fbpx
Fimmtudagur 09.apríl 2020
Eyjan

Tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins greiddu atkvæði með lokun Laugavegar – „Svik, lygar og prettir lýsa best vinnubrögðum meirihlutans“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 19:51

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Samþykkt var með 15 atkvæðum gegn 8 í Borgarráði í gær tillaga meirihluta borgarstjórnar að nýju deiliskipulagi sem gerir ráð fyrir að hluti af  Laugavegi í Reykjavík verði göngugata varanlega. Mikið hefur verið deilt um þessi áform og margir verslanaeigendur við götuna lagst hart gegn þeim. Meðal þeirra sem greiddu atkvæði með tillögunni voru tveir borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, þær Katrín Atladóttir og Hildur Björnsdóttir. Auk þeirra greiddu allir borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri Grænna atkvæði með tillögunni. Þau sem voru á móti voru: Eyþór Arnalds, Valgerður Sigurðardóttur, Ragnhildar Alda Vilhjálmsdóttir, Þórdís Pálsdóttir, Marta Guðjónsdóttir og Jórunn Pála Jónasdóttur úr Sjálfstæðisflokknum og borgarfulltrúar Miðflokksins og Flokks fólksins.

Tillagan felur í sér breytingu á deiliskipulagi sem gerir kleift að fara í framkvæmdir á yfirborði götunnar. Lokunin mun taka til neðsta hluta götunnar sem núna er lokaður yfir sumartímann. Í tillögunni er gert ráð fyrir samráði við kaupmenn í götunni um þær framkvæmdir sem farið verður í.

Borgarfulltrúi Miðflokksins lagði fram harðorða bókun í málinu þann 11. febrúar:

„Svik, lygar og prettir lýsa best vinnubrögðum meirihlutans í þessu máli. Að engu voru höfð fyrirheit borgaryfirvalda til rekstraraðila og eiganda atvinnuhúsnæðis á svæðinu að göturnar yrðu opnaðar á nýjan leik hinn 1. október sl. Farið var þess í stað í varanlega skyndilokun. Það mætti halda að fulltrúar meirihlutans séu bæði blindir og heyrnarlausir. Í það minnsta hefur gegndarlaus gagnrýni á að loka hluta Laugavegs, Skólavörðustígs og Vegamótastígs fyrir bílaumferð og gera þær götur að varanlegum göngugötum ekki farið framhjá almenningi. Boðað er að unnið verði að hönnun ýmissa lausna til að bæta götuna og umhverfið og gert er ráð fyrir að endurnýja allt yfirborð, gróður, götugögn og lýsingu m.m. Útsvarsgreiðendur eru hér með upplýstir að samkvæmt fyrstu kostnaðaráætlun átti það verk að kosta 600 milljónir. Frá því hefur nú verið fallið og boðið upp á smáskammtalækningar með minni kostnaði. Kjarkurinn er að bresta. Með Tryggvagötu, Óðinstorgi og Hverfisgötu eru lagfæringar í 101 komnar langt yfir 2 milljarða. 2.000 milljónir í vita gagnslaus gæluverkefni á meðan grunnstoðir svelta. Fjárheimild fyrir árið 2020 í Laugavegsverkefnið er 100 milljónir. 100 milljónir í að leika sér með blómaker, bekki og blúndur. Þvílík sóun á fjármunum. Minnt er á að nýbúið er að taka Laugarveginn allan í gegn með tilheyrandi kostnaði fyrir útsvarsgreiðendur. Þetta er nokkurskonar hreinræktuð þráhyggja gagnvart þessu svæði.“

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi bókun frá 13. febrúar:

„Í sáttmála flokkanna sem mynda meirihluta í Reykjavík segir: „Við ætlum að gera Laugaveginn að göngugötu allt árið og fjölga göngusvæðum í Kvosinni.“ Hér er verið að samþykkja 1. áfanga af varanlegri göngugötu á Laugaveginum, áfanga sem nær meðal annars frá Ingólfsstræti að Klapparstíg. Aukin áhersla á göngusvæði er hluti af þróun sem á sér stað víða um heim, í mörgum borgum á ólíkum lengdar og breiddargráðum. Þegar sífellt fleiri keppa um sama svæðið verður mikilvægara að við gefum gangandi og hjólandi aukið pláss. Með göngugötum erum við að styðja við umhverfisvænni ferðamáta og skapa líflegri borg til framtíðar fyrir fólk og umhverfi. Við fögnum þessum áfanga.“

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ásmundur segir Vinnumálastofnun að horfa framhjá lagabókstafnum – Sjötugir og eldri mega sækja um bætur

Ásmundur segir Vinnumálastofnun að horfa framhjá lagabókstafnum – Sjötugir og eldri mega sækja um bætur
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hörður svarar „ómerkilegu bragði“ heimildamanna Moggans – „Ýta undir algengan misskilning“

Hörður svarar „ómerkilegu bragði“ heimildamanna Moggans – „Ýta undir algengan misskilning“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Icelandair er ekki að verða gjaldþrota“ segir forstjórinn sem hyggst ekki leita á náðir ríkisins

„Icelandair er ekki að verða gjaldþrota“ segir forstjórinn sem hyggst ekki leita á náðir ríkisins
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Krefjast þess að Creditinfo-Lánstraust hætti skráningum á vanskilaskrá

Krefjast þess að Creditinfo-Lánstraust hætti skráningum á vanskilaskrá