fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Eyjan

Ein elsta kvikmynd heims í nútímabúningi

Egill Helgason
Miðvikudaginn 5. febrúar 2020 12:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Lumière bræðurnir frönsku, Auguste og Louis, er meðal helstu frumkvöðla kvikmyndanna. Tækni þeirra gerði mönnum kleift að taka kvikmyndir og sýna þær fyrir sal af fólki. Þeir héldu fyrstu kvikmyndasýninguna aðgangseyri í París 22. mars 1895. Það er reyndar merkilegt að þeir dóu báðir háaldraðir menn, Louis 1948 og Auguste 1954, náðu þannig að sjá gríðarlegar framfarir í þessari tækni sem þeir fundu upp. Sjálfir voru þeir hættir að fást við kvikmyndir 1905, eins merkilegt og það kann að virðast. Aðrir tóku við keflinu.

Lumière bræðurnir efndu til kvikmyndasýninga fyrir almenning – það var líka nýung. Þeir sýndu stuttar myndir og fólki fannst óskaplega merkilegt að sjá persónur og hluti hreyfast á á tjaldinu. Það er sagt að mörgum hafi brugðið í brún, sumir orðið skelkaðir.

Frægasta mynd Lumière bræðranna er Lest kemur á La Ciotat brautarstöðina frá 1896. Sagt er að fyrstu áhorfendunum hafi fundist eins og lestin væri að bruna á sig. En tækni fleygir stöðugt áfram og hér er ný útgáfa af þessari mynd sem er að finna á YouTube. Upprunalega útgáfan var auðvitað óskýr og móskuleg og höktandi, en þarna hefur tölvutækni verið notuð til að gera myndina ofurskýra þannig að við sjáum persónurnar mjög glöggt auk þess sem dýptin í myndinni virðist meiri, það er nánast eins og við séum stödd á lestarstöðinni.

Það er Denis nokkur Shirayev en með aðstoð gervigreindar uppskalar hann myndina í 4K – það má lesa nánar um ferlið hér. Ég skil þetta ekki alltof vel sjálfur en það er vel þess virði að kíkja á þetta verk Lumière bræðranna í þessari útgáfu, 125 árum eftir að upprunalega myndin var tekin. Svo er spurning hvort við viljum láta gera svona við fleiri myndir, það ætti að vera auðveldlega hægt, en kærum við okkur um það?

Stækkið myndina endilega til að sjá betur – en hafið líka hugfast að þarna hefur hljóðum líka verið bætt inn, mynd bræðranna frönsku var hljóðlaus.

 

https://www.youtube.com/watch?v=3RYNThid23g&feature=share&fbclid=IwAR0PDWtBdiB8tU3FTJBJ-vFq3UzDf9pEcRFXDgENQWyoB675Elo0oLGq3KE

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt