fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Hagstofan sökuð um hugarleikfimi og vísitöluföndur – „Þvílíkar falsanir og blekkingar“

Ritstjórn Eyjunnar
Fimmtudaginn 30. apríl 2020 14:00

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður Hagsmunasamtaka heimilanna og þingmaður Flokks fólksins

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hagsmunasamtök heimilanna (HH) telja að Hagstofa Íslands „föndri“ með vísitölu neysluverðs og því sé ekki mark á henni takandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá HH í dag:

„Hagstofan birti í gær vísitölu neysluverðs fyrir þennan mánuð. Í stuttu máli er ekkert mark takandi á vísitölu apríl mánaðar og í henni kristallast að verðtryggð lán heimilanna geta ekki lækkað, eða réttara sagt, þau fá ekki að lækka. Föndur Hagstofunnar með vísitöluna nú, sýnir skýrt fram á þvílíkar falsanir og blekkingar eru á bak við verðtryggingu lána heimilanna og hvers vegna hana þarf að afnema af lánum þeirra undir eins.“

Er vísitala neysluverðs sögð gagnslaus mælikvarði sem viðmið fyrir fjárskuldbindingar heimila:

„Hún mælir ekki lengur raunverð heldur byggist bara á hugarleikfimi starfsfólks Hagstofunnar.“

Aprílmánuði sleppt

„Undir því yfirskini að ekki sé hægt að mæla það sem ekkert er, ákveður Hagstofan að nýta mjög óljósa heimild í lögum til að miða við meðaltal mánaða. Það er nógu slæmt að opinber stofnun geti tekið sér þetta vald upp á sitt einsdæmi, en það er þó verra að Hagstofan ákveður að sleppa apríl mánuði alfarið úr ýmsum undirliðum vísitölunnar og miða einfaldlega við stöðu þeirra í mars,“

segir í tilkynningunni og bætt við að einfaldlega ætti að nota töluna núll í mælingum Hagstofunnar, í stað þess að sleppa út mánuðum:

„Svo dæmi sé tekið af hárgreiðslustofum, en útgjöld til þeirra fyrirfinnast ekki í bókhaldi einnar einustu fjölskyldu í apríl, er sá liður einfaldlega reiknaður eins og hann var í mars, á forsendum “ómælanleika” í apríl. Málið er að það er ekkert erfitt að mæla það sem ekkert er. Útkoman úr þeim mælingum er einfaldlega 0 og þannig ætti þessi liður að vera til lækkunar vísitölunnar.“

Getur ekki tekið sér slíkt bessaleyfi

Í tilkynningu HH er vitnað í töflu Hagstofunnar, hvar segir:

„Í apríl 2020 voru mörg fyrirtæki lokuð eða þjónusta ekki í boði vegna takmörkunar á samkomum vegna COVID-19 veirunnar. Verðmæling fyrri mánaðar var þá notuð til verðmats í mánuðinum. Þetta á við um flokka 07332 Flugfargjöld til útlanda, 096 Pakkaferðir, 1211 Hársnyrting, snyrting o.fl., og nokkra undirflokka í 062 Heilbrigðisþjónusta (t.d. tannlæknar og sjúkraþjálfun). Í eftirfarandi flokkum var nær allt lokað 0941 Íþróttir og tómstundir, 0942 Menningarmál. Að auki lokaði hluti veitinga- og kaffihúsa. Verði á fatnaði og skóm var safnað á netinu og með símtölum.“

Það er rétt að staldra við þetta. Hagstofan getur ekki tekið sér það bessaleyfi að miða við verð fyrri mánaðar þegar verðhjöðnun verður, ekki einu sinni þegar vara eða þjónusta nær hverfur af markaði vegna fordæmalauss ástands eins og nú er. Liðir geta horfið úr heimilisbókhaldi fjölskyldna t.d. vegna verðhækkana eða breytts neyslumynsturs, sem ætti þá að hafa áhrif til lækkunar.

