fbpx
Mánudagur 25.maí 2020
Eyjan

Íbúðaskortur í kortunum innan fimm ára – Mikill samdráttur í byggingu íbúða milli ára – „Afgerandi skilaboð um stöðuna“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 27. mars 2020 09:32

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samkvæmt nýrri greiningu á talningu Samtaka iðnaðarins eru um 5.400 íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu og í nágrannasveitarfélögum. Alls 11% samdráttur mælist á höfuðborgarsvæðinu frá vortalningunni árið 2019, þar af 42% á fyrstu byggingarstigum, þ.e. að fokheldu.

Vegna þessa samdráttar, auk áhrifanna vegna kórónuveirunnar, er talið að á næstu árum muni færri íbúðir koma á markað en áætlað var og íbúðaskortur í kortunum innan fimm ára.

Talningin, sem gerð var áður en kórónuveirufaraldurinn lét að sér kveða í Evrópu, bendir til þess að meðalsölutími nýbygginga á höfuðborgarsvæðinu sé á uppleið en aukning er í fullgerðu húsnæði sem ekki hefur verið flutt inn í. Leita þarf aftur til áranna 2011-12 til að finna viðlíka samdrátt í byggingu íbúða innan höfuðborgarinnar. Nokkuð meiri samdráttur mælist innan nágrannasveitarfélaga en á höfuðborgarsvæðinu eða um 20% frá vortalningunni árið 2019 samanborið við 11% innan höfuðborgarinnar.

Afgerandi skilaboð

„Stóru tíðindin eru verulegur samdráttur í byggingum upp að fokheldu, þ.e.a.s. upp að fyrstu byggingarstigum, eða rúmlega 40%. Það eru afgerandi skilaboð um stöðuna. Þótt sjá megi krana víðs vegar um bæinn eru það fyrst og fremst verkefni sem fóru af stað fyrir löngu,“

segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka Iðnaðarins við Morgunblaðið í dag.

 

 

11% færri á höfuðborgarsvæðinu

Tæplega 4.500 íbúðir eru nú í byggingu á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt talningu SI. Mælist samdrátturinn um 11% frá vortalningunni árið 2019 samanborið við 22% aukningu milli áranna 2018 og 2019. Leita þarf aftur til áranna 2011-12 til að finna viðlíka samdrátt í íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Mestu munar um samdráttinn innan Reykjavíkur og Kópavogs en um 75% íbúða í byggingu á höfuðborgarsvæðinu eru innan þessara sveitarfélaga. Nemur samdrátturinn 3% innan Reykjavíkur milli mars 2019 og 2020 og 19% innan Kópavogs. Markar það mikinn viðsnúning frá fyrri árum en 53% aukning mældist í Reykjavík milli áranna 2018 og 2019 svo dæmi séu tekin. Um 94% íbúðabygginga á höfuðborgarsvæðinu eru í fjölbýli. Endurspeglar niðurstaðan þéttingarstefnu stærstu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu en ríflega helmingur íbúða í byggingu í Reykjavík og Kópavogi eru á þéttingarreitum.

Samkvæmt talningu SI eru 1.490 íbúðir á byggingarstigi 2 og 3 á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. að fokheldu. Nemur það 42% samdrætti frá talningunni í mars árið 2019. Tölurnar bera vott um mikinn viðsnúning í umsvifum en 25% aukning mældist milli vortalninga áranna 2018 og 2019.

Í talningum SI er íbúðarhúsnæði talið í byggingu þegar sökkull hefur verið reistur, þ.e. undirstöður byggingar. Byggingum á byggingarstigi 2 hefur fækkað til muna síðustu tvö árin eða um 65% frá árinu 2018. Álykta má því að nokkur minnkun sé framundan í framboði nýbygginga miðað við það sem hefur verið.

Fjölgun er hins vegar í íbúðum sem eru fokheldar og lengra komnar. Þær eru nú 2.962 sem er fjölgun um 22% frá vortalningu 2019 og 6% frá hausttalningunni 2019. Hluti þessara íbúða eru þegar fullbúnar og komnar í sölu en samkvæmt talningunni eru 722 íbúðir sem ekki hefur verið flutt inn í. Nemur það 16% af heildarfjölda íbúða í talningunni sem er umtalsverð aukning frá 2019. Gefur þetta til kynna hækkandi meðalsölutíma nýbygginga.

20% færri íbúðir í byggingu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins

941 íbúð eru í byggingu í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins. Nemur samdrátturinn um 20% frá talningu í mars 2019 sem er nær tvöfalt á við samdráttinn á höfuðborgarsvæðinu frá sömu talningu. 44% samdráttur er í íbúðum á byggingarstiginu „að fokheldu“ sem er í takt við þróunina á höfuðborgarsvæðinu. 52% íbúða í talningu í nágrannasveitarfélögum eru í fjölbýli. Það er þó nokkuð frábrugðið frá höfuðborgarsvæðinu þar sem 94% eru í fjölbýli. Endurspeglar þetta m.a. hátt lóðaverð á höfuðborgarsvæðinu og mismunandi áherslur sveitarstjórna.

Fjöldi íbúða í byggingu á Norðurlandi eykst

Samtök iðnaðarins hófu talningu á íbúðum í byggingu á Norðurlandi í mars árið 2010. Uppbyggingin hefur verið nokkuð sveiflukennd frá þeim tíma en fjöldi íbúða í byggingu nú eykst milli ára um 9%. Fjöldi íbúða að fokheldu eykst um 90% milli talninga sem gefur til kynna aukin umsvif í nýbyggingum á Norðurlandi.

Talning SI á íbúðum í byggingu hefur undanfarin ár borið með sér að framundan væri vaxandi fjöldi fullbúinna íbúða að fara á markað. Ákveðin vatnaskil urðu í þeim efnum í september-talningu SI á síðasta ári en sú talning benti til þess að fjöldi fullbúinna íbúða myndi fækka á næstu misserum. Talning SI nú sýnir þessa þróun einnig en að fækkun fullbúinna íbúða verði enn meiri en fyrri spá SI gerði ráð fyrir.Í nýrri spá SI nú í mars 2020 er gert ráð fyrir að 2.107 íbúðir verði fullbúnar á höfuðborgarsvæðinu og nágrannasveitarfélögum á þessu ári. Það eru rúmlega 30% færri fullbúnar íbúðir en SI spáðu fyrir árið 2020 í mars árið 2019. Samkvæmt nýrri spá verða þá enn færri íbúðir fullbúnar á árinu 2021 eða 1.948 sem er rúmlega 40% samdráttur frá vorspánni 2019. Út frá talningunni á Norðurlandi má reikna með því að fullbúnar íbúðir verði 221 í ár og 244 á næsta ári.

Hér er hægt að nálgast greiningu SI á nýrri talningu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Telja frumvarp forsætisráðherra brjóta gegn stjórnarskránni og EES-samningnum

Telja frumvarp forsætisráðherra brjóta gegn stjórnarskránni og EES-samningnum
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Börn Steingríms hafa leynt fyrir honum aðkastinu

Börn Steingríms hafa leynt fyrir honum aðkastinu
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Framlag ríkisins til aðgerðaráætlunar fyrir Suðurnesin alls 250 milljónir

Framlag ríkisins til aðgerðaráætlunar fyrir Suðurnesin alls 250 milljónir
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Brynjar vísar ásökunum um leti á bug – „Ég er í liði – Einkaflipp eru ekki vel séð“

Brynjar vísar ásökunum um leti á bug – „Ég er í liði – Einkaflipp eru ekki vel séð“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ekki fleiri monthús í miðbæinn

Ekki fleiri monthús í miðbæinn
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Kallað eftir ofursköttum vegna „sumargjafar“ Samherja

Kallað eftir ofursköttum vegna „sumargjafar“ Samherja
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Ragnar Þór vill bjarga Icelandair – „Er þetta virkilega leiðin sem við viljum fara?“

Ragnar Þór vill bjarga Icelandair – „Er þetta virkilega leiðin sem við viljum fara?“
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Óvissa með níu milljarða skuld Icelandair

Óvissa með níu milljarða skuld Icelandair