fbpx
Föstudagur 22.janúar 2021
Eyjan

Helgi Magnússon varar við taumlausri útþenslu ríkisbáknsins – „Við getum ekki bara látið eins og þetta sé allt í lagi“

Heimir Hannesson
Miðvikudaginn 30. desember 2020 14:30

samsett mynd

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Helgi Magnússon, fjárfestir og stjórnarformaður Torgs ehf., fer mikinn í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Þar vekur hann athygli á stórauknum útgjöldum ríkissjóðs og segir aukninguna „taumlausa.“ Torg ehf. á meðal annars DV og DV.is.

Fyrir utan veiruvandann sem hrjáð hefur landsmenn er taumlaus útþensla ríkisbáknsins ein helsta ógnin við íslenska hagkerfið nú sem stendur. Vonandi sjáum við fyrir endann á veiruvandanum þegar bólusetningar fara að hafa áhrif til góðs sem væntanlega verður fljótlega á nýja árinu,“ skrifar Helgi. „Aftur á móti bendir ekkert til þess að við munum sjá nokkurt lát verða á útþenslu ríkisbáknsins. Það er stórháskalegt og getur haft alvarlegar afleiðingar ef ekki verður hugarfarsbreyting meðal æðstu ráðamanna ríkisins.“

Helgi bendir þó á að ekki sé „amast við því“ að ríkið eyði fjármunum í grunnþjónustu líkt og heilbrigðisþjónustu. Þess í stað vísar Helgi til óráðsíu og tekur þreföldun á framlagi hins opinbera til stjórnmálaflokka og fjölda aðstoðarmanna þingflokkanna sem dæmi. Aðstoðarmennirnir eru nú 28 talsins. „Lengst gengur endaleysan á því sviði hjá þingflokki sem telur tvo þingmenn en hefur þrjá aðstoðarmenn á launum hjá skattgreiðendum! Umrætt fyrirkomulag er vitanlega galið og hreinn dónaskapur við eigendur ríkissjóðs, skattgreiðendur sem þurfa að borga brúsann,“ skrifar hann.

Segir viðbyggingu Alþingis „monthús“

Helgi beinir þá sjónum sínum að viðbyggingu Alþingis, en við hlið gamla Alþingishússins á að reisa fimm hæða „glæsihýsi undir þingmenn og starfsfólk þingsins.“

Allt þetta fólk hefur ágæta vinnuaðstöðu og það ætti ekki að vera forgangsmál í því kreppuástandi sem ríkir á Íslandi að byggja slíkt monthús yfir skrifstofu Alþingis, að ekki sé nú talað um að ætla að troða 1.200 fermetra skrifstofubyggingu inn á lóð stjórnarráðshússins gamla og eyðileggja ásýnd þess, bara til að geta komið sívaxandi fjölda embættismanna ráðuneytisins fyrir. Enginn skortur er á vönduðu leiguhúsnæði í nágrenninu sem fá má á sífellt hagstæðari kjörum vegna aukins framboðs.

Helgi nefnir enn fleiri dæmi um útþenslu- og eyðslustefnu ríkisstjórnarinnar: „Fram hefur komið í vönduðum greinum í DV að starfsmenn forsætisráðuneytisins séu orðnir 54 talsins. Á tíma Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir áratug voru þeir 35 og ekki nema 15 árið 1988.“ Enn fremur er nú „skrifstofa jafnréttismála“ nú með sex embættismenn skráða með starfstitla. Þá er Jafnréttisstofa sérstök stofa með átta starfsmenn á launum og 162 milljónir króna á fjárlögum.

Helgi segir þetta ekki ganga til lengri tíma.

Við Íslendingar verðum að horfast í augu við þann raunveruleika sem nú blasir við. Ríkissjóður er rekinn með um 300 milljarða króna halla á árinu 2020 og fjárlög ársins 2021 gera ráð fyrir enn meiri halla. Við getum ekki bara látið eins og þetta sé allt í lagi og haldið áfram sömu útgjöldum hins opinbera og verið hefur, hvað þá aukið útgjöld.

