fbpx
Mánudagur 03.ágúst 2020
Eyjan

Steingrímur J. um þingslitin, Covid-19 og framhald sitt í pólitík

Heimir Hannesson
Laugardaginn 4. júlí 2020 08:00

Steingrímur J. Sigfússon er forseti Alþingis. mynd/Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingi var slitið aðfararnótt þriðjudags eftir miklar tarnir á endasprettinum þar sem fjöldinn allur af málum var afgreiddur. Nægir þar að nefna færslu sálfræðikostnaðar undir Sjúkratryggingar Íslands, atkvæðagreiðslu um afglæpavæðingu fíkniefna, afgreiðslu samgönguáætlunar og stofnun hlutafélags um Borgarlínuna. Frækin frammistaða Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, getur ekki hafa farið framhjá neinum þeirra sem horfðu á útsendingar af síðustu dögum þingsins. DV heyrði í Steingrími sem var, þegar blaðamaður hringdi, að hlaða batteríin í íslenskri sveit eftir törnina síðustu daga.

Steingrímur var vonum samkvæmt ánægður að vera kominn í frí frá þingstörfum, en að sama skapi glaður með hvernig að þinglokum var staðið. Á þinginu náðist að klára nokkurn fjölda mála, t.d. kláraðist að koma á fót Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, „LÍN-frumvarp“ menntamálaráðherra var samþykkt og heitir LÍN nú Menntasjóður og svo auðvitað Samgönguáætlun sem Steingrímur segir gæti verið stærstu fjárfestingapakki Íslandssögunnar, ef litið er til 15 ára áætlunarinnar.

Eftirminnilegt þing að baki

Þingheimur hefur þurft að takast á við ýmsar óvenjulegar aðstæður síðastliðinn vetur og þurfti um tíma að grípa til fordæmalausra takmarkana á viðveru þingmanna í þingsal. Strax í byrjun vetrar skall á landinu bylgja óveðurslægða. Í desember gaf veðurstofan út rauða viðvörun í fyrsta sinn fyrir norðurland allt. Að hríðinni lokinni stóðu menn frammi fyrir gríðarlegum skemmdum um allt land. Rafmagnslaust var á Dalvík og fór það svo að varðskipið Þór sá bænum fyrir rafmagni í fleiri daga. Tjón Rarik vegna óveðursins endaði í 800 milljónum. Þótti óveðrið opinbera veikleika í innviðum landsins. Í janúar skall svo snjóflóð á Flateyri með þeim afleiðingum að ung kona grófst undir og var henni bjargað af björgunarsveitum. Vakti það talsverða umræðu um ástand snjóflóðavarna, áreiðanleika þeirra og ráðstöfun fjármuna ofanflóðasjóðs.

Þingárið 2019-2020 hefur verið eftirminnilegt, segir Steingrímur.

Í upphafi árs fóru jafnframt að berast fréttir frá Austurlöndum fjær af dularfullri veiru sem gekk þar manna á milli. Átti sá faraldur eftir að hafa gríðarleg áhrif á heiminn allan og voru þingstörf hér á Íslandi ekki undanskilin því. „Við vissum í sjálfu sér ekkert þarna í byrjun hvernig þetta yrði,“ segir Steingrímur. Þegar samkomubann hafi verið sett á hér á landi hafi þingið ekki verið undanskilið og forseti Alþingis, sem stýrir starfsemi þingsins, því þurft að bregðast við. „Það máttu bara vera 20 í salnum í einu, aðrir horfðu á umræður í hliðarsölum þingsins og svo þegar kom að atkvæðagreiðslum þurfti að fara í þessa hringekju,“ segir Steingrímur og vísar til þess að þingmennirnir röðuðu sér upp í röð með tvo metra á milli manna og gengu inn í þingsal einum megin og úr honum hinum megin í halarófu. Þannig var tryggt að þingmenn mættust ekki meira en þurfti. Steingrímur rifjar ennfremur upp fjarfundi þingnefnda, sem þá voru nýmæli. „Þetta var eiginlega bíó að fylgjast með þessu,“ segir hann. „Það verður talað um þetta í framtíðinni.“

Þingræðið tryggt

Þingið lagðist aldrei niður og segir Steingrímur að með því hafi þingræði verið tryggt á Íslandi. „Mörg önnur lönd gripu til þess að færa valdið frá þinginu til þjóðhöfðingja og ríkisstjórna, og það má alveg benda á að hér á landi var ekki gripið til þess.“ Engin lög um neyðarvöld voru samþykkt hér á landi og ekkert valdframsal átti sér stað til framkvæmdavalds eins og gerðist víða um heim, m.a. í Evrópusambandinu. Er á Steingrími að heyra að hann sé stoltur af framgöngu þingsins í gegnum Covid faraldurinn.

„Við þurftum auðvitað að bregðast við og þingstörf gjörbreyttust,“ segir Steingrímur. „Þingið samþykkti yfir 30 Covid-frumvörp, þar á meðal þrjá fjáraukalagapakka, tvo til þrjá stóra bandorma auk fjölda annarra sérstakra laga.“ Þó að þingið hafi vissulega haldið velli var um tíma öllu fundahaldi sem tengdist ekki viðbrögðum stjórnvalda við Covid faraldrinum aflýst, segir hann. „Í nokkrar vikur var ekkert fjallað um neitt nema þessi [Covid]frumvörp og í um þrjár vikur voru bara tveir til þrír fundir á viku.“

Þinghúsið var á þessum tíma hreinsað daglega og hreinlæti aukið til muna. Steingrímur segir að þau hafi fengið þríeykið svokallað til ráðgjafar. „Þau komu í heimsókn hingað á einum tímapunkti og voru okkur til ráðgjafar. Þau tóku út aðstæður hér í húsinu. Var það ekki síst í ljósi þess hve mikilvæg starfsemin hér er.“ Þingheimur slapp vel úr faraldrinum. Enginn þingmaður smitaðist af Covid-19.

Covid ekki búið enn

„Áhrifin af Covid-19 eru alls ekki búin. Efnahagsleg áhrif eru enn að gera vart við sig og ljóst að samdráttur í ferðamennsku mun hafa mikil áhrif,“ segir Steingrímur. Næstu misseri verða erfið segir hann og ljóst að þetta er að dragast á langinn. Þó er ánægjulegt segir hann hve móttækilegir Íslendingar hafa verið fyrir hvötum hins opinbera um ferðalög innanlands. „Maður sér þetta bara á förnum vegi,“ segir Steingrímur og hrósar Íslendingum fyrir að ferðast innanlands. Þau hjónin ætla sjálf að ferðast um landið í sumar.

Nú er aðeins eitt ár eftir af kjörtímabilinu og ljóst að stjórnmálin fara brátt að taka á sig kosningabrag. Samstarf Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hefur þótt ganga býsna vel síðustu þrjú ár. Aðspurður hvort að kosningahamur þingmanna gæti hleypt stjórnarsamstarfinu í kekki segir Steingrímur að það sé ekki endilega von á því. Gengið hafi vel að miðla málum hingað til, segir hann. „Einstaka þingmenn þurfa kannski að vekja athygli á sér,“ en heilt yfir er hann bjartsýnn á að þessi ríkisstjórn klári kjörtímabilið með sæmd. „Stemningin hefur verið að einbeita sér að því að láta þessa tilraun ganga upp.“ Til gamans má geta þess að síðasta ríkisstjórn til að klára heilt kjörtímabil var einmitt ríkisstjórn Steingríms J. og Jóhönnu Sigurðardóttur sem tók við í annars konar krísu vorið 2009.

Framtíðin enn óráðin

Steingrímur J. hefur verið þingmaður síðan 1983, þá fyrir Alþýðubandalagið. Steingrímur hefur því lengstan starfsaldur á þingi í dag, og raunar langlengsta. 37 ár er langur tími í pólitík. „Gunnar Thoroddsen og Óli Jó voru að hætta þegar ég var að byrja,“ segir Steingrímur og virðist gera sér vel grein fyrir því að þetta sé orðinn talsverður tími. Steingrímur verður 65 ára í ágúst á þessu ári og því samanlagður aldur og starfsaldur kominn í heila öld og tveimur árum betur. Það er því ekki nema von að blaðamaður spyrji hann hvort nóg sé komið, en Steingrímur gefur lítið upp. „Nú held ég áfram að ræða við mína félaga og mín ákvörðun um framhaldið verður sjálfsagt tilkynnt þar fyrst.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 1 viku

Sigurður Ingi sér rautt yfir Sigmundi Davíð – Lilja sögð stefna á formannsstól

Sigurður Ingi sér rautt yfir Sigmundi Davíð – Lilja sögð stefna á formannsstól
Eyjan
Fyrir 1 viku

Sláandi frétt CBS um „vænissjúkan“ sendiherra á Íslandi – Vill byssu, brynvarðan bíl og stunguvesti

Sláandi frétt CBS um „vænissjúkan“ sendiherra á Íslandi – Vill byssu, brynvarðan bíl og stunguvesti
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rio Tinto kvartar til Samkeppniseftirlitsins

Rio Tinto kvartar til Samkeppniseftirlitsins
Eyjan
Fyrir 1 viku

Gagnrýnir harðlega afskipti af Lífeyrissjóði verslunarmanna: „Grafið undan lífeyrissjóðum“

Gagnrýnir harðlega afskipti af Lífeyrissjóði verslunarmanna: „Grafið undan lífeyrissjóðum“
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Ragnar Þór stendur við yfirlýsinguna um að Lífeyrissjóður verslunarmanna taki ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair

Ragnar Þór stendur við yfirlýsinguna um að Lífeyrissjóður verslunarmanna taki ekki þátt í hlutafjárútboði Icelandair
Eyjan
Fyrir 2 vikum

Gunnar Smári sendir stjórnendum Icelandair væna pillu – „Þetta getur því ekki endað nema illa“

Gunnar Smári sendir stjórnendum Icelandair væna pillu – „Þetta getur því ekki endað nema illa“