Mánudagur 30.mars 2020
Eyjan

Rof í þagnarhjúpinn

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 19. febrúar 2020 08:51

Jón Steinar Gunnlaugsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Jón Steinar Gunnlaugsson ritar:

Þar kom að því að Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar, kæmi aðeins undan þagnarhjúpnum sem hann hefur falið sig í, þegar ég hef vakið máls á því sem aflaga hefur farið í Hæstarétti og hvað gera þurfi til úrbóta. Því fagna ég auðvitað enda hef ég endurtekið óskað eftir umræðum um þessi málefni á opinberum vettvangi.

Þetta gerðist á hátíðarfundi Hæstaréttar s.l. sunnudag, þar sem Markús flutti erindi um Hæstarétt í aldarspegli. Það var greinilega þykkja í ræðumanninum, sem mér heyrðist aðallega beinast að mér, þó að ekki væri ég nafngreindur. Þetta má telja eðlilegt því það hefur komið í minn hlut að undanförnu að rekja feril hans í dómsýslunni gegnum árin og afar gagnrýnisverða athafnasemi hans á þeim vettvangi. Vísast til greina minna á jsg.is „Dómari lætur af störfum“ og „Hugleiðingar um siðblindu“ sem þar birtust í ágúst og október á síðasta ári.

Gremja hans í minn garð skiptir svo sem ekki miklu máli. Miklu fremur er ástæða til að ræða eitthvað af því sem gremjunni veldur og hann drap á í ræðu sinni.

Skipun nýrra dómara

Ég hef lagt til, að áhrif sitjandi starfandi dómara á skipun nýrra dómara verði með öllu numin úr lögum. Samkvæmt 14. gr. stjórnarskrárinnar skal ráðherra „bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum“. Undir það fellur skipun nýrra dómara. Með lagabreytingu á árinu 2010 var, fyrir atbeina Markúsar og fleiri lögfræðinga, þetta vald fært til lögfræðinganefndar, sem dómaraelítan hafði undirtökin í, en enga ábyrgð ber á verkum sínum.

Ég hef gert athugasemdir við þetta. Annars vegar vegna þess að þetta fyrirkomulag stenst ekki fyrrgreinda reglu stjórnarskrárinnar. En einnig vegna þess að fyrirkomulagið hefur leitt það af sér, að ábyrgðarlaus dómaraelítan hefur reynst misfara gróflega með þetta vald. Hafa verið settir efst á blað gamlir skólabræður og vinir sitjandi dómara og þá teknir fram yfir lögfræðinga sem á allan hefðbundinn mælikvarða hafa talist meiri kostum búnir til að fá skipun í lausa stöðu. Það hefur þannig sýnt sig að dómarahópurinn hefur orðið það sem ég hef nefnt sjálftímgandi.

Pólitísk misnotkun

Ég hef svo fallist á það með Markúsi og hinum að huga verði að skipan á þessu sem hindrar ráðherra í að misbeita þessu valdi sínu á grundvelli pólitískrar afstöðu umsækjenda. Í ritgerð sem ég skrifaði á árinu 2013 segir svo um þetta: „Ég tel að taka beri upp á ný þá skipan að ráðherra ákveði hvern skipa skuli og beri hann stjórnskipulega ábyrgð á þeirri stjórnarathöfn. Til greina kæmi að láta umsagnarnefnd segja til um hæfni dómaraefna. Hæstiréttur eða ráðandi hópar innan dómskerfisins ættu hins vegar ekki að koma nálægt skipan slíkrar nefndar. Hún gæti fremur verið skipuð samkvæmt tilnefningum frá félögum lögmanna og dómara og jafnvel fulltrúum frá lagadeildum háskólanna. [Hér kemur næst kafli um þá kosti umsækjenda sem mestu ættu að skipta við umsögn þessarar nefndar.]

Mat svona nefndar ætti að verða bundið við að segja aðeins til um hæfni hvers einstaks umsækjanda en ekki að raða þeim upp innbyrðis, þar sem seilst er um of til áhrifa á veitingarvaldið með slíkri uppröðun. Mér finnst einnig vel koma til greina að taka hér upp það kerfi sem þekkist erlendis, til dæmis í Bandaríkjunum, að meirihluti þingmanna staðfesti ákvörðun ráðherra um skipun í dómaraembætti við Hæstarétt. Sá sem ráðherra vildi skipa, ætti þá að þurfa að mæta fyrir þingnefnd og svara spurningum um viðhorf sín til grundvallarþátta í starfsemi dómstóla, svo sem um valdmörk þeirra, aðferðir við túlkun á stjórnarskrá, heimildir til þess að beita erlendum lagareglum sem ekki hafa verið lögfestar hér á landi o.s.frv. Heimila ætti fjölmiðlum að senda beint út frá þessum spurningatíma.