Þá segir hann að eina leiðin út úr efnahagslegum hremmingum af völdum Covid-19 faraldursins sé að hið opinbera sýni ráðdeild og skynsemi.

Vefmiðlar taki við almannaþjónustuhlutverki RUV

Helgi gerir lítið úr digurbarkalegum fyrri yfirlýsingum stjórnmálamanna um að breyta „og jafnvel bylta,“ rekstri Ríkisútvarpsins, sem enn er á auglýsingamarkaði og með fimm milljarða í tryggðar tekjur frá skattgreiðendum landsins í formi útvarpsgjalds. „Sumir flokkar hafa ályktað með þessum hætti árum og jafnvel áratugum saman. En allt kemur fyrir ekki. Einungis innantóm orð stjórnmálamanna en engar efndir.“

Helgi bendir á að hlutverk „almannaþjónustu“ Ríkisútvarpsins væri gjörbreytt á tímum vefmiðla. Í því samhengi rifjar Helgi upp að stærstu miðlarnir eru Vísir.is, Mbl.is og loks DV.is og bendir á tölur Gallups, þar sem vefur RUV kemst ekki á verðlaunapall.

Í ljósi alls þessa er vandséð að löggjafinn geti varið lengur að ráðstafað sé milljörðum á ári til Ríkisútvarpsins til að uppfylla „almannaþjónustuhlutverk“ sem aðrir fjölmiðlar geta hæglega sinnt – og sinna – með miklum sóma þó þeir megi búa við mismunun af hálfu löggjafans. Virðist litlu skipta hvaða stjórnmálaf lokkar eru við völd hverju sinni. Þeir hafa látið undir höfuð leggjast áratugum saman að koma á réttlæti hvað þessa starfsemi varðar.

Við sem komum að rekstri einkarekinna fjölmiðla verðum að gera okkur ljóst að varla er við því að búast að stjórnvöld leiðrétti þá samkeppnisskekkju sem hér um ræðir. Stjórnmálamenn og stjórnmálaflokka virðist skorta kjark til að gera sjálfsagðar og sanngjarnar breytingar á umgjörð fjölmiðlarekstrar hér á landi. Þeim virðist þykja ágætt að ríkið eigi stærsta fjölmiðil landsins sem nýtur sín vel í bjagaðri samkeppni. Vera kann að þeir óttist sjálfir þessa ríkisstofnun. Er mögulegt að ýmsir stjórnmálamenn gætu hugsað sér að Ríkisútvarpið yrði eini alvörufjölmiðillinn á Íslandi? Kann að vera að einhverjum stjórnmálamönnum hugnist illa frjáls fjölmiðlun? Stundum læðist sá grunur að manni að skoðana- og tjáningarfrelsi eigi minna fylgi að fagna en ætla mætti.

Grein Helga má lesa í heilu lagi á vef Fréttablaðsins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigmundur segir það sem hann óttaðist vera staðfest – „Er Ísland búið að gera slíkar skuldbindingar?“

Sigmundur segir það sem hann óttaðist vera staðfest – „Er Ísland búið að gera slíkar skuldbindingar?“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Óttast að Samfylkingin fremji ódæðisverk – „Dæmd vanhæf og brottrekin með þeim rökum“

Óttast að Samfylkingin fremji ódæðisverk – „Dæmd vanhæf og brottrekin með þeim rökum“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ármann fer fögrum orðum um umdeildar áætlanir Kópavogs – Íbúar mótmæla áformunum

Ármann fer fögrum orðum um umdeildar áætlanir Kópavogs – Íbúar mótmæla áformunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn segir þetta vera mestu hættuna í kjölfar óeirðanna

Þorsteinn segir þetta vera mestu hættuna í kjölfar óeirðanna