fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Eyjan

Guðni segir þetta vera eitt stærsta góðverk ársins sem er að líða

Jón Þór Stefánsson
Miðvikudaginn 30. desember 2020 16:38

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra og framsóknarmaður, lofsyngur Kaupfélag Skagfirðinga í pistli sem birtist í Morgunblaðinu í morgun. Þar talar hann um góðverk Kaupfélagsins, sem hann telur mikilvægt að vekja sérstaka athygli á. Um er að ræða stórfellda matargjöf Kaupfélags Skagfirðinga til hjálparstofnana, sem nemur 40 þúsund máltíðum:

„Þessa dagana er loksins að rofa til á Íslandi. Fyrsta lota bóluefnis er komin til landsins og sól farin að hækka á lofti.

Skín við sólu Skagafjörður er þekktur ljóðabálkur þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar og full ástæða er til þess fyrir landsmenn að taka undir þá lofgjörð nú um hátíðarnar. Því veldur sú myndarlega matargjöf sem Kaupfélag Skagfirðinga færði þeim sem minna mega sín, og um leið þjóðinni allri, í aðdraganda jóla og áramóta.“

Guðni hrósar félaginu fyrir að gefa hjálparstofnunum 40 þúsund máltíðir til útdeilingar í aðdraganda jólanna. Þörfin hafi verið meiri en oft áður og við því hafi kaupfélagið brugðist við að sögn Guðna og tvöfaldað framlag sitt. Hann telur að hefði maður á borð við milljarðamæringinn Bill Gates gefið löndum sínum svipað hlutfall matargjafa, hefðu fjölmiðlar um allan heim sagt frá því, þar á meðal á Íslandi:

„Enda þótt kaupfélagið kysi að vanda að halda sér til hlés frá umræðu og athygli greindi Morgunblaðið frá því höfðinglega framtaki KS að gefa hjálparstofnunum fjörutíu þúsund máltíðir til útdeilingar í aðdraganda jólahátíðar. Ég hef fengið um það staðfestar upplýsingar að þörfin hafi verið enn meiri en ætlað var og kaupfélagið einfaldlega heitið hjálparstofnunum því að brúa það bil sem þyrfti til þess að allir sem á þurftu að halda gætu fengið matarþörf uppfyllta það sem eftir lifði ársins. Mér er sagt að þannig hafi framlag kaupfélagsins um það bil tvöfaldast. Um áttatíu þúsund matarpakkar hafi á síðustu vikum ratað til heimila bágstaddra úr þessari miklu matarkistu sem Skagafjörður svo sannarlega er. Það hefði orðið heimsfræg frétt hefði t.d. Bill Gates, einn ríkasti maður heims, gefið þjóð sinni, Bandaríkjamönnum, 80 milljónir máltíða fyrir hátíðarnar. Jafnframt hefðu íslenskir fjölmiðlar örugglega margsagt frá gjafmildi auðkýfingsins. En hlutfallslega er gjöf kaupfélagsins af þessari stærðargráðu.“

Þá lofar Guðni rekstur Kaupfélags Skagfirðinga sem hann fullyrðir að hafi alltaf verið til fyrirmyndar. Hann segir að allir nema „trúfastir ESB-sinnar“ átti sig á mikilvægi sjálfbærni Íslendinga í matvælaframleiðslu, en samkvæmt Guðna hafa bæði hrunið og heimsfaraldurinn kennt þjóðinni það:

„Rekstur Kaupfélags Skagfirðinga hefur alla tíð verið til fyrirmyndar. Órofa samstaða skagfirskra bænda í 130 ára sögu kaupfélagsins hefur lagt grunn að gjöfulli búmennsku sem nú orðið teygir sig langt á haf út og færir íslenskri þjóð mikil verðmæti úr auðlindum lands og sjávar. Öllum nema trúföstum ESB-sinnum er nú orðið fullljóst hve sjálfbærni Íslendinga í matvælaframleiðslu er mikilvæg. Hrunið kenndi okkur það og nú Covid-faraldurinn. Við eigum bændur og sjómenn sem eru líftrygging okkar fyrir búsetu hér. Fiskurinn, kjötið, mjólkurvörurnar og grænmetið okkar er talið í fremstu röð að heilnæmi og gæðum í veröldinni.“

Að lokum hrósar Guðni Skagfirðingum fyrir mannúð sína. Hann segir að hún ætti að vera öllum gott dæmi um sjálfbæra matvæla- og verðmætasköpun. Lokaorð hans eru á þann veg að íslenskir bændur séu sannir landverðir Íslands:

„Við getum lært margt af Skagfirðingum og skagfirska efnahagssvæðinu. Ekki einungis af leiðum þeirra til vandaðra búskaparhátta heldur einnig af höfðingsskap þeirra og lítillæti. Þessi mikla matargjöf, sem hér verður ekki reynt að meta til fjár, ætti að vera þjóðinni allri áminning um að standa vörð um sjálfbæra og verðmætaskapandi framleiðslu heilnæmra matvæla í þeirri íslensku náttúru sem okkur hefur verið treyst til þess að nýta og varðveita í senn. Þar eru og verða íslenskir bændur, hinir einu og sönnu landverðir okkar, í fremstu röð.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“

„Vilt ekki að það sé eitt barn í fjölskyldunni sem er vanrækt á kostnað hinna“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega

Guðjón Auðunsson: Áhyggjur af því að áhrif vaxtahækkana eigi eftir að bíta almenning alvarlega
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga

Mannréttindadómstóll Evrópu slær á puttana á íslenska ríkinu – Brutu gegn rétti til frjálsra kosninga
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd

Svarthöfði skrifar: Skortir heimildarmynd
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“

Jón Gnarr um framboð Katrínar – „Þetta stríðir gegn einhverju sem mér finnst eðlilegt og rétt“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran

Ole Anton Bieltvedt skrifar: ESB er miklu meira en sameiginlegur markaður og evran