fbpx
Laugardagur 31.október 2020
Eyjan

Sigmundur og Trump bornir saman – „Maðurinn gæti fallið í yfirlið af skömm“

Jón Þór Stefánsson
Föstudaginn 9. október 2020 10:35

Samsett mynd - Donald Trump og Sigmundur Davíð

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Rithöfundurinn og Framsóknarmaðurinn Jóhann F K Arinbjarnarson fjallar um þá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins og fyrrverandi forsætisráðherra, annars vegar og hins vegar Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, í pistli sem birtist á Vísi í gærkvöldi. Hann segir að þeir tveir hafi oft verið bornir saman, en í pistlinum skoðar hann hvar þeir séu líkir og hvar þeir séu ólíkir.

Jóhann byrjar á því að minnast á það þegar að þessir menn gengu út, í tilfelli Trump var það af blaðamannafundi, en hjá Sigmundi var það úr viðtali. Þá veltir Jóhann fyrir sér hversu margir stuðningsmenn Miðflokksins styðja Sigmund.

„Í byrjun ágúst á þessu ári stóð Donald Trump fyrir framan ræðupúlt í Hvíta húsinu og hældi sjálfum sér og sinni stjórn fyrir að hafa innleitt nýja löggjöf sem á að styðja við bakið á bandarískum mönnum og konum sem hafa lokið herþjónustu. Hin svokallaða „Veteran‘s Choice“- löggjöf gerir fyrrum hermönnum auðveldara að leita sér lækna- og sálfræðiþjónustu sérsniðna að eigin þörfum. Hélt forsetinn því fram að fyrirrennarar hans í embætti hefðu í marga áratugi, reynt árangurslaust að fá lagafrumvarp þetta samþykkt og að þetta væri til marks um stórkostlega stjórnunarhæfileika hans. Á ferli sínum sem forseti hefur Trump sagt margar lygar, en í þetta sinn reyndist lygin vera svo stór og svo augljós að blaðamenn í salnum neyddust vandræðalega til þess að benda forsetanum á að löggjöf þessi hefði verið lögð fram árið 2014 og undirrituð af fovera hans í embætti, Barack Obama. Trump batt þá tafarlaust enda á fundinn og gekk út úr salnum. Fullorðinn karlmaður á 74. aldursári, handhafi valdamesta embættis í heiminum, gekk út úr salnum lítandi út eins og illa skammaður hundur. Skottið var svo langt á milli lappanna að það var engu líkara en að maðurinn gæti fallið í yfirlið af skömm.

Það gerist ekki oft að maður sér þjóðarleiðtoga gera sig að athlægi og ganga út af blaðamannafundi. En þó er eitt slíkt atvik sem að situr þungt eftir í minningunni. Það atvik átti sér stað þann 3. apríl árið 2016. Sá sem þá gekk út úr viðtali með bernskulegum stælum ódáðadrengs og sitt eigið skott milli sinna lappa er núna leiðtogi síns eigin stjórnmálaflokks. Og nýlega greindi Fréttablaðið frá því að samkvæmt könnun sem Zenter-rannsóknir stóðu að myndu rúm 45% kjósenda þessa flokks kjósa Donald Trump ef að þau byggju í Bandaríkjunum. Kannski er eitthvað mjög heillandi við þjóðarleiðtoga sem ganga úr fjölmiðlaviðtölum sem að einfeldingur eins og ég skil ekki, hver veit. Persónulega þótti mér koma meira á óvart að 3-4% af kjósendum Pírata og Vinstri Grænna myndu kjósa Trump frekar en Biden. Mikið væri ég til í að hitta einn af þessum einhyrningum og eiga með viðkomandi gott spjall yfir kaffibolla, tel ég að það væru merkilegar samræður, en það er önnur saga fyrir annan pistil.

Oft og mörgum sinnum hefur samanburðurinn á Donald Trump og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni borið á góma. Ætla ég að fara aðeins yfir þennan samanburð og sjá hvort að hann sé réttlætanlegur.“

Jóhann telur miklar breytingar hafa átt sér stað í Sigmundi frá því að hann hafi verið forsætisráðherra. Að hans mati hafi fyrsta útgáfa Miðflokksins verið einskonar „copy/paste“-útgáfa af Framsóknarflokknum, með sömu stefnumál, en stærri lýsingarorð. Nú sé hann flokkur “samsæriskenninga, málþófs og afvegaleiðandi umræðu“.

„Eitthvað var breytt. Kannski var það hin ómælanlega, íþyngjandi ábyrgð sem fylgir ráðherrastólnum, kannski var það skömmin með hvernig hann kom fram í viðtalinu eða kannski voru það fimmtán þúsund reiðar raddir á Austurvelli. En innan í manngreyjinu var eitthvað sem brotnaði. Svo slæmur var sársaukinn að hann gat ekki einu sinni fengið það að sér að veita viðtal að loknu flokksþinginu og í kosningabaráttunni fékkst hann ekki einu sinni til þess að ræða við Sigurð Inga í síma. Kosningabaráttan fór fram án nokkurs samráðs milli þessara fyrrum samherja og vina, þrátt fyrir að þeir voru enn í sama flokk sem að þá var enn í ríkisstjórn.“

