fbpx
Sunnudagur 05.apríl 2020
Eyjan

Þórir gagnrýnir Eflingu – Segir ekkert hafa gerst sem réttlæti að setja lífskjarasamninginn í uppnám

Ágúst Borgþór Sverrisson
Mánudaginn 24. febrúar 2020 18:02

Þórir Guðmundsson - Skjáskot Hringbraut

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Verði gengið að kröfum um meiri launahækkanir en samið var um í lífskjarasamningnum þá er friðurinn úti á vinnumarkaðnum í heild sinni,“ skrifar Þórir Guðmundsson, ritstjóri fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjunnar, í pistli á Vísi.

Þórir fer þar yfir stöðuna í kjaradeilum og áfellist Eflingu og önnur stéttarfélög fyrir að krefjast launahækkana sem séu umfram hækkanir lífskjarasamningsins. Í lífskjarasamningnum í apríl í fyrra var samið um allnokkrar krónutöluhækkarnir til lægstlaunaðra á meðan hærra launaðir fengu minni hækkanir. Þeir samningar voru við einkamarkaðinn en nú sé verið að freista þess að knýja fram meiri hækkanir hjá ríkinu og sveitarfélögum. Þórir skrifar:

„Verði gengið að kröfum um meiri launahækkanir en samið var um í lífskjarasamningnum þá er friðurinn úti á vinnumarkaðnum í heild sinni.

Almennt launafólk sætti sig í fyrra við krónutöluhækkanir í ljósi ástandsins í efnahagslífinu og sem framlag til jöfnuðar í samfélaginu. Fyrir marga launamenn var lífskjarasamningurinn fórn. Fólk með meðaltekjur og þar yfir tók með honum þátt í að lyfta fólki á lægstu launum gegn því að bera hlutfallslega minna úr býtum sjálft.

Þetta fólk mun ekki láta það yfir sig ganga að opinberi markaðurinn stökkvi framúr. Það mun nota hvert tækifæri til að fá sams konar hækkanir eða meiri og þá fer verðbólguhjólið af stað. Miðað við yfirlýst tilboð Reykjavíkurborgar til Eflingar þá virðist stærsti vinnuveitandinn meðal sveitarfélaga þegar hafa gengið lengra en einkageirinn gerði fyrir ári.“

Þórir segir að kjör hinna lægst launuðu hafi verið bætt í lífskjarasamningnum og þar hafi tónninn verið gefinn. Ótækt sé að krefjast meiri hækkana úr opinberum sjóðum. Lífskjarasamningurinn hafi verið gerður í erfiðri stöðu í efnahagslífinu og sú staða hafi ekkert batnað. Ekkert hafi gerst síðan í apríl í fyrra þegar lífskjarasamningarnir voru undirritaðir sem réttlæti að setja þá í uppnám.

Þórir segir síðan:

„Dæmin um kauphækkanir hjá hinu opinbera eru ekki til eftirbreytni. Skemmst er að minnast ótrúlegra hækkana sem nánustu samstarfsmenn fyrrverandi ríkislögreglustjóra fengu síðastliðið haust og hækkana sem kjararáð sáluga úthlutaði og voru sem innspíting eiturs í kjaraviðræður árum saman.

Ríki og sveitarfélög þurfa að hafa hugfast að samningar á komandi vikum snúast ekki bara um kjör starfsmanna þeirra. Þeir snúast um stríð og frið á vinnumarkaði. Ef hið opinbera endar á að yfirbjóða einkageirann þá er úti um friðinn.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Samdráttur í afkomu Isavia – „Gríðarmikil óvissa með framhaldið“

Samdráttur í afkomu Isavia – „Gríðarmikil óvissa með framhaldið“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sjáðu hvað það kostar þig að fá greiðslufrest lána – Þetta eru úrræði lánastofnana og leigufélaga

Sjáðu hvað það kostar þig að fá greiðslufrest lána – Þetta eru úrræði lánastofnana og leigufélaga