fbpx
Miðvikudagur 27.maí 2020
Eyjan

Brynjar skýtur föstum skotum á Þórhildi Sunnu

Eyjan
Sunnudaginn 5. apríl 2020 16:55

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, skaut föstum skotum á kollega sinn, þingmann Pírata, Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, eftir að horfa á Silfrið í dag.

Í Silfrinu komu fulltrúar úr stjórnarandstöðunni, Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir þingmaður Pírata, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar og Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins.

Til umræðu var COVID-19 faraldurinn og tengd málefni. Meðal annars stöðuna í kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga, sem hafa verið samningslausir í yfir ár og hefur verið hávært kall í samfélaginu undanfarna viku um að hjúkrunarfræðingar fái greitt í samræmi við álag starfa þeirra, sem er mikið um þessar mundir.

Þórhildur í Silfrinu

Þórhildur hefur áhyggjur af verðmætamati ríkisstjórnarinnar, því það endurspegli ekki verðmætamat samfélagsins okkar.

„Ég held að þetta ástand núna kalli bara á ákveðna samfélagslega sjálfsskoðun. Að við endurskoðum aðeins það verðmætamat sem við höfum í samfélaginu vegna þess að ef við horfum yfir sviðið núna, ef við sjáum hvaða fólk það er núna sem heldur samfélaginu okkar þá er það heilbrigðisstarfsfólkið okkar, starfsfólk í velferðarþjónustu, starfsfólk í sorphirðu, starfsfólk verslana og annara nauðsynlegrar þjónustu, fólkið sem þrífur stofnanirnar okkar, fólk í matvælaframleiðslu og kennarar í leik- og grunnskólum. Þetta er fólk sem getur ekki leyft sér að vinna heima og þetta er fólkið sem við þurfum til að halda samfélaginu gangandi. Og við sjáum það bara að þeirra verðmæti fyrir samfélagið, þetta grundvallarfólk, það endurspeglast ekki í þeim launaseðlum sem þau fá. 

Og hjúkrunarfræðingar eru auðvitað kannski mjög svona skýrt dæmi um þetta, um þetta skakka verðmætamat, að eins og þær eru mikilvægar – fyrir okkur nú sem aldrei fyrr, en yfirhöfuð alltaf – þá hafa þær ekki fengið að upplifa svona samfélagslega umbun fyrir þetta lykilhlutverk sitt.“

Staðan í dag sýni okkur mjög skýrt að verðmætamatið í samfélaginu þurfi að breytast. Verðmætamat stjórnvalda og þjóðarinnar virðist ekki fara saman. Þjóðin vilji heilbrigðiskerfið í forgang, en það endurspeglist ekki í aðgerðum ríkisstjórnar til að styðja við rekstur, bæði hvað varðar fjárveitingar, laun og annað. Ekki sé setti sami krafturinn í að rétta hlut hjúkrunarfræðinga og er settur í að styðja við hefðbundnari karlastéttir.

Brynjar telur Þórhildi ekki vita hvað hún talar um

Brynjar taldi það ljóst af málflutning Þórhildar Sunnu að hún hefði ekki hugmynd um hvernig verðmæti verða til og væri veruleikatenging hennar svo lítil að hún ætti líklega að skoða að ganga í Sósíalistaflokkinn. Hann deildi skoðun sinni á þætti Silfursins á Facebook þar sem hann skrifaði:

„Stjórnarandstaðan fékk sviðið í Silfrinu í dag og ekkert við það að athuga. Hún hefur staðið í skugganum og verið nánast í frjálsu falli og ekki vitað í hvorn fótinn á að stíga. Allt var þarna fyrirsjáanlegt. En það er stórkostlegt að Píratinn í þættinum, sem hefur þrátt fyrir allt verið á þingi í fjögur ár, skuli ekki enn vita hvernig verðmæti verða til. Rétt er einnig að benda henni á að allar starfsstéttir eru mikilvægar í samfélaginu svo allt gangi nú upp. Hún ætti líka að íhuga hvort ekki væri rétt að vera í kompaníi með Gunnari Smára – tengslin við veruleikann eru svipuð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Guðmundur segist eiga stóra vopnageymslu af upplýsingum um starfsmenn RÚV

Guðmundur segist eiga stóra vopnageymslu af upplýsingum um starfsmenn RÚV
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Á þingpöllum: Gífuryrði gagnast engum

Á þingpöllum: Gífuryrði gagnast engum