fbpx
Laugardagur 04.febrúar 2023
Eyjan

Um Fálkaorðuna : „Ég hafði lítið annað upp úr þessu, sem átti þó að vera sæmdarvottur, en ama og illmælgi“

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 10. maí 2020 13:50

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Björn Jón Bragason, sagn- og lögfræðingur, skrifar pistil í helgarblað DV sem nefnist Á þingpöllum. Í pistli vikunnar skoðar hann sögu fálkaorðunnar á Íslandi og þá gagnrýni sem hún hefur sætt, en pistillinn hefur þegar vakið athygli vegna fréttagildis hans, en í honum kom fram að forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, hefði hafnað orðunni.

________________________________

„Orður og titlar, úrelt þing, –
eins og dæmin sanna, –
notast oft sem uppfylling
í eyður verðleikanna.”

Þannig orti þjóðskáldið Steingrímur Thorsteinsson en sjálfur tók hann þó síðar við riddarakrossi Dannebrogsorðunnar. Íslendingar eignuðust sitt eigið heiðursmerki með stofnun konungsríkis og Kristján konungur veitti fálkaorðuna fyrst í heimsókn sinni hingað til lands 1921.

Orðan hefur verið deiluefni alla tíð síðan, en þess eru þó dæmi að þeir sem finni orðunni flest til foráttu á yngri árum hafi glaðir þegið hana síðar. Orðuveiting hefur líka orðið mönnum til ama. Monika Helgadóttir, húsfreyja á Merkigili, hlaut riddarakross 1953 en sagðist í blaðaviðtali hafa verið „öfunduð svo af þessu að þú getur ekki trúað því. Ég hafði lítið annað upp úr þessu, sem átti þó að vera sæmdarvottur, en ama og illmælgi.“

 

Hégómaskapur?

Reglulega hafa komið fram tillögur um afnám orðunnar. Skúli Guðmundsson, þingmaður Framsóknarflokks, flutti tillögu þess efnis á Alþingi 1966, en greinargerðin var í bundnu máli og endaði svo:

Þó að sumir þrái krossa,
þá munu fleiri mæla,
að enginn Íslendingur
ætti að dýrka þannig glingur.

 Bjarni Guðnason, þingmaður Samtaka frjálslyndra­ og vinstrimanna, lagði sömuleiðis fram þingsályktunartillögu um afnám orðunnar 1971. Þar sagði að hvergi „birtist hégómaskapurinn jafnberlega með Íslendingum“ en þegar kæmi að orðuveitingum.

 

Stórkross forsætisráðherrans

Stig fálkaorðunnar eru fimm talsins. Fyrst kemur riddarakoss, næst stórriddarakross, síðan stórriddakross með stjörnu og þá stórkross. Aðeins þjóðhöfðingi getur borið æðsta stig orðunnar en það er keðja með stórkrossstjörnu. Forseti Íslands ber þessa keðju en hann er það sem kallað er stórmeistari fálkaorðunnar.

Kristján konungur sótti um flest fyrirmyndir til Dannebrogsorðunnar en í Danmörku er gamall siður að forsætisráðherra sé veittur stórkross. Sú venja var sömuleiðis tekin upp hér á landi. Nokkrir þeirra hafa þó ekki veitt orðunni viðtöku. Þeirra á meðal Ásgeir Ásgeirsson, forsætisráðhera 1932–1934, sem þáði engar orður fyrr en hann varð sjálfkrafa stórmeistari orðunnar er hann var kjörinn forseti 1952. Ásgeir hafði raunar flutt tillögu á Alþingi 1924 þess efnis að aðeins erlendum mönnum yrði veitt orðan.

Verðlaun fyrir að „vinna vinnuna sína“

Hermann Jónasson forsætisráðherra tók ekki við stórkrossinum og heldur ekki sonur hans Steingrímur, sem leit svo á að hann væri bara að „vinna vinnuna sína“ og engin ástæða til að verðlauna það sérstaklega. Hermann faðir hans mun hafa haft uppi svipuð sjónarmið. Hermann þáði þó orðu frá Frökkum eftir lok stríðsins fyrir að hafa staðið á móti óskum Þjóðverja um flugbækistöð hér á landi. Hann leit þá orðuveitingu öðrum augum þar sem verið væri að sýna honum virðingarvott fyrir tiltekið framlag.

