fbpx
Laugardagur 15.ágúst 2020
Eyjan

Þórarinn um stóra spilakassamálið: – „Mörg rök fyrir því að við fáum peninga í gegnum þetta“

Trausti Salvar Kristjánsson
Laugardaginn 20. júní 2020 14:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Tyrfingsson, sem vill verða formaður SÁÁ að nýju, vill að stjórn samtakanna taki ákvörðun um það hvort rekstri spilakassa verði hætt, en tekjur af þeim nema um 60 milljónum á ári til samtakanna. Hyggst hann sjálfur eiga frumkvæði að því að málið fari fyrir stjórnina. Þetta segir hann í samtali við Eyjuna.

Mikil umræða hefur skapast í kjölfar Covid-19 um hvort rekstur spilakassa hér á landi eigi rétt á sér, þar sem þeir ýti undir spilafíkn með tilheyrandi afleiðingum í stórum stíl.

Sjá einnig: Svar við sláandi auglýsingu Samtaka áhugafólks um spilafíkn – Háskóli Íslands situr hjá
Sjá einnig: Vinningshlutfall spilakassa sagt ólöglegt -„Kæra Áslaug, hvenær fórst þú síðast í spilakassa til að styrkja gott málefni?
Sjá einnig: Hagur spilafíkla vænkast í spilakassabanni – Krefjast viðræðna strax við forsætisráðherra

Harður slagur

Nýr formaður SÁÁ verður kjörinn á aðalfundi þann 30. júní næstkomandi, þar sem Arnþór Jónsson, sitjandi formaður, hyggst ekki gefa kost á sér.

Þeir Einar Hermannsson, stjórnarmaður í SÁÁ og Þórarinn Tyrfingsson, sem hætti sem formaður SÁÁ árið 2017, hafa báðir boðið sig fram og stefnir í harðan slag.

Einar skrifar í grein á Vísi í dag að starf SÁÁ verði „aldrei byggt á einum manni og enn síður fornri frægð eða gömlum afrekum,“ sem skilja má sem sneið til mótframbjóðanda hans.

Vill hætta rekstri spilakassa

Einar segir einnig í greininni að hann hyggist róa öllum árum að því að SÁÁ hætti rekstri spilakassa, sem skili um 60 milljónum á ári til samtakanna, en SÁÁ hefur þegar farið 200 milljónum króna fram úr samþykktum áætlunum í rekstrinum undanfarin tvö ár:

„Ekki verður komist hjá því að nefna eina stoð í rekstri SÁÁ sem sannast sagna er fúin. Þetta er þátttaka í rekstri spilakassa. Þessi þátttaka SÁÁ skilar um 60 milljónum króna inn í rekstur SÁÁ á ári. Ljóst er að þetta fé verður að koma annars staðar frá. Trúverðugleiki SÁÁ er langt um verðmætari en svo að eiga þátt í að magna upp fleiri samfélagsleg vandamál, líkt og spilafíkn augljóslega er. SÁÁ verður að hætta þátttöku í rekstri spilakassa!“

Sjá einnig: Formannsframbjóðandi SÁÁ:Spilakassatekjur „svartur blettur“ á starfseminni

Bónleiðin ekki í boði

Einar nefnir að fjárhagurinn mætti vera betri, en nefnir ekki hvaðan fjármunirnir sem verða til með rekstri spilakassa eigi að koma:

„Ekki þýðir að halda áfram þeirri aðferðarfræði að fara bónleiðina til stjórnvalda fyrir fjárlög með tilheyrandi árvissum fjölmiðlahasar, heldur þarf að tryggja starfinu viðunandi rekstrargrundvöll fram í tímann og auka allan fyrirsjáanleika í rekstri. Jafnframt verðum við að tryggja faglegt og rekstrarlegt sjálfstæði samtakanna.“

Mörg rök fyrir spilakössum

Þórarinn sagði við Eyjuna að hann þekkti málið út og inn, þar sem málið hefði komið til skjalanna í formannstíð hans. Það hefði alltaf verið umdeilt og margsinnis farið fyrir stjórn SÁÁ:

„Þetta er mál sem hefur alltaf á vissan hátt verið umdeilt, en það eru mörg rök fyrir því að við fáum peninga í gegnum þetta,“

sagði Þórarinn, en bætti við að samtökin yrðu vissulega að taka mið af umræðunni um málið og spilafíkn væri alvarlegt mál hér á landi.

Mun leggja málið fyrir

Aðspurður hvaða afstöðu hann hefði sjálfur til málsins, hvort hann hygðist taka málið upp sjálfur, sagði hann að ákvörðunin lægi hjá 48 manna stjórn samtakanna:

„Stjórnarformaðurinn er stjórnarformaður þessarar 48 manna stjórnar og verður að leggja málið þar fyrir. Hvaða málstað ég mun flytja fyrir stjórnina kemur bara á daginn, en þangað þarf málið að fara.“

Aðspurður hvort Þórarinn hygðist sjálfur leggja málið fyrir stjórnina, hlyti hann kosningu, sagði hann svo vera:

„Ég mun örugglega taka það fyrir. Það er bara sanngjarnt.“

Þarf að mæta tekjutapinu

Þá sagði Þórarinn jafnframt að ekki þýddi að krefja ríkið um frekari fjármagn fyrir rekstrinum:

„Það er alveg ótækt að ætla að fara bara til ríkisins ef maður er með halla á rekstrinum, það er bara ekki á dagskrá. Maður verður að taka til heima hjá sér fyrst. Og ef við ætlum að leggja þessa spilakassa niður þarf að leggja fram áætlanir til að mæta því tekjutapi.“

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Í vikunni

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“

Þorsteinn segir bið í næsta Samherja-þátt – „Ég ætla ekki að tjá mig um það á þessu stigi og ætla að láta storminn aðeins lægja eftir þetta“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“

Gunnar Bragi um svar Helga Seljan – „Ég leyfi mér hins veg­ar að glotta smá“