Við þetta myndi tvennt vinnast. Í fyrsta lagi yrði þing og þjóð einhvers vísari um viðhorf dómaraefnis til meginatriða sem snerta dómstólastarfið. Í öðru lagi, og það er ekki þýðingarminna, hefði væntanlegur dómari verulegt gagn af því að gera sjálfum sér í heyranda hljóði grein fyrir starfsskyldum sínum, að því er snertir meginatriði í dómsýslunni, áður en hann tekur til starfa, því hann er líklegri til þess að fara eftir þeim í starfinu, hafi hann gert það. Meðal annars er þýðingarmikið að sá sem vill verða dómari geri sér sjálfum grein fyrir þeim takmörkunum sem gilda um valdheimildir dómstóla. Þeim beri í embættisverkum sínum að fara einungis eftir lögunum, eins og þetta er orðað í upphafsákvæði 61. gr. stjórnarskrárinnar, og sé óheimilt að víkja frá þeim í þágu huglægra viðhorfa eða þrýstings frá öðrum. Fá þarf svör frá þeim um afstöðu þeirra til þessara mikilvægu atriða áður en skipun þeirra er endanlega ráðin.

Verði niðurstaða Alþingis sú að hafna þeim umsækjanda sem ráðherra hefur valið myndi hann þurfa að velja annan úr umsækjendahópnum. Til þess gæti einnig komið að auglýsa þyrfti embættið á ný. Um þetta þyrfti að setja skýrar reglur í lög.“

Þýðingarlaust innlegg

Þegar Markús Sigurbjörnsson velur sér hátíðarfund vegna afmælis Hæstaréttar til að ræða um þetta málefni ætti hann ekki að láta við það sitja að segja með þótta að skipunarvald ráðherra skerði sjálfstæði dómsvaldsins. Hann ætti að ræða ástæðurnar fyrir því að valdsækni hans á þessu sviði hefur verið gagnrýnd og skýra hvernig sjálfdæmi ábyrgðarlauss dómarahópsins fær staðist skýra stjórnarskrárreglu. Meðan hann ræðir ekki þessa þætti málsins er ræða hans þýðingarlaus. Það sýnir sig kannski í þessari einræðu, að þeir sem aldrei hafa þurft að takast á við aðra í málflutningi kunna illa að flytja fram sjónarmið sem máli geta skipt og eru öndverð öðrum sjónarmiðum.

Það er svo hrein fjarstæða að telja þetta vald þurfa að vera í höndum sitjandi dómara vegna kröfunnar um aðskilnað valdþátta ríkisins. Sá aðskilnaður felst í kröfunni um að dómendur skuli einungis dæma eftir lögunum. Hann ætti líka að skilja að ábyrgð ráðherra á ákvörðunum um þetta efni er virk, þar sem hann þarf að sækja umboð til kjósenda í kosningum. Vissulega má finna dæmi úr fortíðinni um pólitíska misnotkun á þessu valdi, en þá var fjölmiðlun minni og aðhald almennings veikara heldur en nú og oftast ólíklegt til að hafa mikil áhrif.

Kannski gefst tilefni til að víkja síðar að öðrum þáttum í hátíðarræðu forsetans fyrrverandi. Sjáum til.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Föst í óttafangelsi
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Setur milljarð í Innviðauppbygging heilbrigðiskerfisins á þessu ári vegna Covid-19

Setur milljarð í Innviðauppbygging heilbrigðiskerfisins á þessu ári vegna Covid-19
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Arndís Soffía skipuð sýslumaður í Vestmannaeyjum

Arndís Soffía skipuð sýslumaður í Vestmannaeyjum
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Morgunblaðið efast um aðgerðir sóttvarnarlæknis – „Er víst að það sé áhættunnar virði?“

Morgunblaðið efast um aðgerðir sóttvarnarlæknis – „Er víst að það sé áhættunnar virði?“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Uppsagnir á Akranesi – „Ég fékk þau döpru tíðindi áðan“

Uppsagnir á Akranesi – „Ég fékk þau döpru tíðindi áðan“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Útgerðirnar vilja frestun veiðigjalda vegna Covid-19 – Segja rekstrarforsendur brostnar

Útgerðirnar vilja frestun veiðigjalda vegna Covid-19 – Segja rekstrarforsendur brostnar
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stjórnmálaprófi Viðreisnar ætlað að stytta stundirnar – „Hvaða flokkur lofaði að fækka jólasveinunum úr 13 í 9?“

Stjórnmálaprófi Viðreisnar ætlað að stytta stundirnar – „Hvaða flokkur lofaði að fækka jólasveinunum úr 13 í 9?“