fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Eyjan

„Það er komið nóg, Vigdís Hauksdóttir“ – Vigdís fordæmir „bræðiskast“ borgarstjóra

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Braggamálið var rætt á fundi borgarstjórnar í gær. Ný skýrsla borgarskjalavarðar er tilefnið að þessu sinni, en hún er ansi svört þar sem starfsmenn borgarinnar eru sagðir hafa brotið gegn lögum um skjalavörslu og meðhöndlun upplýsinga, líkt og fjallað hefur verið um. Meirihlutinn vill þó meina að ekkert nýtt sé í skýrslunni, umfram það sem fram kom í skýrslu Innri endurskoðanda Reykjavíkur, en það er ekki rétt, samkvæmt borgarskjalaverði.

Sjá nánar: Þórdís Lóa og Reykjavíkurborg sögðu ósatt um braggaskýrsluna – „Það er ekkert nýtt í þessari skýrslu“

Komið nóg, Vigdís

Vigdís viðhélt gagnrýni sinni í braggamálinu í ræðustól ráðhússins í gær, sagði borgarstjóra ekki svara fyrir málið, lögbrotin, eyddu tölvupóstana og allt það sem miður hefði farið.

Borgarstjóri tók loks síðastur til máls og las upp úr frétt RÚV frá 9. febrúar árið 2016, þar sem Vigdís er gagnrýnd af embættismönnum og þáverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktssyni, fyrir ásakanir sínar í garð embættismanna Ríkisendurskoðunar og fjármálaráðuneytisins og annarra, en Vigdís var þá formaður fjárlaganefndar Alþingis.

Borgarstjóri lýsti fyrst hversu mikil upplifun það hefði verið fyrir hann að „hnjóta“ um fréttina af Vigdísi:

„Ég man hvað það var mikil, svona eiginlega upplifun fyrir mig, þegar að fyrir röð tilviljana, ég hnaut um samantektarfrétt…“

Í lokin sagði svo borgarstjóri:

„Þetta er aðferð Vigdísar Hauksdóttur borgarfulltrúa í pólitík og hefur verið í næstum því 10 ár. Þannig að ég bið borgarstjórn og aðra áheyrendur að gera ekkert með það sem borgarfulltrúin slengir fram nema fyrir því séu frekari rök en orð borgarfulltrúans. Það er bara því miður þannig og þeir sem vilja kíkja á þessa samantekt RÚV, vísa ég á fréttina frá 9. febrúar 2016. Þetta er orðið lengra mál um þetta en ég kæri mig um en ég get bara ekki, sem framkvæmdastjóri þessarar borgar með 9 þúsund manns í vinnu, sem þurfa að búa við það að hér sé verið að dreifa ásökunum, dylgjum, beint og óbeint, úr ræðustól þar sem fólk getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Það er komið nóg, Vigdís Hauksdóttir borgarfulltrúi.“

Vigdís var ekki sátt við þennan upplestur borgarstjóra og kallaði úr fundarsalnum:

„Snýst braggamálið um Vigdísi Hauksdóttur?“

Bræðiskast

Vigdís skrifar síðan færslu á Facebook í gærkvöldi undir yfirskriftinni „Braggabókun – eftir bræðiskast borgarstjóra“.

Þar segir:

„Borgarstjóri er komin upp að vegg og kýs í lokin að ráðast að persónu minni með því að lesa upp níðfrétt sem birt var um mig á RÚV árið 2016.
Vel gert borgarstjóri – borgarstjóri hefur sér engar málsbætur.“

Fullyrðingar Vigdísar um bræðiskast hjá borgarstjóra eru líklega nokkuð ýktar , en fyrir þá sem vilja dæma fyrir sig sjálfa, er myndbandið hér.

Hefst upplestur borgarstjóra um 7:37:10

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt