fbpx
Laugardagur 28.nóvember 2020
Eyjan

Segir Ísland ekki stikkfrí í nýju köldu stríði

Jón Þór Stefánsson
Fimmtudaginn 30. júlí 2020 09:55

Gunnar V. Andrésson - Íslenski fáninn á lögbergi

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Alþjóðastjórnmálasérfræðingurinn Helgi Steinar Gunnlaugsson skrifaði pistil sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Þar ræddi hann spennuna á milli Kína og Bandaríkjanna sem hefur verið að spennast upp seinustu misseri.

Hann minnist tveggja greina sem hann skrifaði árið 2016. Annars vegar um þjóðernishyggju í Kína og hins vegar um Donald Trump sem þá var ný­kjörinn for­seti Bandaríkjanna og var ansi duglegur að koma fólki á óvart, sérstaklega á Twitter.

„Árið 2016 skrifaði ég grein sem bar heitið „Vaxandi þjóð­ernis­hyggja í Kína“. Greinin var skrifuð eftir að dómur féll hjá Al­þjóða haf­rétta­dóm­stólnum sem sagði að stjórn­völd í Peking höfðu hvorki laga­legan né sögu­legan grunn fyrir því til­kalli sem þau gerðu í Suður-Kína­hafi. Lög­sögu­deilur Kín­verja við ná­granna­lönd sín voru þá að hitna þar sem kín­versk stjórn­völd byrjuðu að reisa flota­stöðvar og flug­velli á mann­gerðum eyjum í kringum þessi um­deildu svæði.

Kín­verska ríkis­stjórnin brást harka­lega við á­kvörðun dóm­stólsins og neitaði að viður­kenna hana. Al­menningur í Kína leit einnig á þessa á­kvörðun sem árás á þjóð sína og upp blómstraði mikil þjóð­ernis­hyggja í borgum landsins. Þrátt fyrir þennan á­rekstur þá voru þá­verandi sam­skipti Kína við um­heiminn frekar já­kvæð. Engu að síður lýsti ég yfir á­hyggjum mínum á þeirri þróun að sjá stækkandi heims­veldi neita að virða niður­stöður al­þjóða­sam­fé­lagsins.

Á sama tíma gagn­rýndi ég Donald Trump sem þá var ný­kjörinn for­seti Banda­ríkjanna. Aðal ógnin sem ég benti á var sú að fá­fræði þessarar veru­leika­stjörnu á al­heims­mál­efnum og sam­skiptum ríkjanna beggja myndi á endanum skapa mikla á­hættu­klemmu. Sú grein endaði orð­rétt: „Ef Donald Trump kýs að bregðast við að­gerðum Kín­verja á næstu árum með sömu hvat­vísi og hann hefur brugðist við stór­stjörnum á Twitter klukkan þrjú að morgni, þá verður sam­band þessara tveggja þjóða ó­um­deilan­lega það mikil­vægasta á 21. öldinni, en engan veginn eins frið­sælt og allir hefðu vonast eftir.“ “

Helgi segir að nú fjórum árum seinna sé kalt stríð hafið á milli Kína og hins vestræna heims. Hann segir að samskiptin á milli Kína og Bandaríkjana hafi ekki verið eins slæm síðan árið 1972, og þá sé ástandið litlu betra þegar litið er á samband Kína og Ástralíu eða Bretlands. Þá minnist hann einnig á stöðuna í Hong Kong.

„Einungis fjögur ár eru liðin síðan þessar greinar voru birtar og er því miður engin önnur leið að orða nú­verandi á­stand en svo að kalt stríð sé hafið á milli stjórn­valda í Kína og í hinum vest­ræna heimi. Sam­skiptin á milli Kína og Banda­ríkjanna hafa ekki verið svona slæm síðan heim­sókn Nixons til Kína árið 1972. Bresk stjórn­völd hafa bannað fjar­skipta­fyrir­tækjum sínum að nota búnað frá Huawei og hefur for­sætis­ráð­herra Ástralíu kallað eftir al­þjóð­legri sjálf­stæðri rann­sókn á upp­runa kórónaveirunnar, sem leiddi til þess að kín­versk stjórn­völd lögðu 80% inn­flutnings­toll á ástralskt bygg. Yfir­völd í Ástralíu hafa nú einnig lagt fram yfir­lýsingu til Sam­einuðu þjóðanna sem sakar Kín­verja um að fara fram með of­forsi og þjösna­skap og í þessum töluðu orðum er verið að loka bæði banda­rískum og kín­verskum ræðis­skrif­stofum í Houston og Chengdu.

Al­þjóða­sam­fé­lagið hefur staðið í miklum deilum undan­farin ár við kín­versk stjórn­völd, ekki að­eins út af deilum í Suður-Kína­hafi, heldur einnig í tengslum við að­gerðir stjórn­valda í Hong Kong, fangelsun Úýgúrmúslima í svo­kölluðum „endur­menntunar­búðum“ og á­sakanir um njósnir af hálfu Huawei. Við­brögð kín­verskra yfir­valda á fyrstu vikum COVID-19 og ævin­týrið sem fylgdi í kjöl­farið var einungis dropinn sem fyllti mælinn. Þær munn­legu á­rásir stjórn­valda sem beinast nú hvor gegn annarri virðast eiga það mark­mið að komast að því hverjum þetta nú­verandi á­stand er að kenna. Þó að það séu vissu­lega sumir sem beri meiri á­byrgð en aðrir, þá var þetta nýja kalda stríð því miður ó­hjá­kvæmi­legt.“

Að lokum minnist Helgi á „gildru Þúkýdídes“, þegar að gamalt heimsveldi lýtur á nýtt heimsveldi sem ógn og út brýst stríð. Hann segir þá stöðu oft hafa komið upp á seinustu 500 árum, þó að hugtakið sjálft sé einungis átta ára gamalt, og búið til til að lýsa stöðunni á milli Bandaríkjana og Kína.

Hann segir þó ólíklegt að hernaðar­á­tök muni brjótast út líkt og ógnin var í köldu stríði Bandaríkjanna og Sóvíetríkjanna. Núverandi kalt stríð sé af efnahagslegu tagi. Þá segir hann að Ísland sé alls ekki stikkfrí, eins og við viljum halda.

„Í Al­þjóða­sam­skiptum tölum við oft um „gildru Þúkýdídes“, sem nefnd er eftir hinum gríska sagna­ritara sem ritaði sögu Pelópsskagastríðsins. Gildran lýsir sér þannig að þegar nýtt heims­veldi rís upp mun þá­verandi heims­veldi líta á það sem ógn og í kjöl­farið brýst út stríð á milli þeirra tveggja. Á seinustu 500 árum hefur þetta verið raunin í 12 af 16 slíkum til­fellum. Þrátt fyrir að eiga sinn upp­runa í forn­grískri sögu, þá er þetta einungis átta ára gamalt hug­tak og var það í raun samið til að lýsa nú­verandi sam­bandi á milli Kína og Banda­ríkjanna.

Það er hins vegar ó­lík­legt að stór hernaðar­á­tök muni brjótast út. Á tímum Sovíet­ríkjanna var það ótti okkar við kjarn­orku­vopn, eða „MAD“ (Gagn­kvæm Altryggð Ger­eyðing Allra) sem hélt báðum hliðum í skefjum. Nú eru það efna­hags­legu tengslin á milli stór­veldanna sem passa upp á að allir við­haldi á­kveðinni ró. Báðar hliðar geta ekki brugðist of harka­lega við án þess að skjóta sig sam­tímis í fótinn og má líta á það sem já­kvæðan hlut.

Engu að síður þá þarf að horfast í augu við breytta fram­tíð. Það má í raun líta á þessi nú­verandi „átök“ sem hálf­gerðar þreifingar af hálfu stjórn­valda til að meta hvernig hægt sé að standa vörð um gildi og öryggi þjóða, sam­hliða því að við­halda efna­hags­legum sam­skiptum og tryggja þannig stöðug­leika. Þrátt fyrir að vera lítil þjóð, þá erum við Ís­lendingar ekki eins stikk­frí frá þessum breytingum og við viljum halda. Við vorum fyrsta vest­ræna þjóðin til að undir­rita frí­verslunar­samning við Kína og sitjum við einnig í Heim­skauts­ráðinu. Við erum frið­sæl þjóð og viljum að sjálf­sögðu geta leikið okkur fal­lega með hinum börnunum í sand­kassanum, en við verðum líka að mynda skýra af­stöðu til að forðast ill­kynja utan­að­komandi á­hrif. Ef engin stefna er nú þegar til staðar af hálfu ís­lenskra stjórn­valda til að á­varpa þetta breytta lands­lag, þá vona ég inni­lega að slík stefna sé að minnsta kosti komin á teikni­borðið.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Gamla fólkið á valdastólum

Gamla fólkið á valdastólum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ólafur svaraði fyrir breytingarnar hjá Miðflokknum – „Hvað gerir varaformaður í stjórnmálaflokki?“

Ólafur svaraði fyrir breytingarnar hjá Miðflokknum – „Hvað gerir varaformaður í stjórnmálaflokki?“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Björn segir að því sé enn ósvarað hvort mistök hafi verið gerð á Landakoti

Björn segir að því sé enn ósvarað hvort mistök hafi verið gerð á Landakoti
Eyjan
Fyrir 1 viku

Heitt í hamsi á Alþingi vegna vaxtahækkanna – „Ég er algjörlega ORÐLAUS!“

Heitt í hamsi á Alþingi vegna vaxtahækkanna – „Ég er algjörlega ORÐLAUS!“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þetta eru hæst og lægst launuðu störfin á Íslandi

Þetta eru hæst og lægst launuðu störfin á Íslandi
Eyjan
Fyrir 1 viku

Una stráfellir fullyrðingar Sigríðar – „Það sem þá gerist er það að fólk deyr“

Una stráfellir fullyrðingar Sigríðar – „Það sem þá gerist er það að fólk deyr“