgarstjórnarkosningarnar árið eftir — mældist Flokkur fólksins ekki með mann inni, en hulduher Ingu skilaði sér engu að síður á kjörstað.

Við blasir erfitt efnahagsástand og staða ríkissjóðs hefur hríðversnað. Þeir sem höllum fæti standa í þjóðfélaginu munu finna fyrir þeim hremmingum. Takist Ingu að verða trúverðugur málsvari þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu má allt eins búast við að hún nái aftur inn á þing og taki nokkra með sér, en heimildir herma að Flokkur fólksins ætli að bjóða fram í öllum kjördæmum fyrir næstu kosningar. Þá hefur ríkisstyrknum undanfarin ár verið safnað saman í dágóðan kosningasjóð.

Nafntogaðir þingmenn

Fáir flokkar bjuggu við jafnmikið heimilisböl og Píratar allt þar til Birgitta Jónsdóttir afréð að gefa ekki kost á sér fyrir síðustu kosningar. Flokkurinn fékk sex menn kjörna í síðustu alþingiskosningum og heimildarmenn í þingflokknum herma að ekki gangi hnífurinn á milli þeirra. Núverandi þingmenn eru Björn Leví Gunnarsson, Halldóra Mogensen, Helgi Hrafn Gunnarsson og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, öll fyrir Reykjavíkurkjördæmin. Jón Þór Ólafsson er þingmaður þeirra í Kraganum og Smári McCarthy í Suðurkjördæmi. Hvert og eitt þeirra er þjóðþekkt, sem má teljast vel af sér vikið á tímum þegar stór hluti þingmanna er lítt kunnur almenningi og lítið sjáanlegur.

Þingmenn Pírata eru allir orðnir þjóðþekktir og geta gert sér vonir um endurkjör. MYND/AÐSEND

Hafna Sjálfstæðisflokki

Píratar hafa ekki haft á að skipa eiginlegum formanni en í grasrót flokksins eru umræður um að breyta skipulagsreglum þannig að kjörinn verði formaður. Nokkurt lífsmark er með flokksfélögum þeirra — sem er meira en sagt verður um flesta aðra flokka á þingi. Og þrátt fyrir að vera einkum þétttbýlisflokkur, telja þeir sig eiga góða möguleika á að fá menn kjörna í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum, sér í lagi því fyrrnefnda, þar sem starfandi er kjördæmafélag flokksins.

Prófkjör Pírata eru opin og rafræn en telja má líklegt að flestir núverandi þingmanna geti tryggt sér öruggt sæti — enda almenn ánægja með þingflokkinn meðal flokksfólks sem rætt var við.

Heimildarmenn innan þingflokksins segja flokkinn stefna ótrauðan á stjórnarþátttöku og líklega er flokkurinn orðinn vænlegri kostur til samstarfs nú þegar einingin er orðin meiri. Aftur á móti hræðast aðrir flokkar skipulag Pírata, þar sem flokksmenn hafa meiri völd en gengur og gerist. Telja hættu á að flokkurinn hlaupist undan merkjum — jafnvel af litlu tilefni.

Píratar hafna stjórnarsamstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og telja sig málefnalega ekki heldur geta unnið með Miðflokki. Þeirra einasti samstarfskostur er þá vinstristjórn, en þeir munu einnig leggja áherslu á stjórnarskrá stjórnlagaráðs, komi til stjórnarmyndunarviðræðna. Lítill hljómgrunnur er fyrir henni meðal flestra annarra flokka. En svo kann auðvitað að fara að mikið verði gefið eftir — eygi þingmenn flokksins von um ráðherrastól.

Dr. Daði

Viðreisn bauð fyrst fram í kosningunum 2016, hlaut þá nærri 11% atkvæða á landsvísu og fékk sjö menn kjörna. Í kjölfarið komst flokkurinn í ríkisstjórn sem lifði í aðeins 247 daga og varð þannig skammlífasta samsteypustjórn Íslandssögunnar. Í kosningunum 2017 tapaði flokkurinn þremur þingmönnum og hlaut ekki nema 6,7% atkvæða, en eins og sjá má af meðfylgjandi línuriti hafa vinsældir flokksins hægt og bítandi þokast upp á við á kjörtímabilinu.

Daði Már Kristófersson gefur kost á sér í embætti varaformanns Viðreisnar. MYND/ANTON BRINK

Skarð var hoggið í raðir hins litla þingflokks þegar Þorsteinn Víglundsson, varaformaður flokksins, sagði af sér þingmennsku fyrr á þessu ári. Arftaki hans er þó þegar í augsýn, en á þjóðhátíðardaginn var greint frá því í fréttum að dr. Daði Már Kristófersson hagfræðiprófessor hygðist gefa kost á sér til varaformanns á landsþingi flokksins sem haldið verður nú í haust. Daði Már stefnir ótrauður að forystusæti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Það mun óneitanlega verða flokknum styrkur að hafa innanborðs mann með djúpa þekkingu á efnahagsmálum þegar við blasir kreppa og ljóst að efnahagsmálin verða mál málanna.

