fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Eyjan

Hin víðförla mamma mín níutíu ára

Egill Helgason
Miðvikudaginn 12. febrúar 2020 19:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Móðir mín, Guðrún Margot Ólafsdóttir, er níutíu ára í dag. Um hana er margt að segja, meðal annars má geta þess hvað hún er mild og góð, kurteis og fáguð, gáfuð og dugleg.Það má líka nefna að hún er afskaplega óþolinmóð og á stundum erfitt með að dylja það. Hún getur verið fjarska hirðusöm, en á sama tíma fylgdumst við systir mín stundum með því í forundran þegar mamma var að fara til útlanda snemma um morgun, var ekki byrjuð að pakka um miðnættið, átti til að vaka alla nóttina og fara svo í flug.

Mamma er fjarskalega víðförul. Hún er fædd  í Kína, lengst inni í landi þar sem afi minn Ólafur Ólafsson og amma mín Herborg Eldevik, voru kristniboðar. Mamma talaði kínversku þegar hún var lítil stelpa alveg eins og innfædd. Svo komu þau systkinin heim, þóttu skrítin fyrir vikið, voru kölluð „kínversku börnin“,  öll slökktu þau á kínverskunni í sér. Mamma var líka alin upp talandi norsku, lærði ekki íslensku fyrr en hún var komin á níunda ár.

Hún er alltaf ævintýraleg í huga mér sigling fjölskyldunnar heim. Það var byrjað strið milli Japana og Kínverja. Óaldaflokkar, ræningjar og kommúnistar, óðu uppi – þau urðu að flýja til strandar, sigldu niður Han-ánna, þaðan um Yangtse-fljót, neyddust til að sigla í einhverja daga  um skurði og síki til að forðast tundurdufl sem höfðu verið lögð i fljótið,  fimm ung börn og foreldrar þeirra. Mamma er þarna til hægri, en hin systkinin eru Jóhannes, Haraldur, Rannveig og Hjördís.

 

 

Frá Shanghai sigldu þau um Hong Kong, Singapore og Ceylon,  gegnum Súezskurðinn, alla leið til Hamborgar, það var á einu af hinum stóru farþegaskipum þess tíma, Gneisenau hét það, sigldi undir hakakrossfána, og var seinna sökkt í stríðnu.

Þetta eru semsagt æskuminningar mömmu. Á myndinni hér fyrir neðan er hún að blasa í blöðru á þilfari Gneisenau.

 

 

Síðar á ævinni lagðist hún í mikil ferðalög. Stundaði háskólanám í Osló eftir stúdentspróf.  Seinna varð hún einna fyrst Íslendinga til að fara til Kína eftir að landið opnaðist aftur. Fór um hásléttur Eþíópíu með Haraldi bróður sínum sem þar var við kristniboð og hjálparstörf. Ók á Volkswagen-bjöllu um Mexíkó. Var við háskóla í Bandaríkjunum, meðal annars í Phoenix í Arizona þar sem hún hugðist fara ferða sinna fótgangandi. Það gekk víst ekki og hún varð sér úti um bíl.

Hún fór inn í miðja áströlsku eyðimörkina, um Miðausturlönd, til Óman, Íran, til Líbýu og á marga fleiri staði. Mér fannst stundum skrítið hvernig hún færi að þessu – því mamma getur verið dálítið utan við sig. En hún rataði alltaf.

Þessi ferðalög voru mömmu mikilvæg. Frá blautu barnsbeini var hún forvitin um framandi þjóðir og ólíkt fólk – lagði enda stund á landafræði i háskóla. Hún hefur aldrei sóst eftir efnislegum gæðum, í raun verið afar nægjusöm í lífi sínu, alin upp í guðrækni og góðum siðum en alltaf frjálslynd og skilningsrík.

Mikill hluti ævi hennar hefur verið helgaður kennslu. Mér þykir afar vænt þegar gamlir nemendur hennar, sumir úr landsprófsdeildum í Vonarstræti, aðrir úr Kennaraskólanum og enn aðrir úr Háskóla Íslands nefna við mig að þeir hafi notið kennslu hjá mömmu. Eins og er um góða kennara hefur hún snert margt fólk og ég veit að margir minnast hennar með þakklæti og hlýhug.

Mamma er eins og áður segir níræð í dag, 12. febrúar. Hún á við heilabilun að stríða og dvelur nú á hjúkrunardeild á Grund. Við systkinin heimsóttum hana í dag og við hlustuðum saman á Ja vi elsker dette landet, norska þjóðsönginn. Mamma lærði  hann sem barn, hefur líklega sungið hann í skóla, og hann vekur hjá henni eitthvert líf og minningar þegar því miður er slokknað á flestu öðru.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni

Varaþingmaður Samfylkingarinnar yfirgefur flokkinn – Segir Samfylkinguna hafa sofnað á mannréttindavaktinni
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður

Ólafur Þ. Harðarson: Þurfum mjög hæfan forseta – þarf alls ekki að vera stjórnmálamaður
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins

Ólafur Þ. Harðarson: Sjálfstæðismenn aðeins einu sinni fengið sinn forseta – sá var fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni

Óttar Guðmundsson skrifar: Óæskilegt lesefni
Eyjan
Fyrir 6 dögum

800 milljóna halli en þokast í rétta átt

800 milljóna halli en þokast í rétta átt
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins

Þorsteinn Siglaugsson skrifar: Gervigreind og máttur tungumálsins