fbpx
Mánudagur 21.júní 2021
Eyjan

Nýja stöðin talin úrelt og gölluð – Kostaði 5,3 milljarða -„Nýtt Sorpuhneyksli“

Trausti Salvar Kristjánsson
Föstudaginn 22. maí 2020 14:00

Nýja Sorpustöðin. Mynd-Sorpa

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tæknin sem Sorpa hyggst nota við endurvinnslu sorps í nýrri gas – og jarðgerðastöð, sem kostað hefur 5,3 milljarða, er sögð úrelt og telja sérfræðingar að stöðin muni aldrei virka með þeim hætti sem upphaflega var lagt upp með. Þetta kemur fram í umfangsmikilli umfjöllun Stundarinnar um málefni Sorpu sem kom út í dag.

„Þetta er yfir 20 ára gömul tækni. Fyrsta verksmiðjan sem við byggðum árið 2000 byggðist á þessari sömu tækni og Aikan hefur selt Sorpu,“ er haft eftir Rolf Liebensteiner, framkvæmdastjóra Bekon í Þýskalandi, sem komið hefur að byggingu fjölda slíkra stöðva.

Stundin segist hafa heimildir fyrir því að enn meiri fjármunir verði settir í stöðina, þar sem hún geti enn ekki framleitt moltu sem standist gæðakröfur fyrir dreifingu og sölu. Hins vegar þurfi að urða alla moltu sem ekki verður seld, en hún mun innihalda örplast og spilliefni samkvæmt verkefnastjóra hjá Sorpu, þar sem búnaðurinn nái ekki að hreinsa úrganginn nægilega vel. Vandamálið sé að úrgangur á höfuðborgarsvæðinu sé ekki nægilega vel flokkaður á heimilunum.

Sláandi hneyksli

Borgarfulltrúi Miðflokksins, Vigdís Hauksdóttir,  segir um botnlaust rugl sé að ræða og að nýtt hneyksli sé í uppsiglingu:

„Þetta er nýtt Sorpuhneyksli. Ég er orðlaus, sem gerist ekki oft. Sú ískalda staðreynd að búið er að eyða rúmum fimm milljörðum í tækni sem er úrelt og í raun hafði aldrei gengið upp, er sláandi. Svo hitt að keyra sorpmálin áfram án þess að leggja áherslu á flokkun. Og í þriðja lagi að áætlað er að framleiða vöru án markaða – en gera ráð fyrir í áætlunum 100% sölu. Ég bara næ því ekki hvers vegna enginn stjórnarmaður steig upp og stoppaði þetta botnlausa rugl.“

Um leiðir til úrbóta segir Vigdís ljóst að stöðva þurfi framkvæmdir:

„Það þarf að stöðva framkvæmdir og yfirfara búnaðinn áður en meira fé er dælt þarna inn. Félagið er faglega, tæknilega og fjárhagslega gjaldþrota.“

Virkaði aldrei

Í umfjöllun Stundarinnar er nefnt að sambærileg verksmiðja hafi verið byggð í Noregi árið 2006, en henni lokað fimm árum síðar án þess að hafa komist í gagnið svo talist gæti. Sorpa notar sömu tækni við endurvinnslu hér á landi og notuð var í stöðinni í Noregi, en hún kemur frá danska fyrirtækinu Aikan A/S sem varð hlutskarpast í útboði um Sorpustöðina.

Kostnaður við Sorpustöðina hefur mikið verið í fréttum að undanförnu, en hann var vanáætlaður verulega vegna bókhaldsmistaka. Átti stöðin upphaflega að kosta 3,7 milljarða, en er kostnaðurinn kominn upp í 5,3 milljarða í dag og hafa sveitarfélögin sem eiga Sorpu þurft að ábyrgjast lánveitingar vegna slæmrar fjárhagsstöðu Sorpu í kjölfarið.

Þá var fyrrverandi framkvæmdastjóra Sorpu sagt upp vegna málsins. Gagnrýnd hefur verið sú leið sem farin var við byggingu stöðvarinnar, þar sem farið var í útboð án þess að endanleg hönnun stöðvarinnar lægi fyrir.

Ólögleg molta

Einnig kemur fram í umfjöllun Stundarinnar að samkvæmt Evrópureglugerð 2008/98/EB sem búið er að innleiða hér á landi, sé óheimilt að dreifa eða selja moltu sem unnin sé úr blönduðum heimilisúrgangi, líkt og gert sé með moltuna hjá Sorpu.

Moltan sem framleidd var í verksmiðjunni í Noregi stóðst engar gæðakröfur og drap blómin þar sem henni var dreift, samkvæmt umfjöllun norskra fjölmiðla og einnig voru töluverð vandræði vegna lyktarinnar frá stöðinni þar ytra, sem sögð var eins og af mannslíki.

Alltaf eitthvað sem sleppur í gegn

Haft er eftir Sveini Fjeldsted, verkefnisstjóra Sorpustöðvarinnar, að moltan frá Sorpu muni koma til með að innihalda plastagnir og hættuleg efni í einhverju magni, þar sem heimilissorp á höfuðborgarsvæðinu sé ekki flokkað nægilega vel. Því geti skaðleg efni á borð við rafhlöðusýrur hæglega endað í moltunni:

„Við erum ekki að ná öllu, það er alltaf eitthvað sem sleppur í gegn,“

segir Sveinn.

Fátt um svör

Unnið er að endurskipulagningu fjármála Sorpu og hafa Birkir Jón Jónsson, stjórnarformaður Sorpu og Líf Magneudóttir, varaformaður fyrir hönd Reykjavíkurborgar, neitað að tjá sig við Stundina um málefni Sorpu, sem og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri,  Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi, og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ, en þeir gegndu allir formannsstöðu hjá Samtökum Sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) sem jafnframt eru eigendur Sorpu, í aðdraganda framkvæmdanna.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Ingó opinberar ástina

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Margir minnast Gunnars – „Þetta er sorgardagur. Mikill vinur minn fallinn frá“

Margir minnast Gunnars – „Þetta er sorgardagur. Mikill vinur minn fallinn frá“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Læknar senda Lilju Alfreðs í tímabundið veikindaleyfi

Læknar senda Lilju Alfreðs í tímabundið veikindaleyfi