Þingflokkur Viðreisnar telur nú aðeins fjóra menn, en getur gert sér vonir um að ná fyrri þingstyrk — og jafnvel gott betur. MYND/AÐSEND

Endurkoma Benedikts?

Hanna Katrín Friðriksson er þingmaður flokksins í Reykjavík suður og nær öruggt að hún mun áfram vera oddviti í öðru hvoru Reykjavíkurkjördæmanna. Ekki er heldur gert ráð fyrir öðru en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, verði áfram í oddvitasætinu í Kraganum. Hún tók með sér annan þingmann í síðustu kosningum, Jón Steindór Valdimarsson, sem þykir ekki hafa sýnt mikil tilþrif í þingsal en samt sem áður þótt duglegur í nefndastörfum og vinnu á bak við tjöldin — störfum sem ekki eru alltaf þakklát. Sú hugmynd hefur komið upp innan Viðreisnar að Jón Steindór fari fram fyrir flokkinn í Norðurausturkjördæmi. Sjálfur er hann Akureyringur að uppruna og stúdent frá MA. Flokkurinn fékk aðeins 2,5% atkvæða í kjördæminu í síðustu kosningum, en þáverandi formaður Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, náði inn á þing fyrir kjördæmið árinu áður — sem þótti vel af sér vikið.

Heimildir herma að Benedikt vilji komast inn á þing á nýjan leik. Hann situr í stjórn og framkvæmdastjórn flokksins og hefur tekið virkan þátt í þjóðmálaumræðunni með pistlaskrifum. Hann mun þó ekki sækjast eftir oddvitasæti — en þó sæti nógu ofarlega á lista til að eiga möguleika á að ná inn. Benedikt nýtur virðingar meðal viðreisnarfólks og átti ekki minnstan þátt í að koma flokknum á laggirnar.

Flokkur atvinnulífsins?

Viðreisn notast ekki við prófkjör við val á framboðslista og fyrir vikið eru fleiri tilbúnir að gefa kost á sér en ella, en marga sem sækjast eftir þingsetu óar við að taka þátt í prófkosningum með þeim slagsmálum og kostnaði sem þeim fylgja. Meðal þingmannsefna sem nefnd hafa verið, auk Daða Más, er María Rut Kristinsdóttir, aðstoðarmaður formanns flokksins. Hún er af Vestfjörðum og sú hugmynd hefur komið upp að hún yrði oddviti flokksins í því kjördæmi. Þá munu ýmsir framámenn í atvinnulífinu hafa hvatt Guðrúnu Hafsteinsdóttur, fyrrverandi formann Samtaka iðnaðarins og stjórnarmann í Samtökum atvinnulífsins, til að gefa kost á sér. Hún yrði mikill fengur fyrir Viðreisn, enda notið mikillar virðingar og trausts sem forystumaður atvinnurekenda. Færi hún fram fyrir Viðreisn má telja langlíklegast að það yrði í Suðurkjördæmi, en Guðrún býr í Hveragerði þar sem hún starfar sem stjórnandi og einn eigenda Kjöríss.

Þá herma heimildir að fleira fólk úr atvinnulífinu sé orðað við þingframboð fyrir Viðreisn. Til skamms tíma voru langflestir forystumenn atvinnurekenda flokksbundnir Sjálfstæðismenn en Viðreisn hyggst festa sig í sessi sem málsvari öflugs atvinnulífs og veita Sjálfstæðisflokknum þar harða keppni.

Fleiri framboð

Ekki má heldur útiloka að ný framboð líti dagsins ljós fyrir næstu kosningar. Sósíalistaflokkur Íslands á mann í borgarstjórn Reykjavíkur, en hefur sjaldnast náð 5% lágmarkinu í könnunum undanfarið og virðast vinsældir flokksins heldur vera að dala. Því má þó velta upp hvað gerist ef flokknum tekst að tefla fram áberandi kandídötum, fólki yst til vinstri líkt og Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Þá kynni svo að fara að hinum vinstriflokkunum yrði veitt hörð keppni um atkvæði þeirra allra róttækustu og sá hópur kann að fara ört stækkandi, sé litið til vaxandi öfga í stjórnmálum austan hafs og vestan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá mörgum sveitarfélögum

Miklir fjárhagserfiðleikar hjá mörgum sveitarfélögum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Dóra Björt stendur keik – „Samherjamálið gerðist, gögn voru birt og Eyþór kemur við sögu. Það er einfaldlega þannig“

Dóra Björt stendur keik – „Samherjamálið gerðist, gögn voru birt og Eyþór kemur við sögu. Það er einfaldlega þannig“