Sterkur neytendaréttur

Neytendur skrifa undir ákveðnar forsendur vísitölunnar í samningi og enginn neytandi hefur nokkurn tíma skrifað undir lánssamning miðað við þessar breyttu forsendur! Enginn neytandi var heldur spurður um samþykki fyrir þeirri breytingu.

Neytandinn á rétt á því að miðað sé við vísitölu apríl mánaðar þó aðstæður séu óvenjulegar. Ef engar hárgreiðslustofur eru opnar, þá er verð þeirra kr. 0. Það er ekki ómælanlegt, það einfaldlega mælist 0 og á því að koma til lækkunar vísitölunni. Sama má segja um t.d. snyrtingu, nudd, sjúkraþjálfun og tannlækningar. Allir þessir þættir mælast nú 0 og vísitalan á að endurspegla það.

Alveg eins og að þær hækkanir sem urðu á vörum og þjónustu í kjölfar hrunsins höfðu bein áhrif til gríðarlegra hækkana á lánum heimilanna, þá hlýtur lækkun á vörum og þjónustu að hafa bein áhrif til lækkunar lána heimilanna.

Flugfargjöld til útlanda í vísitölunni ættu einnig að lækka því þó hugsanlegt sé að verð þeirra flugmiða sem þó seljast sé hærra en áður, er framboðið, þó lítið sé, samt meira en eftirspurnin. Þegar t.d. 8 farþegar fljúga milli Bandaríkjanna og Íslands, eins og við höfum staðfest dæmi um, er ljóst að hver og einn farþegi hefur gríðarlega mörg sæti til afnota. Útreikningar flugverðs inni í vísitöluna hljóta að þurfa að taka mið af þessum staðreyndum. Svo ætti Hagstofan að hafa frétt af því að eina flugfélagið sem hægt er að kaupa flugmiða hjá er hætt að selja í miðjusætin, þannig að fyrir verð eins miða fær maður 150% meira en áður sem jafngildir 33% verðlækkun miðað við óbreytt miðaverð. En í stað þess að þessar staðreyndir og það að eftirspurn eftir flugmiðum hefur hrapað niður úr öllu valdi, hafi áhrif til lækkunar vísitölunnar, þá er hún einfaldlega fryst í því sem hún var áður en Covid-19 kom til. Það er ekki ásættanlegt.

Dæmi tekin

Þá birta Hagsmunasamtökin eftirfarandi dæmi:

Dæmi um undirliði sem lækka en vekja engu að síður spurningar: 

Bensín 95 okt. – lækkar um 5,03%.
Það er hrun á eldsneytisverði um allan heim, auk þess sem bílaumferð hefur dregist mikið saman vegna ástandsins. Það er ánægjulegt að sjá lækkun á þessum lið en hún er minni en búast mætti við.

Safnliðurinn Hótel og veitingastaðir – lækkar um 0,22%.
Þetta er ótrúlega lítil lækkun. Herbergjanýting á hótelum núna er um 1%, þannig að jafnvel þó verðið á nóttinni hefði tvöfaldast er framboðið svo gríðarlegt umfram eftirspurn að verðlækkunin ætti að vera allt að 98% en ekki 0,22%. Raunveruleikinn hlýtur að vera þar á milli, því þegar hótelin eru svo til tóm ætti verðlækkun þar að mælast í tugum prósenta en ekki broti úr prósentu.

Athyglisverðir liðir sem hækka:

Kaffihús og barir – lækka um 0,26%.
Vegna samkomubanns eru nær öll kaffihús og barir lokuð. Hvað skýrir þessa hækkun?