„En í því pólitíska andrúmslofti sem að nú ríkir hefur Miðflokkurinn tekið að sér það hlutverk að vera flokkur samsæriskenninga, málþófs og afvegaleiðandi umræðu. Nú situr flokkurinn sig upp á móti 3. orkupakkanum. Þrátt fyrir að þegar formaðurinn var sjálfur forsætisráðherra hafi hann tekið á móti David Cameron, þáverandi forsætisráðherra Bretlands, og farið afar fögrum orðum um þann möguleika á að leggja sæstreng til þess að selja orku á Bretlandsmarkað. Bretland var þá enn hluti af Evrópusambandinu. Þetta er flokkur sem að notar hvert tækifæri til þess að gagnrýna ríkisstjórnina fyrir að taka Covid-faraldurinn ekki nægilega föstum tökum. En greiðir síðan atkvæði með nánast öllum þeim aðgerðum sem að ríkisstjórnin leggur fram á þingi. Flokkur sem að hælar sér fyrir að vilja bæta hag almennings í landinu. En er síðan eini flokkurinn sem að einhliða greiðir atkvæði gegn innleiðingu nýrra námsstyrkja sem að hafa það að markmikið að draga úr skuldbyrgði íslenskra námsmanna.“

Í pistli sínum segir Jóhann að samanburðurinn á milli Sigmundar og Trumps sé mest áberandi þegar að munurinn á orðræðu og atkvæðagreiðslu Miðflokksins sé skoðaður, en hann segir að flokkurinn sé einungis samkvæmur sjálfum sér í málefnum sem snerta íhaldssama kjósendur hvað mest. Þá ber Jóhann ennig „fjármálaglæfra“ Trump og Sigmundar saman.

„Og það er hér sem að samanburðurinn við stjórn Donalds Trump á sér hvað sterkastar rætur. Það er gersamlega ekkert samræmi milli orðræðu Miðflokksins og hvernig hann greiðir atkvæði á Alþingi. Í einu skiptin sem að flokkurinn er samkvæmur sjálfum sér er þegar um er að ræða málefni sem vega þungt á sálum hinna mest íhaldsömu kjósenda vors lands. Eins og til að mynda frumvarp um fóstureyðingar sem samþykkt var á Alþingi nýverið en þá greiddu þingmenn Miðflokksins einhliða atkvæði gegn frumvarpinu.“

„Fjármálaglæfrar Donalds Trump eru svo margir og svakalegur að ekki er hægt að gera grein fyrir þeim öllum hér án þess að gera pistilinn að heilli símaskrá. Hér eru þó önnur líkindi með þeim Trump og Sigmundi; báðir hafa dálæti á „fjárfestingum“ í Panama. Munurinn er hins vegar sá að Sigmundur er verulega snjall maður og hefur, að mér vitandi, aldrei sett fyrirtæki í gjaldþrot, hvað þá á sama skala og Trump.“

Að lokum fjallar Jóhann um viðbrögð við Covid. Þar segir hann að Trump hafi brugðist verulega, hann segir aftur á móti hefði Sigmundur ekki brugðist eins illa við faraldrinum, en hann segir að Sigmundur sé nefnilega „sæmilega snjall“ og að þar liggi munurinn sem er þeirra á milli.

„Hér er þó ekki hægt að bera Sigmund saman við Trump. Ég efast um að ástandið á Íslandi og þær aðgerðir sem hér voru gerðar hefðu verið mikið öðruvísi ef faraldurinn hefði skollið á ef Sigmundur væri forsætisráðherra. Aftur er ástæðan nokkuð einföld: Sigmundur er þrátt fyrir allt sæmilega snjall.

Og það er kannski þar sem munurinn á Sigmundi Davíð og Donald Trump er hvað mest áberandi: Trump er eins og hann er vegna þess að hann veit ekki betur. Sigmundur Davíð er eins og hann er vegna þess að hann hefur ekki fundið neina aðra leið frammá við eftir skellina sem hann fékk árið 2016. Á sama tíma og Sigmundur horfði á völd sín dvína og þjóðin og kollegar hans snúðu við honum baki fylgdist hann með hvernig gjaldþrota raunveruleikastjarna með ekkert skynbragð fyrir stjórnmálum hrifsaði til sín öll völd í öflugasta ríki Jarðar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þráinn Bertels sér tækifæri í stóra fánamálinu – Vill að fleiri beri samskonar merki og lögreglukonan

Þráinn Bertels sér tækifæri í stóra fánamálinu – Vill að fleiri beri samskonar merki og lögreglukonan
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Fréttaskýring: Yfirgnæfandi líkur á sigri Bidens en Trump ekki af baki dottinn

Fréttaskýring: Yfirgnæfandi líkur á sigri Bidens en Trump ekki af baki dottinn
Eyjan
Fyrir 1 viku

Leggur til að Píratar og Samfylkingin sameinist – „Píratahreyfingin erlendis er næstum dauð“

Leggur til að Píratar og Samfylkingin sameinist – „Píratahreyfingin erlendis er næstum dauð“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Iðnaður gæti orðið helsti drifkraftur viðspyrnu eftir heimsfaraldurinn

Iðnaður gæti orðið helsti drifkraftur viðspyrnu eftir heimsfaraldurinn