Frá því að Steingrímur lét af embætti 1991 hafa þessir forsætisráðherrar hlotið stórkrossinn: Davíð Oddsson, Halldór Ásgrímsson, Geir H. Haarde, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Sigurður Ingi Jóhannsson. Aftur á móti hefur Jóhönnu Sigurðardóttur, Bjarna Benediktsson og Katrínu Jakobsdóttur ekki verið veitt orðan, en Katrín Jakobsdóttir hafnaði að taka við stórkrossinum að sögn aðstoðarmanns hennar en að öðru leyti kýs Katrín að tjá sig ekki um málið. Aðstoðarmenn Bjarna Benediktssonar höfðu ekki svarað fyrirspurnum um þetta efni þegar blaðið fór í prentun.

 

Jafnaðarmenn fúlsuðu við orðum

Jóhönnu var boðin fálkaorða að minnsta kosti í þrígang en hafnaði henni, á þeim forsendum að um væri að ræða tildur sem hún kærði sig ekki um. Ólafur Ragnar Grímsson forseti mun hafa sótt fast að henni að þiggja orðuna eftir að hún lét af embætti, en hún gaf sig ekki.

Jafnaðarmenn um víða veröld höfðu áður fyrr þá venju að þiggja hvorki nafnbætur né orður og skáru sig því úr í opinberum samkvæmum. Svo er að sjá sem ýmsir aðrir foringjar jafnaðarmanna hér hafi fylgt þessu fordæmi, þeirra á meðal Gylfi Þ. Gíslason, Benedikt Gröndal, Hannibal Valdimarsson og sonur hans Jón Baldvin. Fyrsti íslenski jafnaðarmaðurinn á stóli forsætisráðherra, Stefán Jóhann Stefánsson, þáði þó stórkrossinn og sömuleiðis Emil Jónsson, þó svo að hann sæti aðeins í embætti forsætisráðherra í fáeina mánuði.

 

Margir hafa hafnað orðunni

Orðunefnd berst fjöldi tilnefninga á hverju ári ásamt greinargerðum (oft löngum) um verðleika þeirra sem tilnefndir eru. Gjarnan hafa þá ýmsir málsmetandi menn verið fengnir til að rita undir tilnefninguna. Orðunefnd kannar sannindi þess sem fram kemur í greinargerðum þessum og gengur úr skugga um að verðandi orðuþegi sé vammlaus og ráðvandur. Á endanum er það þó forseti Íslands, stórmeistari fálkaorðunnar, sem tekur ákvörðunina og þess eru ýmis dæmi að orður séu veittar að frumkvæði forseta eins. Þá er til langur, óbirtur listi fólks sem hefur afþakkað orðuna.

Enginn algildur mælikvarði er til um þann skerf sem borgararnir leggja til samfélagsins og orðuveiting hlýtur því alltaf að byggjast á huglægu mati. Fróðlegt verður að sjá hverja forseti kýs að krossa 17. júní næstkomandi. Ekki kæmi á óvart að hann hefði í huga einhverja sem staðið hafa í ströngu „í vinnunni“ undanfarið í farsóttinni. Um leið getur orðið skemmtilegur samkvæmisleikur að velta því fyrir sér hverjir hafi á sama tíma mögulega hafnað orðunni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

BÍ segir sig úr Alþjóðasambandi blaðamanna – „Ekki auðveld ákvörðun“

BÍ segir sig úr Alþjóðasambandi blaðamanna – „Ekki auðveld ákvörðun“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Árni stýrir Orku náttúrunnar

Árni stýrir Orku náttúrunnar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Vísa ávirðingum Eflingar „til föðurhúsanna“ – Beita hvorki þrýstingi né hótunum

Vísa ávirðingum Eflingar „til föðurhúsanna“ – Beita hvorki þrýstingi né hótunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Arnar Már skipaður ferðamálastjóri

Arnar Már skipaður ferðamálastjóri
Eyjan
Fyrir 1 viku

Efling hafnar lögmæti miðlunartillögunnar og fordæmir vinnubrögð ríkissáttasemjara

Efling hafnar lögmæti miðlunartillögunnar og fordæmir vinnubrögð ríkissáttasemjara
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ríkissáttasemjari grípur fram fyrir hendur Eflingar og leggur miðlunartillögu í dóm félagsmanna

Ríkissáttasemjari grípur fram fyrir hendur Eflingar og leggur miðlunartillögu í dóm félagsmanna