Bílatryggingar – hækka um 0,33%.
Við skiljum ekki alveg hvað veldur því að þessi liður hækkar því við höfum ekki orðið vör við hækkanir hjá tryggingarfélögum heldur þvert á móti hafa þau tekið ákvarðanir um að koma til móts við neytendur með verulegum verðlækkunum í maí. Þó þær lækkanir séu ekki komnar til framkvæmda hafa heldur ekki verið neinar hækkanir í apríl. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Hagstofan metur það þegar allir hjá Verði fá þriðjungsafslátt (á öllum tryggingum) og allir hjá Sjóva 100% afslátt (af bílatryggingum) í vísitölu maí mánaðar – ætli þá verði notað meðaltal?

Íþróttaiðkun – hækkar um 0,77%.
Hvernig getur það staðist þegar allt skipulagt íþróttastarf liggur niðri?

Gisting – hækkar um 0,89%.
Hvaða gisting hefur hækkað? Það er enginn að kaupa gistingu neins staðar. Sjá að öðru leyti athugasemd að ofan varðandi herbergjanýtingu sem er núna 1% = 99% magnlækkun.

Þjónusta hótela og gistiheimila – hækkar um 1,87%.
Hótel eru flest næstum tóm eða hreinlega lokuð. Hvaða þjónusta hefur hækkað og hver nýtur þessarar þjónustu?

Flugfargjöld innanlands – hækka um 18,03%.
Þetta er gríðarleg hækkun og það er eitthvað verulega bogið við hana. Við höfum ekki upplýsingar um raunverulega sætanýtingu eða fjölda ferða, en samkvæmt Iceland Connect eru þrjár komur og þrjár brottfarir áætlaðar til og frá Reykjavík í dag, 30. apríl 2020. Það er gríðarleg fækkun frá því sem verið hefur. Þessi hækkun gengur alls ekki upp.

Ályktanir

Ofangreind dæmi staðfesta að það er fiktað með vísitöluna og þetta föndur sýnir allt saman fram á að vísitala neysluverðs er ónýtur mælikvarði á viðmið fyrir fjárskuldbindingar heimilanna. Hún mælir ekki lengur raunverð heldur er bara hugarleikfimi starfsfólks Hagstofunnar.

Það er einnig staðreynd, sem hefur ekkert með veiruna eða samdrátt í efnahagslífi að gera, að samdráttur í neyslu hefur aldrei haft nokkur áhrif til lækkunar vísitölu því hún mælir bara nafnverð en ekki magn þeirrar neyslu sem er á því nafnverði auk þess sem “óæskilegir” liðir eru einfaldlega fjarlægðir eða þeim einfaldlega breytt, eins og ofangreind dæmi sanna.

Þessi greining okkar leiðir í ljós að nafnverð vöru og þjónustu miðast ekki einu sinni við fasta einingastærð þannig að þó neytendur fái meira fyrir sama verð en áður þá mælist það samt ekki sem lækkun á verðlagi miðað við einingafjölda. Það er algjörlega óásættanlegt.

Þannig eru heimilin í þeirri vonlausu stöðu að alveg sama hvernig þau haga neyslu sinni er þeim gjörsamlega fyrirmunað að hafa áhrif á þróun vísitölunnar sem skuldbindingar þeirra miðast við.

Það má eiginlega segja að allir verðtryggðir samningar í landinu séu í uppnámi því viðmiðið er falsað. Þannig hefur það reyndar lengi verið, en blasir núna við hverjum sem það vill sjá.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Pétur Einarsson látinn
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr

Halla Hrund stóreykur fylgi sitt – Mælist með meira fylgi en Jón Gnarr
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja

Björn Jón skrifar: Ótrúlegur árangur íslenskra tæknifyrirtækja
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum

Framsókn baunar á Samfylkinguna sem undirbýr að taka við stjórnartaumunum
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að

Segja tillögu Einars fela í sér „afarkjör“ og hafa verið laumað að
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“

Sigurjón skammar smákóngana í stjórnsýslunni – „Það vita allir í kerfinu af þessari fyrirstöðu en aldrei skal hróflað við Smákónginum“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki

Lindarhvoll: Leyndarhyggjan enn við lýði – svör berast seint, illa eða ekki