fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Eyjan

Áslaug réttlætir lokun fangelsisins á Akureyri – Kostar 100 milljónir á ári

Erla Dóra Magnúsdóttir
Fimmtudaginn 9. júlí 2020 15:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ákvörðunin um að loka fangelsinu á Akureyri eftir tillögu Fangelsismálastofnunar er þungbær en tekin að vandlega athuguðu máli,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, í færslu á Facebook þar sem hún ver ákvörðunina um að loka fangelsinu á Akureyri í hagræðingarskyni. Bæjaryfirvöld Akureyrar hafa gagnrýnt ákvörðunina sem hafi ekki verið tekin í samráði við bæinn. Gagnrýnin miðast meðal annars að því að við þessar breytingar tapist fimm störf í bænum auk þess sem aukið álag verður sett á lögreglumenn sem þurfi nú sjálfir að sinna fangavörslu.

Áslaug bendir á að það kosti um 100 milljónir króna á ári að reka fangelsið á Akureyri. Fangelsismálastofnun hefur metið það svo að við þessa lokun skapist færi á að fullnýta rúmlega þrjátíu pláss í stóru fangelsunum. Tíu pláss eru á Akureyri en þau hafi verið misvel nýtt.

„Enginn fangi hefur til dæmis verið í fangelsinu undanfarnar tvo mánuði. Fastir starfsmenn í fangelsinu eru fimm en samkvæmt upplýsingum frá Fangelsismálastofnun þarf að ráða tvo nýja starfsmenn til fangelsisins á Litla-Hrauni til að sinna jafnmörgum rýmum og á Akureyri.“

Tekur Áslaug sömuleiðis fram að öllum starfsmönnum á Akureyri hafi boðist vinna í öðrum fangelsum.

„Ég féllst á þessar tillögur stofnunarinnar eftir að skýrslan var unnin um að stytta boðunarlista til afplánunar enda ber að gæta hagsýni um alla ráðstöfun opinberra fjármuna, gæta þess að dómar fyrnist ekki og að dómþolar bíði ekki lengi eftir að hefja afplánun“

Annað jákvætt við lokun fangelsisins sé að þar með skapist svigrúm til að stækka aðstöðu lögreglunnar á staðnum. Hins vegar telur Áslaug fullt erindi til að bregðast við athugasemdum bæjaryfirvalda um að aukið álag verði lagt á lögregluna á Akureyri við þessar breytingar, álag sem gæti dregið úr getu lögreglunnar til að sinna almennri löggæslu.

„Vegna staðhæfinga um að aðgerðin muni draga úr getu lögreglunnar á Akureyri til að sinna almennri löggæslu mun ég leita eftir því við embætti Ríkislögreglustjóra að greina þörfina og kanna hvort sú gagnrýni eigi við rök að styðjast. Embættið þarf að geta sinnt skyldum sínum líkt og önnur embætti viða um land.“

Einnig hefur verið gagnrýnt að þessi breyting sé í andstöðu við stefnu ríkisstjórnarinnar að færa opinber störf út á land.

„Það er ekki alls kostar rétt því eins og áður sagði verða ráðnir tveir fangaverðir á Litla-Hraun í stað þeirra sem sagt verður upp á Akureyri. Það eru stöðugildi úti á landi en ekki á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef verið mér mjög vel meðvituð um stefnu ríkisstjórnarinnar varðandi flutning starfa út á land. Jafnframt því sem unnið hefur verið að framangreindri hagræðingu í fangelsiskerfinu hefur verið unnið að því í dómsmálaráðuneytinu að flytja störf undirstofnana ráðuneytisins út á landsbyggðina. Nú þegar hefur embætti sýslumannsins í Vestmannaeyjum verið eflt með tilfærslu verkefna og fjölgun starfa og hvað varðar Norðurland eystra er unnið að undirbúningi þess að flytja 4-6 störf af höfuðborgarsvæðinu norður í þann landshluta. Undirbúningur er langt kominn þótt ekki sé efni til þess að skýra nákvæmlega frá því hvað þar er um að ræða fyrr en með haustinu.“

Líkt og Áslaug bendir á þá kom nýlega út skýrsla starfshóps um að stytta boðunarlista til afplánunar. En á sjöunda hundrað einstaklingar eru nú á þeim lista og hafa yfir hundrað verið þar yfir þrjú ár. Því er ljóst að eitthvað þurfi að gera til að bregðast við stöðunni, þó svo aðilum greini á um besti leiðirnar að því markmiði. Símon Sigvaldason, dómstjóri Héraðsdóms Reykjavíkur, benti á það í vikunni að besta leiðin væri hreinlega að auka fjármagnið sem ríkið veitir í málaflokkinn til að fullnýta fangelsin í landinu.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“